Hafrún Kristjánsdóttir íþróttasálfræðingur segir að þessa dagana sé mikið rætt um mental toughness í íþróttaheiminum sem mætti þýða sem andlega seiglu. Hún segir andlega seiglu vera mikilvæga til að ná góðum árangri í íþróttum.

„Skilgreiningin á henni er í raun geta einstaklinga að ná persónulegum markmiðum sínum þrátt fyrir hindranir og streituvaldandi aðstæður,“ útskýrir hún.

Hafrún segir að í grunninn samanstandi andleg seigla af fjórum þáttum. Áhuga, getu til að takast á við streitu, sjálfstrausti og einbeitingu.

„Maður verður að hafa áhuga til að ná markmiðum sínum. Það dugir ekki bara að skrifa þau niður. Maður verður að hafa vilja til að ná þeim og gera það sem þarf til þess,“ segir hún.

„Í þeim efnum hjálpar að búa til skammtímamarkmið að langtímamarkmiðunum. Það hjálpar líka að sjá fyrir sér að maður sé að ná markmiðum sínum og árangri.“

Hún segir einnig mikilvægt að geta tekist á við streituvaldandi aðstæður í maraþonhlaupi til að ná að þrauka í gegnum erfiðu og leiðinlegu partana af hlaupinu.

„Því stundum verður þetta helvíti erfitt. Það þarf líka að byggja upp sjálfstraust en það eru til margar leiðir til þess,“ segir hún.

„Svo er það fjórði þátturinn sem er að vera með einbeitinguna á réttum stað. Það er mikilvægt að láta ekki utanaðkomandi þætti sem skipta ekki máli fyrir frammistöðuna trufla sig. Það þarf að fókusa á það sem maður hefur stjórn á og láta það sem maður hefur ekki stjórn á lönd og leið.“

Gott að skipta hlaupinu í kafla

Hafrún segir að í raun eigi þetta við um allt sem maður vill ná árangri í, en að andleg seigla sé sérstaklega mikilvæg fyrir maraþonhlaupara sem þurfa að halda út lengi.

„Það er gott fyrir maraþonhlaupara að vera tilbúnir með sjálfstal. Að vera búnir að ákveða fyrirfram hvað þeir ætla að segja við sjálfa sig þegar erfiðleikarnir koma. Eins og ef þeir finna fyrir verkjum í fótum, eru þreyttir eða þegar erfið brekka er fram undan og þeir þurfa að peppa sig áfram,“ segir hún.

„Það er gott að ákveða fyrirfram hvernig tækla á aðstæður sem koma upp þar sem þig langar helst að stoppa. Það er líka gott að skipta hlaupinu í huganum í litla kafla. Þetta er eins og að borða fíl. Það þarf að gera það í litlum bitum.“

Hafrún segir líka að gott sé að loka augunum og sjá sig fyrir sér sigrast á ákveðnum köflum hlaupsins.

„Þetta er sniðugt ef þú veist fyrirfram hvaða kaflar eru erfiðir. Ef þú sérð þig fyrir þér sigrast á þeim köflum þá ertu tilbúnari andlega til að koma inn í þá kafla,“ segir hún.

„Kári Steinn Karlsson hefur sagt frá því að þegar hann var að keppa í London og þegar hann náði Ólympíulágmarkinu, þá hafi hann verið búinn að skrifa skilaboð til sín á vatnsbrúsana. Það eru allir með sína vatnsbrúsa og hann sendi sjálfum sér hvetjandi skilaboð sem hann skrifaði á þá. Þegar hann kom á hverja stöð þá sá hann skilaboðin. Ég man að hann sagði að þegar hann náði ólympíulágmarkinu fyrir London þá voru skilaboðin á síðasta brúsanum: London 2012. Þessi skilaboð hvöttu hann áfram síðustu metrana.“

Að skrifa hvetjandi skilaboð á vatnsflöskur er gott ráð. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY