Ég útskrifaðist með seinna háskólaprófið í landslagsarkitektúr árið 1993 en ég var svona aðeins farinn að starfa við þetta árið 1991,“ segir Björn. Hann er mestmegnis í því að teikna garða fyrir fólk en veitir einnig ráðgjöf.

„Það eru til tvær tegundir af garðeigendum. Þeir sem eru að rækta upp blómagarð eða skrúðgarð og svo hinir sem vilja útivistargarða. Það er seinni hópurinn sem hefur verið að leita til mín. Þetta er fólk sem vill geta grillað úti í garði og vill nota garðinn mikið. Ég hanna alls kyns yfirbyggð svæði með hiturum og heitum pottum og ráðlegg fólki hvar það getur sett upp markísur og fleira. Fólk er miklu meira í því nú en áður að setja upp útieldhús, kampavínsveggi, eldstæði og föst húsgögn í garðinum“

Fólk er farið að nota garðana meira til útivistar.

Björn segir það nýjasta í garðhönnun vera smáhýsi. „Nú má byggja 15 fermetra smáhýsi í garðinum með tiltölulega litlum kvöðum. Fólk nýtir það mikið við að ná sér í geymslusvæði eða garðskála í garðinn. Það er alveg nokkuð borðleggjandi að það verða kynslóðaskipti í hverfunum og görðunum þegar eldra fólk flytur út einbýlishúsunum til að minnka við sig. Þá er það oft búið að safna plöntum í áratugi. Fyrir 30 árum voru pallar og stéttir yfirleitt þriðjungi minni. Þegar ég kom fyrst úr námi þá var ég kannski að teikna 15-20 fermetra palla. Núna er algengt að þeir séu 70-100 fermetrar.

Björn segir vinsælt að setja upp smáhýsi í einkagörðum.

Til að garðurinn nýtist vel sem útivistargarður er mikilvægt að hafa gott skjól. Björn segir að þá þurfi að huga að vindáttunum. „Það er alveg lykilatriði á Íslandi að ná fram góðu skjóli í góðviðrisáttum. Á höfuðborgarsvæðinu til dæmis þá eru það norðlægar áttir sem fylgja sól og björtu veðri. Ef þú nærð ekki góðu skjóli, þá geturðu bara gleymt þessu,“ segir Björn.

Björn segir algengt að búa til skjól með þaki svo hægt sé að nota garðinn allt árið. „Um leið og þú ert kominn með þak er þægilegt að grilla og þú getur verið með hitara undir þakinu. Stundum eru hús staðsett þannig að nánast ómögulegt er að búa til skjól. En þá er hægt a setja upp gróðurhús eða skála. Það eru alls konar lausnir í boði.“

Mikilvægt að gefa sér tíma

„Það sem ég myndi fyrst og fremst ráðleggja fólki sem er að flytja í nýjan garð, hvort sem hann er gróinn eða ekki, er að gefa sér tíma. Ég er til dæmis yfirleitt með þriggja mánaða biðlista á mína þjónustu, það skánar aðeins í desember og lengist aðeins í maí júní. Fólk þarf fyrst og fremst að hugsa hvað það ætlar að gera, hvort sem það það hyggst nota hjálp landslagsarkitekts, eða skoða Pinterest til dæmis. Það eru alls konar leiðir til þess að fá hugmyndir,“ segir Björn.

Pallar í görðum eru orðnir mun stærri en þeir voru á 10. áratugnum.

Björn segir að ef fólk gefi sér tíma til að ákveða hvað það vill gera og láti teikna fyrir sig garðinn að vetri til og leiti eftir það til verktaka til að framkvæma þá sé líklegra að garðurinn geti verið tilbúinn að sumri til. „Ég ráðlegg fólki ekki að byrja að huga að framkvæmdum í maí og reikna með að garðurinn verði tilbúinn 17. júní.

Ef fólk er í vandræðum með að fá hugmyndir um hvað það vill hafa í garðinum er sniðugt fyrir það að ímynda sér að það ætli að halda garðpartí ársins. Út frá því er hægt að spá í hvað þarf að vera til staðar. Það getur verið útieldhús, kampavínsveggur, grillstæði, eldstæði, sæti, gufubað. Ef fólk tekur þessa nálgun geta komið skemmtilegar hugmyndir,“ segir Björn.

Björn segir mikilvægt að búa til gott skjól svo garðurinn nýtist betur.

Að lokum minnist Björn á að mikilvægt sé að hugsa um kolefnisspor þegar farið er í garðaframkvæmdir. „Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á umhverfisvænar lausnir. Það sem heillar mig mest er að endurnýta efni. Til dæmis ef fólk er að taka upp hellur í görðunum hjá sér að endurnýta þær þá. Það sama gildir um timbur. Ég væri meira að segja til í að fara í samstarf við Sorpu um að endurnýta efni frekar en að endurvinna það. Alveg eins er mikilvægt að hafa í huga lausnir með ofanvatnið. Við látum allt of mikið renna í afrennslislagnir, klóakið og yfirborðsfráveiturnar. Ég held það verði stórt mál í framtíðinni að halda því vatni sem rignir á lóðina hjá þér inni á lóðinni en veita því ekki burt.“