Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið viðburðaríkt ár hjá Bíó Paradís. Eftir að hafa þurft að loka í mars í fyrstu COVID-bylgju náðust samningar við ríki, borg og leigusala, sem tryggðu framtíð Bíó Paradísar á Hverfisgötunni áfram.

„Við fórum þá á fullt í að gera alls konar þarfar endurbætur á húsnæðinu, rifum allt út úr anddyrinu og byggðum nýjan bar, bólstruðum sætin í sölunum og settum upp glæný tjöld og fengum splunkunýja sýningarvél í Sal 1, svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerðum við allt með frábæru teymi iðnaðarmanna og ekki síst sjálfboðaliða sem mættu hérna margar helgar í röð í sumar og lyftu algjöru grettistaki. Það er einmitt búið að vera svo magnað í gegnum þetta erfiða ár að finna stuðninginn og velvildina sem fólk ber til Bíó Paradísar,“ segir dagskrárstjóri bíóhússins, Áslaug Torfadóttir.

Gott að fá fólk í húsið

Bíóhúsið var opnað aftur um miðjan september, í kringum 10 ára afmæli Bíó Paradísar.

„Okkur langaði svakalega að halda bara risapartí og opna með stæl en aðstæður í samfélaginu buðu því miður ekki upp á það. En það verður gert seinna. En í staðinn fengum við tækifæri til að vinna með skipuleggjendum Skjaldborgar – hátíðar íslenskra heimildamynda, sem höfðu neyðst til að fresta hátíðinni tvisvar. Við gátum boðið þeim að vera með Skjaldborg í Bíó Paradís sem var mjög viðeigandi, þar sem Bíó Paradís hefur alltaf lagt áherslu á að styðja við íslenska heimildamyndagerð. Þannig að það var alveg frábært og gott að fá fólk í húsið aftur.“ Hún segir vel hafa gengið miðað við aðstæður.

„Við finnum að fólk er glatt að fá okkur aftur, en auðvitað hefur faraldurinn og hert samkomutakmörk sett okkur svolítið stólinn fyrir dyrnar með að keyra alveg aftur í gang á fullum hraða. En við vinnum auðvitað eftir reglum og erum sem betur fer orðin ansi sjóuð í að stokka upp hlutina með litlum fyrirvara.“

Sýningum hefur verið fækkað þannig að aldrei eru of margir í húsinu á sama tíma.

„Svo seljum við auðvitað mun færri miða á hverja sýningu og pössum að gott pláss sé á milli sæta. Það er grímuskylda í sölunum og við erum með ókeypis grímur í sjoppunni ef fólk gleymir sinni heima. Svo er handspritt úti um allt og starfsfólkið þrífur alla snertifleti oft á dag. En við erum enn að sýna mjög skemmtilegar og spennandi myndir til dæmis frönsku myndina The Specials eftir leikstjóra The Intouchables og Um hið óendanlega eftir Roy Anderson, sem hefur verið mjög vinsæll á Íslandi. Þannig að það er enn hægt að koma í bíó og njóta áhugaverðra kvikmynda í öruggu umhverfi,“ segir Áslaug.

Norræn kvikmyndaveisla

Næst á dagskránni hjá Bíó Paradís er kvikmyndaveisla í tilefni Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.

„Þar sýnum við allar fimm myndirnar sem eru tilnefndar, bæði í bíó og á netinu. Ástandið í heiminum hefur orðið til þess að kvikmyndabransinn allur hefur neyðst til þess að hugsa svolítið út fyrir kassann og finna nýjar leiðir til að koma myndum á framfæri. Auðvitað eru streymisveitur ekkert nýtt fyrirbæri, en það er nýtt að kvikmyndahátíðir séu farnar að færa sig að miklu leyti á netið. Flestar stærstu kvikmyndahátíðirnar eins og í Cannes og Toronto voru að miklu leyti á netinu í ár. RIFF gerði þetta einnig hérna með góðum árangri. Við viljum auðvitað bara að sem flestir geti séð þessar myndir þrátt fyrir samkomubannið. Þannig að nú verður hægt að kaupa sig inn á myndirnar í gegnum heimasíðu Bíó Paradísar,“ segir hún.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2002, á hálfrar aldar afmæli Norðurlandaráðs.

„Þau hafa verið veitt árlega um leið og önnur verðlaun ráðsins síðan 2005. Íslenskar myndir hafa tvisvar hlotið verðlaunin, fyrst 2014 þegar Hross í oss hlaut þau og svo aftur 2018 þegar Kona fer í stríð fékk þau, en báðar myndirnar eru í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Verðlaunin áttu að vera afhent í Reykjavík þann 27. október við hátíðlega athöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs en COVID-19 setti strik í reikninginn þar eins og annars staðar,“ sen verðlaunin verða veitt í sérstakri sjónvarpsútsendingu á RÚV, þriðjudaginn eftir helgi, ásamt öðrum verðlaunum Norðurlandaráðs.

Ein mynd er tilnefnd frá hverju Norðurlandi og segir Áslaug keppnina einstaklega harða í ár.

„Þetta eru allt frábærar myndir. Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson er tilnefnd fyrir Íslands hönd og er kannski sú sem sker sig mest úr í hópnum, enda er hún ekki með eiginlegan söguþráð, heldur bregður upp svipmyndum úr lífi Íslendinga í kringum jólin. Henni hefur gengið mjög vel á hátíðum úti og hlotið fjölda verðlauna þannig að það verður gaman að sjá hvort hún bæti við sig einum til á þriðjudaginn.“

Kvikmyndahátíð fyrir börn

Stefnt er á að halda alþjóðlega barnakvikmyndahátíð um leið og aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.

„Henni höfum við þurft að fresta tvisvar. Hún verður líklegast að miklu leyti á netinu líka, því það er engin fjöldatakmörkun á internetinu. Þar sýnum við fjölbreytt úrval kvikmynda fyrir börn og unglinga, alls staðar að úr heiminum. Til dæmis er opnunarmyndin okkar hin danska teiknimynd Muggur og götuhátíðin, eftir skopmyndateiknarana Wulfmorgenthaler sem eflaust margir þekkja. Við erum búin að láta talsetja hana á íslensku þannig að allir ættu að geta haft gaman af henni. Svo erum við með nýjar evrópskar leiknar myndir, japanskar teiknimyndir, íslenska klassík, stuttmyndapakka og fleira og fleira.“

Áslaug segir kvikmyndahúsið ætla að bjóða upp á stutt kennslumyndbönd á netinu, í staðinn fyrir vinnustofur sem þau efndu vanalega til í tilefni Barnakvikmyndahátíðarinnar.

„Þessu verður öllu streymt af okkar eigin streymisveitu, Heimabíó Paradís, sem við erum á fullu að setja upp núna. Þar verða líka myndirnar okkar aðgengilegar, bæði gamlar og nýjar, svo hægt verður að fá Bíó Paradís-upplifunina heim í stofu.“

Kvikmyndaveislan í tilefni Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs hefst í dag í Bíó Paradís og á bioparadis.is. Hún stendur til og með mánudeginum.