Daði Freyr og Gagnamagnið frumsýna glænýtt tónlistarmyndband við lagði 10 Years, sem er framlag Íslands í Eurovision 2021.

Eldgosið í Geldingadölum kemur fyrir í myndbandinu með mögnuðum drónamyndum frá Garðari Ólafssyni en í sögunni bjargar Gagnamagnið málunum eftir að gosskrýmsli kemur úr iðrum jarðar til að traðka á smábæjum Íslands.

Ólafur Darri Ólafsson, einn ástsælasti leikari Íslands, leikur nokkurs konar fulltrúa Íslands og er á kreditlista sem „Mayor of Iceland.“

Aðdáendur Gagnamagnsins sjá einnig bregða fyrir leikurunum sem slógu í gegn í tónlistarmyndbandi Think About Things en það er sama teymi og framleiddi fyrra Eurovision myndbandið sem snýr aftur til að vinna með Gagnamagninu.

Leikstjórinn Guðný Rós Þórhallsdóttir er konan í brúnni og Birta Rán Björgvinsdóttir er henni til halds og trausts sem tökukona.

Hér fyrir neðan má sjá tónlistarmyndbandið sem birtist í dag klukkan 11:00.