Sjón­varpskokkurinn heims­frægi Gor­don Rams­ey hefur verið sakaður um menningar­nám af matar­gagn­rýnanda og að ýta undir asíska stereó­týpur vegna glæ­nýs veitinga­staðar að nafni „Lucky Cat“ sem hann opnaði í London nú á dögunum en veitinga­staðnum er lýst sem „al­vöru asískum“ veitinga­stað. Guardian greinir frá.

Angela Hui, gagn­rýnandi, segist ekki átta sig á ná­kvæm­lega hvaða mat veitinga­staðurinn ætli sér að selja og gagn­rýnir kokkinn. „Er þetta japanskur? kín­verskur? asískur? Hverjum er ekki sama?“ Þá benti hún á að hún hefði verið eini ein­stak­lingurinn af asískum upp­runa í risa­stórum hópi sem boðið hefði verið á opnunar­kvöld staðarins.

Sjón­varpskokkurinn brást ó­kvæða við gagn­rýninni og sagðist hafa fengið já­kvæð við­brögð að miklu leyti við staðnum en sagðist þurfa að bregðast við gagn­rýni Hui. Hann sagði að um­mæli hennar hefðu verið niðrandi og móðgandi og sagði að hana skorti fag­mennsku.

Um­mælin vöktu nokkra at­hygli og var kokkurinn harð­lega gagn­rýndur af ýmsum net­verjum í kjöl­farið og talinn virða að vettugi gagn­rýnina með öllu. Staðnum er lýst sem „al­vöru asísku veitinga­húsi sem býður upp á síð­kvölds­sumbl og sækir inn­blástur í veitinga­hús í Tokyo og Austur­lönd fjær.“