S sérfræðingar óttast að vegna þessa muni skammdegisþunglyndi fara upp úr öllu valdi. Og þríeykið mælir með göngutúrum. Jafn taktlaus og göngutúr hljómar í þessu samhengi, mælir samt margt með því að bæta þessu einfalda atriði inn í daglega rútínu. Fjöldi rannsókna sýnir fram á að sú einfalda aðgerð að setja einn fótinn fyrir framan hinn geti haft gríðarlega jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu. Þessu greinir vefmiðill NBC frá í grein sinni.

Stöðnun eða stöðug tilbreyting

Að sögn Dr. Matts Tanneberg, kírópraktors í Phoenix í Arizona sem sérhæfir sig í að vinna með íþróttafólki, getur göngutúr verið jafnmikil og jafnvel betri æfing fyrir líkamann heldur en að skokka. „Þegar fólk gerir sömu æfingarnar aftur og aftur þá staðnar það og hættir að sjá árangur. Ég fæ oft til mín fólk sem hefur upplifað stöðnun við hlaup. Þetta fólk hleypur sama kílómetrafjölda á sama tíma og hraða, daginn út og daginn inn. Það þarf stöðuga tilbreytingu í æfingarútínuna til þess að öðlast mesta mögulegan árangur fyrir heilsuna,“ segir hann.

Betri kostur fyrir suma

Að hlaupa er vissulega meira krefjandi fyrir líkamann en ganga, og fólk heldur því að hlaup sé betri þjálfun en ganga. Að mati John Fords, þjálfunarlífeðlisfræðings sem rekur líkamsræktarstöð í New York, þá vill hann ekki staðhæfa að ganga geti verið jafnáhrifarík þjálfun eins og hlaup. „Það ætti í raun ekki að bera þetta tvennt saman. Hlaup munu alltaf fá vinninginn í samanburðinum vegna þess að þau hafa meiri virkni á vöðva, krefjast meiri orku og krafts og hraðari hreyfinga,“ segir hann, en bætir þó við að þó svo ganga sé ekki betri þjálfun, þá geti hún verið betri æfingakostur fyrir marga. „Til dæmis er ganga tilvalin fyrir þá sem þjást af hné-, ökkla- eða bakvandamálum. Einnig er ganga betri kostur fyrir þá sem eru í ofþyngd. Ganga veldur litlu álagi og er framkvæmanlegri til lengri tíma en hlaup.“

Nýfallinn snær gerir Elliðaárdalinn að undralandi. Fréttablaðið/ Eyþór Árnason.

Margvísleg jákvæð áhrif

Ann Green, sem er fyrrum sjöþrautarkeppandi á alþjóðavísu, jógakennari og eigandi líkamsræktarstöðvar, segir að það að ganga sé fyrirtaksþjálfun. Hún segir að reglulegar göngur bæti líkamshreysti, hjartaheilsu, slái á þunglyndi og þreytu, bæti skapið, minnki álag á liði og slái á sársauka, geti komið í veg fyrir þyngdaraukningu, minnki líkurnar á krabbameini og krónískum sjúkdómum, auki þrek og blóðflæði, bæti líkamsstöðu og svo margt fleira.

Að sögn einkaþjálfarans Chrys Crockett er hægt að fá jafnmikla þjálfun út úr því að ganga eins og að hlaupa á hlaupabrettinu. „Þetta snýst allt um það hvernig þú nýtir stillingarnar þér í hag,“ segir hann. Þá er hægt að leika sér með hallann á brettinu, hraða, nota handlóð eða festa á ökkla. Svo má líka breyta göngulaginu með því að gera háar hnélyftur, ganga til hliðar, setja hæla í rass, valhoppa, taka stór skref og lítil og margt fleira.

Ganga fyrir sköpunargáfuna

Samkvæmt rannsókn sem gerð var á vegum Stanford háskólans, jókst sköpunarafrakstur fólks að meðaltali um 60%. Um er að ræða sérstakt hugsanaferli þar sem margs konar mismunandi útkoma er skoðuð, sem leiðir til skapandi hugmynda. Samkvæmt rannsókninni opnaði gangan fyrir frjálst flæði hugmynda og má líta á göngu sem einfalda leið til þess að bæta skapandi hugsun.