Kjell leggur áherslu á að hann sé engin sérfræðingur í útivist og heilsu. „Ég er bara venjulegur maður sem hef gaman af að hreyfa mig,“ segir hann. „En ég er ekkert betri en aðrir í því.“

Það er samt nokkuð ljóst að hægt er að taka Kjell sér til fyrirmyndar þegar kemur að því að stunda daglega hreyfingu til heilsubótar.

„Ég hef alla tíð stundað mikla útivist. Alveg frá því ég var mjög lítill. En það kom tímabil þar sem ég minnkaði það. En síðustu 10-15 árin hef ég verið að taka mig á, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því að ég var að fara að nálgast eftirlauna aldur. Þá ákvað ég að breyta um stefnu og fara aftur meira út að hreyfa mig,“ segir Kjell.

„Ég varð sjötugur fyrir nokkrum vikum síðan og núna er stefnan að hreyfa mig fjórum til sex sinnum í viku. Þá fyrst og fremst að fara í lengri göngutúra og hjólreiðar. Gönguferðirnar geta til dæmis verið í kringum Kársnes, upp í Breiðholt og í Heiðmörk, ég hef gengið mikið þar. Ég hef verið í gönguhóp og gengið mikið með honum í gegnum tíðina en það hefur minnkað eftir að ég varð eldri,“ útskýrir hann.

Kjell lætur göngur ekki duga, á veturna fer hann einnig mikið á gönguskíði og segir aðstöðuna til gönguskíðaiðkunar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess til fyrirmyndar.

„Það er búið að vera frábært færi í Heiðmörk í vetur og líka á Hólmsheiði og í Bláfjöllum. Þetta eru frábær útivistarsvæði yfir vetrartímann, aðstaðan er mjög flott. Það er orðið svo auðvelt að stunda útiveru í dag, það eru fínir og öruggir hjólreiða- og göngustígar úti um allt. Þetta hefur batnað mikið á undanförnum árum,“ segir hann.

Kjell Hymer notar hjólið sitt mikið á sumrin en á veturna iðkar hann gönguskíði á þeim fjölmörgu fallegu útivistarsvæðum sem finna má á höfuðborgarsvæðinu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Úrvalið betra en áður

Kjell segist finna fyrir meiri áhuga meðal fólks á útivist núna en áður var. Hann segir einnig að úrvalið og gæðin á skíðum og hjólum hafi aukist mikið.

„Fyrir 20 til 30 árum var til dæmis erfitt að finna gönguskíði. En úrvalið hefur batnað gríðarlega, bæði á útivistarbúnaði, fatnaði og öllu sem snýr að gönguferðum og útivist,“ segir hann.

Þegar Kjell er spurður hvort útivist sé aðaláhugamálið svarar hann að áhugamálin séu mörg.

„En ég þarf að hreyfa mig reglulega. Ég fer stundum einn en ég er líka í gönguhóp, en eins og ég sagði áðan þá fer ég minna með þeim núna en áður. En ég hjóla mikið og fer á skíði með tveimur vinum mínum,“ segir hann.

Kjell hefur ekki látið duga að fara á gönguskíði á veturna en hann á hjólaskíði sem hann hefur notað til að æfa sig á sumrin.

„Ég notaði þau meira þegar ég var yngri, í dag þarf ég að passa mig, maður þarf að hafa gott jafnvægi á hjólaskíðum. Þegar maður er kominn á þennan aldur er maður smeykur við að detta, en ég ætla samt að fara eitthvað á þau í sumar,“ segir Kjell hress.

„Ég notaði líka mikið kajak þegar ég var yngri. En fyrst og fremst finn ég, þegar ég er kominn á þennan aldur, að það að hjóla og ganga er ofsalega góð hreyfing. Það er alveg nauðsynlegt að ganga, ég finn það. Það þarf ekki að hlaupa það fer verr með líkamann, en að ganga í góðum gönguskóm er það besta.

Það er líka gott að ganga með stafi. Til dæmis ef fólk fer í Heiðmörk og eða á Esjuna og notar stafi þá brennir það meiru. En ég viðurkenni að ég er ekki nógu duglegur að nota stafi.“

Kom ungur frá Noregi til Íslands

Kjell er norskur en flutti til Íslands sem ungur maður. Í Noregi vandist hann því að stunda mikla útivist og fer hann enn reglulega þangað þar sem hann á bústað í fjöllunum.

„Ég var 27 eða 28 ára þegar ég kom til Íslands. Ég stundaði gönguskíði mikið í Noregi og líka skíði. Ég er nýkominn heim frá Noregi úr bústaðnum mínum. Mér finnst gott að fara þangað og njóta útiveru,“ segir hann.

„Mér finnst líka frábært að stunda útivist á Íslandi. Áður fyrr fór ég mikið á hálendið með gönguhópnum mínum, en ég var í sama gönguhópnum í 20-25 ár. Við fórum mikið á hálendið á sumrin. Við gengum út um allt, austur og vestur, suður og norður. Við byrjuðum frumstætt og gengum með tjöld og allt með okkur. En það endaði svo í meiri lúxus síðustu árin þar sem við gistum í skálum,“ segir hann og hlær.

Kjell segir að sér finnist göngur frábær leið til að skoða landið.

„Sérstaklega þar sem ég er útlendingur, þá er frábær leið að kynnast landinu að ganga um allt. Sérstaklega ef maður er með góða leiðsögumenn, heimamenn sem geta sagt manni til, það er frábært,“ segir hann.

„En það þarf ekki að fara langt. Að nota Esjuna og Heiðmörkina yfir sumartímann er afar gott og Hengilsvæðið er líka flott. Það er fullt af stórkostlegum gönguleiðum hér í nágrenninu.

Svo má ekki gleyma því að garðvinna er líka góð hreyfing. Fyrir þau sem hafa möguleika á að vinna í garðinum þá er það mjög gott fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu.“