Fjallgöngur og göngur eru frábær leið til þess að kynnast landinu okkar, fá smá frískt loft í lungun, pústa aðeins og koma hjartslættinum í gang. Flest sem hafa stundað einhverjar göngur hafa lent í því að fá slæmt hælsæri og þurft að haltra stóran hluta leiðarinnar vegna sársaukafullrar blöðru eða annarra fótasærinda. Stundum tekst að gleyma sársaukanum um stund en um leið og sest er niður í nestispásur eða álagið verður óhagstætt, blossar sársaukinn upp og það reynist erfitt að njóta útiverunnar eins og best yrði á kosið.

Ýmislegt er þó hægt að gera til þess að koma í veg fyrir blöðrumyndun og með þessum ráðum ættu flest að geta skundað út í göngutúr.

Krem á býfurnar

Þurrir og skorpnir fætur geta verið vandamál þegar farið er í lengri göngur. Ef Fimmvörðuhálsinn er á planinu eða annað þá er ekki slæm hugmynd að bera á sig gott fótakrem daglega um það bil viku fyrir göngu.

Kvartandi kartneglur

Klipptu táneglurnar. Táneglurnar eru nefnilega oft eitthvað sem gleymist að huga að enda eitthvað sem er kannski ekki fyrir augunum á manni allan daginn. En langar táneglur geta verið til mikils ama í löngum göngum og sérstaklega á niðurleiðinni þegar þær rekast fremst í skóinn. Ef álagið er nógu mikið nógu lengi á táneglurnar geta þær marist. Einnig geta blöðrur myndast undir nöglunum sem veldur því að þær detta af. Því er góð regla að klippa táneglurnar í minnsta lagi nokkrum dögum áður en lagt er af stað.

Nesti og gamla skó

Það er algert lykilatriði að ganga í skóm sem þér líður vel í. Ekki er ráðlegt að kaupa nýja skó fyrir lengri göngur sem hafa aldrei verið gengnir til. Nýir gönguskór, eins og allir skór raunar, eru ávísun á blöðrur. Ef það á að kaupa eitthvað nýtt, þá er mælt með því að kaupa nýja sokka. Gamlir sokkar geta nefnilega, eins og nýir skór, aukið líkur á ýmsum fótavanda.

Á sokkaleistunum

Gönguleiðir eru jafn ólíkar og þær eru margar. Á mörgum gönguleiðum er þörf á að stikla á steinum til að komast yfir ár og lækjarsprænur. Það eru ekki allir jafnfótafráir og stundum eru steinar sleipir eða illa staðsettir í ánum sem gerir það nær ómögulegt að komast yfir sprænurnar án þess að blotna í fæturna. Gott ráð er að ferðast með að minnsta kosti eitt auka sokkapar til skiptanna. Ef skórnir eru ekki vel vatnsheldir er ekki slæm hugmynd heldur að kippa með tveimur plastpokum til að smeygja utan um þurru sokkana innan undir skóna. Því blautir fætur eru algert eitur þegar kemur að fótaheilsu. Blautur fótur nuddast í blauta sokka og hælsæri eru nánast óhjákvæmileg. Ef gangan tekur fleiri daga þá er lykilatriði að leyfa iljunum og skónum að anda við hvert kvöldstopp.

Teipuð velgengni

Ef fólk er gjarnt á að fá nuddsár á ákveðnum stöðum við göngur þá er gott ráð að byrja á að teipa þau svæði bara undir eins, áður en gangan hefst. Margir eru hrifnir af second skin plástrum á meðan aðrir nota silkiteip. Hvort tveggja fæst í apótekum og geta skipt sköpum fyrir fótaheilsu á göngu.

Hik er sama og tap

Ef svo óheppilega vill til að þú finnir fyrir einhverjum særindum í göngunni, þá skaltu hugsa þig tvisvar um að hunsa þau. Ef þú finnur fyrir einhverjum núningi snemma á göngu þá er algerlega ljóst að það verður orðið að sári um miðja göngu. Því er þjóðráð að tækla það sem allra fyrst og teipa svæðið vel þar sem nuddið á sér stað. ■