Gamla ljósastöðin á Siglufirði hefur öðlast nýtt hlutverk undanfarinn áratug eftir að hjónin Helena Stefáns Magneudóttir og Arnar Steinn Friðbjarnarson keyptu húsið og eru að breyta í samfélags- og menningarmiðstöð sem auk þess hýsir litla íbúð. Hjónin eru bæði sjálfstætt starfandi listamenn sem starfa að mestu leyti innan kvikmyndageirans og hafa að eigin sögn brallað ýmislegt gegnum tíðina, meðal annars gert upp Rín-húsið að Frakkastíg 16 í Reykjavík auk þess að reka ásamt fleirum Kaffi Hljómalind, lífrænt kaffihús í miðborg Reykjavíkur.

Helena segir að þau hafa leitað að afdrepi úti á landi árum saman og ferðast til allra landshluta til að skoða hús og jarðir. „Þegar okkur var bent á Ljósastöðina árið 2012 af góðri vinkonu, húsi sem ekki var lengur í notkun, vissum við strax að þetta væri rétta húsið. Við vorum í mastersnámi í Svíþjóð á þessum tíma og það var því mjög gaman að koma heim, fara beint til Siglufjarðar og heimsækja hús sem við höfðum keypt án þess að skoða. Ekki leið á löngu þar til við urðum ástfangin af Siglufirði, bæði staðnum og fólkinu.”

Svalir sem þau smíðuðu í sal ljósastöðvarinnar.

Deila með öðru fólki

Hún segir að þegar þau hafi gengið inn í Ljósastöðina í fyrsta sinn hafi þau strax fengið þá tilfinningu að þessu rými þyrfti að deila með öðru fólki og opna það fyrir einhvers konar starfsemi.

„Rýmið hreinlega kallar á það. Húsið hefur sterka menningarlega sögu og okkur hefur frá upphafi langað að opna stöðina aftur fyrir almenningi. Þannig kviknaði hugmyndin um samfélags- og menningarmiðstöð. Við sjáum fyrir okkur endalausa möguleika en viljum helst að hugmyndirnar komi frá fólkinu sem óskar eftir því að nota húsið, til að fjölbreytnin verði sem mest og að húsið þjóni sem breiðustum hópi fólks. Einnig gefst listafólki kostur á dvelja hér í styttri og lengri tíma meðan það sinnir list sinni.“

Útsýnið úr svefnherberginu í suðurbíslaginu er fallegt.

Olían mesta áskorunin

Þau hafa unnið í húsinu frá fyrsta degi, en vinnan hófst þó fyrir alvöru á síðasta ári, þegar þau keyptu meðeigendur sína út.

„Við höfum meðal annars tekið inn heitt og kalt vatn, hent rúmlega tveimur tonnum af málmi úr húsinu, hreinsað olíu og tjöru í tuglítratali, skipt út þakinu, pússað glugga og málað. Einnig höfum við gert upp suður-bíslagið og meðal annars útbúið þar þrjú svefnherbergi ásamt eldhúsi og salerni, rifið allt út úr norður-bíslaginu, tengt kamínu og margt fleira.

Mesta áskorunin hefur þó verið olían en hana höfum við hreinsað í áföngum síðan við keyptum húsið. Hún hefur smogið inn í alla króka og kima hússins og við erum mjög nálægt því núna að vera laus við olíulyktina. Rörin og tankarnir hafa líka verið áskorun, vegna stærðar og þyngdar, en með aðstoð góðra Siglfirðinga hefur okkur tekist að hreinsa það allt út úr húsinu.“

Góður Siglfirðingur hjálpaði þeim að koma rörunum úr salnum í gám.

Bæjarbúar hjálplegir

Þáttur bæjarbúa hefur líka verið ómetanlegur að hennar sögn. „Móttökurnar sem við höfum fengið á Siglufirði eru með ólíkindum. Hlýju, hjálpsemi og velvild fólks eru engin takmörk sett og margir hafa boðist til að leggja okkur lið á ýmsan hátt. Við höfum líka fengið ótal heimsóknir fólks sem hefur sögur að segja af Ljósastöðinni, eða langar að forvitnast um framkvæmdirnar og þykir gaman að húsið sé að fá tilgang aftur.“

Hjónin deila ástríðu fyrir endurbótum eldri bygginga og segir Helena það vera ólýsanlega tilfinningu að sjá fegurðina sem felst í gömlum húsum birtast smám saman í ferlinu og nostra við að skapa ný og falleg rými. „Auk þess deildum við líka þeirri löngun að leggja af mörkum til samfélagsins og við höfum verið dugleg við að reka samfélags- og menningarmiðstöðvar sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.“

Ljósastöðin var ekki í notkun þegar hjónin festu kaup á henni árið 2012. MYND/SIGLO.IS