Gömul í­þrótta­meiðsl urðu til þess að stöðva þurfti sýninguna Vertu úlfur í Þjóð­leik­húsinu í gær­kvöld.

Björn Thors leikari, sem fer með eina hlutverk sýningarinnar, stað­festir að stöðva hafi þurft sýninguna í skamma stund og hún hafi meira að segja verið blásin af í nokkrar mínútur með þeim af­leiðingum að nokkrir gestir sluppu út.

Sýningin hófst að nýju eftir um tuttugu mínútur og var á­horf­endum snúið við á tröppum Þjóð­leik­hússins í þann mund sem það var að yfir­gefa leik­húsið. „Ég held að sýningar­stjóri sýningarinnar hafi hlaupið út á tröppur með heyrnar­tólin og smalað fólki aftur inn í sal,“ segir Björn.

Gamli skurðlæknirinn einn áhorfenda

Meiðsli Björns voru af­leiðing gamalla í­þrótta­meiðsla. Hann sleit kross­band fyrir mörgum árum og fór í að­gerð. Í þann mund sem á­kvörðun var tekin um að setja sýninguna af stað að nýju í gær­kvöldi hafi merki­legt at­vik átt sér stað. Skurð­læknirinn sem með­höndlaði meiðsli hans á sínum tíma bankaði upp á hjá sýningar­stjóra Þjóð­leik­hússins.

Hann hafði setið í salnum og orðið vitni af slysinu. „Sem er ó­trú­lega fyndið. Þannig að hann horfði upp á þetta og hugsaði ah, þarna fór kross­bandið mitt,“ segir Björn og hlær. Það hafi þó sem betur fer ekki verið raunin, kross­bandið sé í lagi.

Hlaut sjö Grímuverðlaun

Vertu úlfur er einleikur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur leikstjóra. Sýningin hefur slegið ræki­lega í gegn, hún hlaut meðal annars sjö Grímu­verð­laun. Hún er byggð á sjálfs­ævi­sögu­legri frá­sögn Héðins Unn­steins­sonar, Vertu úlfur, sem vakti mikla at­hygli og var til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna árið 2015.

Sýningin gefur inn­sýn í bar­áttu manns sem tekst að brjótast út úr víta­hring hættu­legra hugsana í ver­öld stjórn­leysis og ör­væntingar og aftur til baka. Hann nær að snúa sinni skelfi­legustu lífs­reynslu upp í þann styrk sem þarf til að breyta kerfinu.

Verið að bæta við sýningum

Að­spurður segist Björn af­skap­lega þakk­látur fyrir að geta fyllt sæti leik­hússins aftur eftir til­slakanir sam­komu­tak­markana vegna Co­vid-19.

„Þessi til­finning að fá að koma saman aftur. Það skiptir svo miklu máli að hitta fólk og horfast í augu. Maður veit eigin­lega ekki hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Björn segir sýninguna hafa notið mikilla vin­sælda, sjötíu sýningar hafi verið sýndar og verið sé að raða inn auka­sýningum.

Hann hefur því í nægu að snúast en Björn er jafnframt til­nefndur sem leikari ársins í aðal­hlut­verki fyrir leik sinn í þátta­seríunni Brot. Hann segist í skýjunum með til­nefninguna. „Ég er ó­trú­lega þakk­látur og heiðraður af þessari til­nefningu og vel­gengni þessarar seríu. Þakk­látur bæði kollegum og öllu því frá­bæra fólki sem kom að þessu verk­efni á sínum tíma.“