Gömul íþróttameiðsl urðu til þess að stöðva þurfti sýninguna Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu í gærkvöld.
Björn Thors leikari, sem fer með eina hlutverk sýningarinnar, staðfestir að stöðva hafi þurft sýninguna í skamma stund og hún hafi meira að segja verið blásin af í nokkrar mínútur með þeim afleiðingum að nokkrir gestir sluppu út.
Sýningin hófst að nýju eftir um tuttugu mínútur og var áhorfendum snúið við á tröppum Þjóðleikhússins í þann mund sem það var að yfirgefa leikhúsið. „Ég held að sýningarstjóri sýningarinnar hafi hlaupið út á tröppur með heyrnartólin og smalað fólki aftur inn í sal,“ segir Björn.
Gamli skurðlæknirinn einn áhorfenda
Meiðsli Björns voru afleiðing gamalla íþróttameiðsla. Hann sleit krossband fyrir mörgum árum og fór í aðgerð. Í þann mund sem ákvörðun var tekin um að setja sýninguna af stað að nýju í gærkvöldi hafi merkilegt atvik átt sér stað. Skurðlæknirinn sem meðhöndlaði meiðsli hans á sínum tíma bankaði upp á hjá sýningarstjóra Þjóðleikhússins.
Hann hafði setið í salnum og orðið vitni af slysinu. „Sem er ótrúlega fyndið. Þannig að hann horfði upp á þetta og hugsaði ah, þarna fór krossbandið mitt,“ segir Björn og hlær. Það hafi þó sem betur fer ekki verið raunin, krossbandið sé í lagi.
Hlaut sjö Grímuverðlaun
Vertu úlfur er einleikur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur leikstjóra. Sýningin hefur slegið rækilega í gegn, hún hlaut meðal annars sjö Grímuverðlaun. Hún er byggð á sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar, Vertu úlfur, sem vakti mikla athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015.
Sýningin gefur innsýn í baráttu manns sem tekst að brjótast út úr vítahring hættulegra hugsana í veröld stjórnleysis og örvæntingar og aftur til baka. Hann nær að snúa sinni skelfilegustu lífsreynslu upp í þann styrk sem þarf til að breyta kerfinu.
Verið að bæta við sýningum
Aðspurður segist Björn afskaplega þakklátur fyrir að geta fyllt sæti leikhússins aftur eftir tilslakanir samkomutakmarkana vegna Covid-19.
„Þessi tilfinning að fá að koma saman aftur. Það skiptir svo miklu máli að hitta fólk og horfast í augu. Maður veit eiginlega ekki hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“
Björn segir sýninguna hafa notið mikilla vinsælda, sjötíu sýningar hafi verið sýndar og verið sé að raða inn aukasýningum.
Hann hefur því í nægu að snúast en Björn er jafnframt tilnefndur sem leikari ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn í þáttaseríunni Brot. Hann segist í skýjunum með tilnefninguna. „Ég er ótrúlega þakklátur og heiðraður af þessari tilnefningu og velgengni þessarar seríu. Þakklátur bæði kollegum og öllu því frábæra fólki sem kom að þessu verkefni á sínum tíma.“