Íslensk ljósmynd sem var tekinn í miðbæ Reykjavíkur árið 1943 hefur vakið athygli heimspressunnar. Ástæðan fyrir því er óvenjuleg.

„Það er ekkert skrýtið við að sjá vel klæddan mann að spjalla símann er hann stendur á fjölförnu götuhorni. En hvað ef myndin var tekin á fimmta áratug síðustu aldar?“ segir í fréttThe Mirror.

Á myndinni, sem er tekin við Bankastræti, Austurstræti og Lækjargötu, sést nefnilega maður sem virðist tala í símann. Þar af leiðandi velta sumir fyrir sér, eða grínast með, að um sé að ræða tímaflakkara.

Ljóst er að farsímar voru ekki til þegar ljósmyndin var tekinn, en The Sun bendir á að fyrsta slíka græjan, Motorola DynaTAC 8000X, hafi farið í sölu 1973, þrjátíu árum eftir að myndin var tekin.

New York Post bendir á aðrar mögulegar tilgátur. Til dæmis hafi maðurinn mögulega verið að skoða hvort það væri í lagi með úrið sitt, eða jafnvel að hann hafi verið spæjari frá Öxulveldunum, en á myndunum má sjá marga Bandaríska hermenn.

Í umfjöllun erlendu miðlanna kemur fram að myndin hafi verið birt í Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir árið 2016. Áður hefur verið fjallað um hana í íslenskum fjölmiðlum, en í DV árið 2016 var rætt við manninn sem birti myndina, Kristján Hoffmann.

„Hann stingur í stúf, stendur einn og er með öðruvísi höfuðfat en hinir og trefil og hagar sér eins og við myndum gera í dag. Hann hefur yfirsýn yfir torgið og engu líkara en hann eigi í samræðum við einhvern í snjallsíma.“ var haft eftir Kristjáni