Nýlegar breytingar á vefnum Tímarit.is virðast hafa komið illa við nokkurn fjölda fólks sem hefur vanist á að nota stafrænt prentmiðlasafn Landsbókasafnsins í starfi, leik og námi.

Uppnámið í alþýðufræðasamfélaginu kristallast í löngum athugasemdahala við spurningar, aðfinnslur og vangaveltur sem Illugi Jökulsson, rithöfundur og sagnfræðigrúskari, beindi til „þeirra sem nota Tímarit.‌is að staðaldri“ á Facebook.

„Það er svolítið leiðinlegt og hljómar eins og vanþakklæti að gagnrýna Tímarit.is eitthvað,“ segir Illugi í samtali við Fréttablaðið sem er ekki með alveg jafn frjálsar hendur og áður þótt breytingarnar bindi þær ekki alveg. „Vegna þess að þetta er svo frábært fyrirbæri og hefur gjörbylt öllum rannsóknum á fortíðinni síðustu 150-200 árin, en það má alltaf gera betur.“

Breytingarnar á timarit.is vefjast fyrir Illuga og fleirum.

Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafninu, segir að breytingarnar á vefnum hefði mátt kynna betur og úr því verði bætt.

„Við héldum innanhússfund strax og við sáum að netheimar loguðu og að við þyrftum að bregðast við þessu. Við erum að búa til leiðbeiningar sem verða settar inn á síðuna bæði á íslensku og ensku enda verðum við að róa netheima.

Sex milljóna skjala bunki

Örn segir vefinn þó í raun virka nánast alveg eins og áður og að breytingarnar séu ekki aðeins breytinganna vegna. „Virknin á að vera sú sama og á gömlu síðunni en þegar þetta eru orðnar sex milljónir skjala sem liggja að baki þá þarf stundum að hressa upp á vélina svo hún nái að keyra þetta.

Fólki bregður bara og svo er þetta oft óþolinmæði en það kom alls ekki skýrt fram að maður á að ýta á PDF-skjalið til þess að kópera textann,“ segir Örn og nefnir dæmi um algengt umkvörtunarefni. „En við ætlum að útskýra þetta allt saman.“

Örn lagði einnig orð í belg á Facebook-síðu Illuga þar sem hann hvatti fólk til þess að koma athugasemdum á framfæri og ljóst að hann þarf ekki að kvarta yfir áhugaleysi.

„Fólk hefur hringt og við höfum fengið tölvupósta og við höfum svarað þeim og tekið símtölin líka.“ Örn segir símtalið oft duga og viðkomandi kveðji sáttir þegar búið er að beina þeim í réttar áttir. Hins vegar gangi vitaskuld ekki að svara hverjum og einum persónulega.

„Við erum búin að greina allar efnislegar athugasemdir en vefurinn er heilmikið notaður og fólki brá bara. Þetta er eins og þegar stóru fréttavefirnir skipta allt í einu um útlit.“