María er með matarbloggið www.paz.is sem hefur notið mikillra vinsælda og fengið frábærar undirtektir síðustu árin. „Ég elska að gefa góðar en einfaldar uppskriftir sem allir ættu að geta gert og eru fyrir alla fjölskylduna,“ segir María og finnst fátt skemmtilegra en að dunda að ljúffengum kræsingum í eldhúsinu fyrir sína.

Hefð fyrir páskalambinu

Heldur þú í matarhefðir og venjur á páskunum?

„Já, það mætti segja að síðustu árin hafi lambalæri eða lambalundir fest sig í sessi hér á heimilinu ásamt góðu meðlæti sem er þó síbreytilegt. Ég er ekki svo vanaföst hvað það varðar,“ segir María og er mjög hrifin af því að elda lambakjöt og toppa það með góðu meðlæti.

Fæst orð gefa minnsta ábyrgð

Þegar við fáum Maríu til að svipta hulunni af sínu uppáhalds páskaeggi er hún ekki lengi að svara. „Mér finnst alltaf Nóa og Siríus eggin best og hlakka mikið til að prófa eitt sett eggið í ár en eitt sett kúlurnar eru mitt uppáhalds nammi þessa stundina.“

Eftirminnilegasti málshátturinn?

„Fæst orð gefa minnsta ábyrgð,“ ég þarf að reyna að fara betur eftir þeim málshætti,“ segir María og hlær. Maríu finnst líka gaman að föndra með krökkunum sínum og þá perla þau gjarnan páskakanínur og páskaunga til hengja á páskagreinar. „Stundum málum við egg okkur til gamans og þessar stundir eru gæðastundirnar þar sem við njótum þess að vera saman.“

María Gomez er mikill ástríðukokkur.

Þrjár tilraunir til fullkomna þessa

Aðspurð segist María ekki vera með neina uppáhaldsköku eða bakkelsi sem tengist páskahátíðinni og henni finnst ávallt gaman að prófa eitthvað nýtt þeim efnum. „Páskakökurnar og bakkelsi er síbreytilegt ár hvert og gaman að koma á óvart með nýjungum.“

Við fengum Maríu til að deila með lesendum eina gómsæta uppskrift sem á vel við um páskana og upplagt að prófa og gleðja fjölskylduna með. „Ég gerði Replica af Brauð og Co snúðunum góðu sem tók mig þrjár tilraunir að fullkomna. Þessir snúðar urðu til við þá tilraunastarfsemi en voru meira eins og blanda af bakaríssnúð og ömmuvínabrauði svo þeir voru ekki beint eins og snúðarnir sem ég var að reyna að mastera. Mjög góðir engu að síður svo ég leyfi þessari uppskrift að fara í loftið enda má aldrei henda góðum uppskriftum. “

Litríkir páskasnúðar.

Litríkir páskasnúðar

5 dl nýmjólk

50 g pressuger eða 1 umslag þurrger c.a 11-12 gr (mæli með pressugerinu en það fæst í Hagkaup og Fjarðarkaup í mjólkur og eggjakæli)

150 g hrásykur

750 g hveiti

2 tsk. vanilludropar

1 tsk. borðsalt

1 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

200 g mjúkt smjör

Fylling

115 g möndlumjöl

100 g sykur

50 g púðursykur

½ tsk. salt

1 eggjahvíta

2 msk. kanill

1 msk. kartöflumjöl

100 g brætt smjör

Sykurvatn til að pennsla snúða með

2 msk. sykur

2 msk. soðið vatn

Bleikur glassúr

3 dl flórsykur

1 msk. heitt vatn

1 msk. Ribena safi

Brúnn glassúr

3 dl flórsykur

3 msk. kakó

Klípa af salti

2 msk. vatn

Rjómaostakrem

130 g rjómaostur

50 g mjúkt smjör

200 g flórsykur

½ tsk. vanilludropar

Snúðar

Aðferðin:

 1. Setjið hveiti, salt, matarsóda og lyftiduft saman í hrærivélarskál og blandið saman með króknum
 2. Setjið næst sykur, ger og ylvolga nýmjólk saman í aðra skál og hrærið vel saman og leyfið að standa í eins og 5 mínútur
 3. Setjið svo vanilludropana saman við germjólkurblönduna og hrærið vel saman
 4. Kveikjið á hrærivélinni og hellið gerblöndunni varlega út í skálina og látið hnoðast saman
 5. Skerið smjörið í smáa ferninga og bætið saman við deigið þar til allt er vel hnoðað saman og búið að hringa sig um krókinn
 6. Deigið er blautt og má vera þannig ekki bæta hveiti út í, breiðið stykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 1 klst

Fylling

Blandið öllu saman í skál og hærið saman í handþeytara eða hrærivél.

Bleikt og brúnt krem

Setjið öll hráefni saman og hærið vel saman.

Rjómasosta krem

Setjið allt saman í skál og þeytið vel þar til er orðið mjúkt og kekkjalaust.

Sykurvatn

Sjóðið vatn og blandið saman við sykurinn þar til hann er alveg leystur upp í vatninu.

Snúðasamsetning:

 1. Hitið ofninn á 50°c hita með blæstri og takið til tvær bökunarplötur undir snúðana
 2. Takið nú deigið úr skálinni og sáldrið vel af hveiti á borðið áður en þið fletjið það út og einnig ofan á deigið
 3. Ekki hnoða það neitt byrjið bara að fletja út jafnan ferning sem er c.a 1 cm þykkur
 4. Ferningurinn á að vera 50 cm breiður og 60 cm langur (mikilvægt að fara eftir)
 5. Smyrjið allri kanil fyllingunnni jafnt yfir ferninginn
 6. Rúllið svo deiginu varlega upp í pulsu
 7. Skerið svo í snúða en hér er mikilvægt að hver snúður sé 6 cm þykkur og já það er mjög þykkt og þannig á það að vera
 8. Leggjið svo 4-5 snúða á hverja plötu og ýtið á hvern snúð með flötum lófa létt svo hann þeir fletjist ögn út
 9. Breiðið svo viskastykki yfir snúðana og setjið í 50°c heitan ofninn til hefingar í 35 mínútur, ekki lengur !!
 10. Takið snúðana svo úr ofninum og hitið ofninn strax upp í 200 c° stillt á blástur
 11. Penslið snúðana með sykurvatninu og stingið svo strax í 200 c heitan ofninn í c.a 13 mínútur
 12. Leyfið þeim að kólna og setjið þá það krem sem þið viljið ofan á, krökkunum fannst glassúrkremið best, bleika í uppáhaldi en fullorðnu fannst rjómaostakremið
 13. Stærðin á snúðunum á að vera eins og á bakaríssnúð og best er að gera kremið rétt áður en á að setja það á snúðana.

Berið fram á fallegan hátt og njótið.