„Ég veit ekki hvort það séu til margar svona sýningar í heiminum, þar sem heill hópur af fólki talar svona opinskátt um þessa hluti. Ég held að við séum einstök á heimsvísu,“ segir grínistinn Þórhallur Þórhallsson um uppistandshópinn My Voices Have Tourettes sem grínast til að mynda með kvíðaröskun, einhverfu, geðklofa, Tourette og geðhvörf í eigin hópi.

Hópurinn, sem skipaður er þeim Þórhalli, Elvu Dögg Hafberg Gunnarsdóttur, Stefni Benediktssyni og Dan Zerin, hefur um árabil gert stólpagrín að eigin andlegum meinum. „Við erum gölluðu grínistarnir. Ég held það sé bara mjög mikilvægt að geta talað um öll þessi mál, geðsjúkdóma og greiningar og allt þetta, svo að þetta sé ekkert tabú. Ég held það sé mjög mikilvægt að það sé til svona sýning eins og þessi.“

Upphaflega áttu sýningar hópsins einungis að vera þrjár. Síðan hefur hópurinn komið reglulega saman, þó að heimsfaraldur hafi sett strik í reikninginn og nú er svo komið að hópurinn hélt síðast sýningu í fyrra.

„Þannig að okkur þyrstir hreinlega í að koma aftur saman,“ segir Þórhallur sem er kvíðahausinn í hópnum og rifjar upp að á einum af mörgum ferðum hópsins erlendis hafi Finnarnir líklega hrifist mest af hans gríni.

„Ég tala mikið um kvíða og félagsfælni. Við fórum til Finnlands einu sinni og mér fannst mjög fyndið hvað Finnarnir tengdu mikið við brandarana mína. Þeir tengja greinilega vel við þetta, Finnarnir, að langa bara að vera heima og hitta ekki neinn og eru greinilega stórgallaðir líka,“ segir Þórhallur og skellir upp úr.

Hann bætir við að það útskýri líklega vinsældir uppistandssýninganna, enda tengi allir við það sem grínistarnir takist á við í daglegu lífi.

„Húmorinn er rosalega gott verkfæri til að díla við alls konar hluti,“ segir Þórhallur og bætir því við að sýningunni sé ekki síst ætlað að auka vitund um geðheilbrigði á gamansaman hátt.

„Maður hugsaði áður kvíðann til að mynda sem vandamál. En núna hugsar maður þetta oft bara sem frábæran brandara uppi á sviði og breytir þessu bara í eitthvað jákvætt,“ útskýrir Þórhallur.

Sýningin fer fram á Gauknum annað kvöld og er frítt inn. Ætlar hópurinn auk þess að taka sýninguna upp og er markmiðið að sýna hana á öllum helstu streymisveitum að sögn Þórhalls.

„Við vonumst alla vega til þess. Ef Netflix er að lesa þá erum við laus í samningaviðræður,“ segir Þórhallur skellihlæjandi. „Já, og bara allar hinar líka! Okkur langar að koma þessu út um allt. Og ef ekki, þá í versta falli fer þetta bara á YouTube.“