Sólveig hefur ávallt haft þetta keppnisskap og það hefur komið sér vel á þeim starfsvettvangi sem hún hefur starfað hvað lengst á. Sólveig er lögfræðingur að mennt. Hún var gift Kristni Björnssyni en hann lést fyrir nokkrum árum og saknar Sólveig hans mikið. „Við vorum miklir vinir og hann kvaddi allt of snemma. Við eigum þrjú börn og fjögur barnabörn. Ég er svo heppin að eiga yndislega fjölskyldu og mér finnst ömmuhlutverkið mjög skemmtilegt. Ég hef mörg áhugamál fyrir utan pólitíkina, ég les mikið, spila bridds og stunda líkamsrækt. Ég hef líka gaman af veiði en golfið er mitt uppáhald. Ég dreg barnabörnin stundum með á golfæfingar og ég held að þau hafi bara gaman af því,“ segir Sólveig.

Ástríða Sólveigar fyrir golfinu leynir sér ekki og nýtur hún hverrar stundar þegar kemur að því að fara á golfvöllinn. „Golfið er keppnisíþrótt og ég stunda það af miklu kappi. Mér finnst mjög gaman þegar vel gengur og þegar upphafshöggið tekst vel en það er líka þessi útivera og félagsskapur sem skiptir svo miklu máli og allur umbúnaður í kringum golfið. Skemmtilegar golfferðir innan- og utanlands og allt þetta frábæra fólk sem maður kynnist. Að stunda golfíþróttina verður sérstakur lífsstíll!“

Sló fyrst bolta 2007

Aðspurð segir Sólveig að það hafi tekið hana tíma að byrja í golfinu. „Það gerðist ekki fyrr en ég hætti á Alþingi vorið 2007. Þá byrjaði ég fyrst að slá bolta um sumarið en ég var fljót að finna það að þessi íþrótt hentaði mér vel. Það reyndi stundum á þolinmæðina að ná tökum á golfinu.“

Sólveig segir að fjölskyldan hafi átt sinn þátt í því að hún byrjaði að stunda golf. „Margir í fjölskyldunni spiluðu golf, maðurinn minn hafði stundað golf sem ungur maður, sem og fleiri skyldmenni og vinir. Allt þetta fólk hvatti mig til þess að prófa þessa íþrótt því hún væri svo skemmtileg. Ég var samt lengi að trúa þeim, að þessi keppni með hvíta boltann væri svona eftirsóknarverð.“ Í dag er Sólveig með 19,8 í forgjöf. „Ég hef verið lægri og set auðvitað markið á það að lækka aftur,“ segir Sólveig sem gefur ekkert eftir.

Öflugt félagslíf í golfinu

Sólveig er félagi í tveimur golfklúbbum. „Ég er í Golfklúbbi Reykjavíkur og í Golfklúbbi Kiðjabergs. GR er stór og öflugur klúbbur og með tvo einstaklega fallega golfvelli. Ég á líka marga vini sem spila golfvöllinn á Kiðjabergi sem er mjög skemmtilegur.“ Mikið félagslíf er í kringum golfið og nóg um að vera, auk þess sem þó nokkuð mörg mót eru haldin árlega. „Ég tek mikinn þátt í því félagsstarfi sem fylgir golfinu, þannig tek ég þátt í Meistaramótum GR og ýmsum öðrum mótum. Kvennastarfið í GR er öflugt og þær standa fyrir sérstökum sumarmótum, púttmótum og ýmsum uppákomum. Sjálf stend ég ásamt fleirum fyrir golfmóti hjá Landssambandi Sjálfstæðiskvenna ár hvert á Hamarsvelli í Borgarfirði. Það mót fer fram núna 18. ágúst nk. Farið er með rútum, borðað saman og veittir veglegir vinningar,“ segir Sólveig og bætir við að mótið sé eitt af sínum uppáhalds mótum. „Síðastliðin ár hefur Ragga Sig verið mótsstjóri hjá okkur sem er flott fyrirmynd fyrir konur í íþróttinni enda margfaldur Íslandsmeistari.“ Sólveig er líka á því að golfið sé frábært sport fyrir vinkonur. „Margar vinkonur mínar stunda golf og við höfum átt margar ánægjustundir saman bæði hér heima og erlendis. Golfið tengir okkur enn þá sterkari böndum og sumir segja að það sé sérstakt tungumál sem kylfingar tala sín á milli. Menn mynda einstakt tengslanet í golfinu.“

Þegar Sólveig er spurð hvort hún eigi sér sinn uppáhalds golfvöll á hún erfitt með að gera upp á milli margra hverra. „Margir golfvellir á Íslandi, sérstaklega á landsbyggðinni, eru með einstaklega fallegt útsýni. Þannig er golfvöllurinn á Kiðjabergi með fallega fjallasýn, sérstaklega á Langjökul. Víða blasa við jöklar og tignarleg eldfjöll eins og Hekla á Strandavelli. Það er líka fallegt umhverfi á golfvellinum í Grindavík þar sem hraunið og fjaran skapa einstaka umgjörð. Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum er auðvitað stórkostlegur, það eru bara svo margir vellir sem ég gæti talið upp. Það eru fínir vellir á höfuðborgarsvæðinu, eins og mínir heimavellir í GR. En ég verð líka að nefna GKG völlinn sem er afar skemmtilegur. Klúbbhúsið er einstakt og öll starfsemi þar til fyrirmyndar, eins og flottir golfhermar. Ég bý líka í Kópavogi núna svo það er stutt að fara.“ Sömu sögu er að segja þegar hún er beðin um að nefna velli á erlendri grundu. „Það er erfitt að velja uppáhalds golfvöll erlendis, þeir eru margir sem koma til greina en ég hef fengið tækifæri til að spila Bay Hill-völlinn í Orlando og finnst hann bæði krefjandi og fallegur.“

Hollt bæði líkamlega og andlega

„Golfið er ótrúlega flott íþrótt sem mér finnst að menn eigi að styðja vel við. Þetta er íþrótt sem hentar öllum, menn spila golf á sínum eigin forsendum og eignast góða vini í leiðinni. Ég sé eftir því að hafa ekki byrjað fyrr í golfinu, mér finnst mjög skemmtilegt að fylgjast með barna- og unglingastarfi klúbbanna og tel að það feli í sér gott uppeldi. GSÍ hefur líka unnið gott starf og hugsað vel um afreksfólkið okkar. Ég held að það muni bara fjölga í hópi þeirra sem stunda golf í framtíðinni. Golfið hefur gefið mér mikið, golfið sem íþrótt er bæði holl líkamlega og andlega. Það er yndisleg tilfinning að ganga á fallegum golfvelli og njóta náttúrunnar í leiðinni.“

FBL Golfmót LS 2021.JPG

Ferskar á golfmóti LS á Hamarsvelli.

Sólveig í góðum félagsskap á hinu árlega golfmóti Landssambands Sjálfstæðiskvenna á Hamarsvelli í fyrra. Ragga Sigurðardóttir hefur verið mótsstjóri undanfarin þrjú ár og er einstök fyrirmynd fyrir konur enda margfaldur Íslandsmeistari.
Sólveig fer reglulega í golfferðir erlendis með vinkonum sínum og segir ferðirnar tengja þær sterkum böndum.
Sólveig er félagi í tveimur golfklúbbum, Golfklúbbi Reykjavíkur og í Golfklúbbi Kiðjabergs.
Í Orlandi með góðum vinkonum.