Þótt slys séu ekki algeng í golfi geta þau verið alvarleg, til dæmis högg á höfuðið. Algengustu meiðsl eru í baki, olnboga eða hnjám. Sú hreyfing sem fólk fær í golfi er kannski ekki mikil áreynsla en hún felur engu að síður í sér ávinning er varða hjarta- og öndunarsjúkdóma auk bættrar vellíðunar. Stjórnvöld ættu að hvetja fólk til að leika golf sé litið til betri andlegrar og líkamlegrar heilsu þegar fólk eldist. Golfið getur nefnilega bætt jafnvægi hjá eldra fólki, sem kemur í veg fyrir fall sem er algengt í þeim hópi auk þess sem það eykur félagslega fjölbreytni.

Það hefur löngum verið sannreynt að hreyfing bætir lífsgæði eldra fólks. Golf er ákveðin tegund líkamsræktar og hentar vel eldra fólki. Árið 2018 var gerð rannsókn á áhrifum golfíþróttar á heilsu fólks. Rannsóknin var evrópsk og 25 læknar komu að henni. Hún leiddi í ljós að golfið getur verið mjög góð íþrótt til að koma í veg fyrir of hátt kólesteról í blóði, of háan blóðþrýsting og blóðsykur. Þá kom í ljós í rannsókninni að það var ekki síst hin andlega hlið sem golfið hafði mjög góð áhrif á. Hófleg heyfing dregur úr kvíða og þunglyndi, er haft eftir Roger Hawkes, einum af höfundum rannsóknarinnar, á CNN. Hann bætir því við að best væri að gera golfvellina aðgengilegri fyrir fleiri og þannig bæta lýðheilsu. Það getur verið dýrt að stunda golf og ekki á allra færi.

Á átján holu golfvelli gengur kylfingur um sex kílómetra og brennir um 2.000 hitaeiningum. Um leið og hann andar að sér hreinu lofti fær hann D-vítamín í kroppinn sem gerir honum gott. Útivistin gerir sömuleiðis hinni andlegu hlið mjög gott. Margir segja að golf sé fyrir letingja en viðamikil sænsk rannsókn frá árinu 2012 sýndi að þeir sem stunda golf geta aukið lífslíkur sínar um fimm ár. Bresk rannsókn sem birtist í British Journal of Sports Medicine sýndi að golf eykur þol, styrkir vöðva, fækkar hitaeiningum, bætir jafnvægi og getur komið í veg fyrir hjartasjúkdóma.

Samkvæmt grein sem birtist á vefmiðlinum golf.is fyrir nokkru er meðalaldur 55 prósent kylfinga á Íslandi 50 ára og eldri. Í sömu grein segir að árið 2013 hafi verið gerð rannsókn á íslenskum kylfingum sem sýndi að 50 prósent karlmanna sem stunda golf séu með einhvers konar álagseinkenni. Helstu álagseinkenni eru verkir í baki, hálsi og öxlum en einnig í mjöðmum, hnjám og olnbogum. Slæm sveiflutækni getur verið ástæða fyrir þessum einkennum, að því er Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari útskýrir í greininni en hann er sjálfur öflugur kylfingur.

Það er mikill áhugi fyrir golfíþróttinni hér á landi og Íslendingar eiga marga mjög góða kylfinga. Áhuginn fyrir golfinu er stöðugt að aukast og búast má við mikilli aðsókn á golfvellina í sumar.