Matarvenjur breytast oft eftir árstíma. Hvernig væri að prófa einhvern af þessum réttum?

Lambapottréttur frá Marokkó

Þessi réttur hentar vel í vetrarbyrjun. Kraftmikill og góður. Það væri frábært að nota tagínu en ef hún er ekki til má nota venjulegan pott. Uppskriftin er ætluð fjórum.

2 gulrætur

2 laukar

300 g kartöflur

1 rauður chili-pipar

2 msk. sólkjarnaolía

800 g lambakjöt

50 g sveskjur

50 g þurrkaðar apríkósur

50 g möndlur

1 tsk. cumin

1 kanilstöng

6 dl vatn

Salt og pipar

Skrælið gulrætur, kartöflur og lauk. Skerið allt í bita. Kljúfið chili, takið fræin frá og skerið smátt. Setjið olíu í pott og setjið niðurskorið kjötið út í og steikið. Blandið því næst öllu grænmeti saman við. Síðan sveskjum, apríkósum og möndlum ásamt kryddi. Látið malla smástund áður en vatninu er bætt út í. Látið réttinn malla í einn og hálfan tíma eða þangað til kjötið er orðið vel meyrt. Bragðbætið með salti og pipar eftir þörfum.

Berið réttinn fram með kúskús eða brauði.

Kjúklingapottréttur sem bakaður er í sveppasúpu.

Kjúklingur í formi

Þetta er vinsæll kjúklingaréttur sem hentar allri fjölskyldunni. Það er mjög fljótlegt að gera þennan rétt. Í réttinn eru notuð elduð kjúklingalæri en því má breyta ef fólk vill nota bringu í staðinn eða úrbeinuð læri. Kjúklingurinn þarf bara að vera eldaður. Uppskriftin miðast við fjóra.

4 grilluð kjúklingalæri með legg

200 g sveppir

10 sjalottlaukar

1 dós sveppasúpa

1½ dl vatn

1 dós sýrður rjómi, 35%

½ rauð paprika

½ tsk. salt

½ tsk. pipar

Skerið kjúklingalegginn frá lærinu og leggið í eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í smjöri, bætið síðan niðurskornum lauknum saman við.

Blandið saman súpu, vatni og sýrðum rjóma. Bragðbætið með salti og pipar. Hellið yfir kjúklinginn ásamt lauk og sveppum. Dreifið smátt skorinni papriku yfir. Setjið formið í 200°C heitan ofn og eldið í 25-30 mínútur. Berið réttinn fram með góðu brauði og ef til vill salati.

Stroganoff er réttur fyrir alla fjölskylduna.

Stroganoff með nautakjöti

Þessi uppskrift kemur frá Rússlandi en er vinsæll réttur víða um heim. Ekta fjölskyldumatur á vetrarkvöldi. Uppskriftin miðast við fjóra.

800 g nautakjöt, skorið í bita

1½ laukur, smátt skorinn

2 msk. smjör til steikingar

200 g sveppir, skornir í báta

1 tsk. salt

½ tsk. pipar

2 msk. tómatpuré

1 dl kjötkraftur ( 1 dl vatn og 1 súputeningur)

2 dl sýrður rjómi, 35%

Brúnið kjötið ásamt lauk á pönnu. Færið yfir í pott ásamt sveppum. Bragðbætið með salti og pipar. Bætið tómatpuré, soðkrafti og sýrðum rjóma út í og látið sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við salti eða pipar eftir þörfum. Gott er að setja smátt skorna steinselju saman við í lokin.

Rétturinn er borinn fram með sultuðum agúrkum, rauðbeðum og kartöflumús.

Gúllassúpa er alltaf vinsæl á vetrarkvöldum.

Gúllassúpa

Þetta er kraftmikill réttur sem á ættir að rekja til Ungverjalands. Gúllas er vissulega hægt að gera á margvíslegan hátt en þetta er mjög góð og matarmikil súpa.

400 g nautakjöt í bitum

2 msk. smjör til steikingar

2 laukar, skornir gróft

2 hvítlauksrif, fínt skorin

1 dós tómatpuré, 140 g

2 tsk. paprikuduft

4 kartöflur, skornar í bita

2 rauðar paprikur, skornar í bita

½ blaðlaukur, skorinn smátt

1 l vatn

2 nautakraftsteningar

1 tsk. kúmenfræ

1 tsk. salt

½ tsk. pipar

Hitið smjör í potti og byrjið á því að brúna kjötið. Takið kjötið frá á meðan laukur og hvítlaukur er steiktur. Setjið kjötið aftur í pottinn þegar laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið þá við tómatpuré og paprikudufti. Því næst eru kartöflurnar settar út í ásamt blaðlauk, vatni, kjötkrafti og kúmenfræjum. Látið suðuna koma upp en lækkið síðan hitann og sjóðið áfram í 30 mínútur eða lengur eftir því sem tími gefst. Gott að leyfa þessu að malla í eina klukkustund. Bragðbætið með salti og pipar. Þeir sem vilja sterkara bragð geta bætt chili-pipar út í réttinn.

Berið súpuna fram með góðu brauði.