Þessar uppskriftir eru báðar einfaldar og ættu ekki að vefjast fyrir neinum. Þær henta allri fjölskyldunni.

Bragðmikill kjúklingur með ananas og papriku

Væri ekki upplagt að fá sér eitthvað bragðsterkt og gott í kvöldmatinn? Hér er mjög góð kjúklingauppskrift með papriku og ananas. Þetta er réttur sem er þægilegur og einfalt að útbúa. Með réttinum eru borin fram hrísgrjón sem þægilegt er að sjóða meðan hann er í ofninum. Það er frábært að nota ferskan ananas í þennan rétt en vitaskuld má einnig nota niðursoðinn.

Uppskriftin miðast við 4-6. Fyrst þarf að undirbúa maríneringu.

Marineríng

2-3 msk. sambal oelek (chilli-mauk)

2 msk. hunang

50 ml hrísgrjónaedik

100 ml vatn

2 msk. sojasósa

3 tsk. maízena-mjöl

Annað hráefni

600 g kjúklingabringa eða úrbeinuð læri

1 ferskur ananas

2-3 paprikur

2 laukar

Hitið ofninn í 220°C.

Búið til marineríngu. Hrærið saman chilli-mauki, hunangi, hrísgrjónaediki, vatni og sojasósu í potti og hitið upp. Þegar suðan kemur upp bætið þá maizena-mjöli saman við vatn og hrærið saman við blönduna til að þykkja hana. Látið malla í smá stund en kælið síðan.

Skerið ananas í bita ásamt lauk og papriku. Kjúklingurinn er sömuleiðis skorinn niður í bita. Setjið allt í eldfast mót og hellið 2/3 af marineríngunni yfir. Bakið í ofni í 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Berið strax fram með hrísgrjónum. Afgangurinn af marineríngunni er borin á borð með.

Mjög léttur og góður kjúklingaréttur.

Teriyaki kjúklingur með grænkáli

Þetta er léttur og hollur réttur sem er borinn fram með hrísgrjónum. Kjúklingurinn þarf að liggja í marineríngunni í að minnsta kosti hálftíma.

Uppskriftin miðast við þrjá til fjóra.

600 g kjúklingabringur eða úrbeinuð læri

50 ml sojasósa

50 ml mirin (má nota 50 ml hrísgrjónaedik + 2 tsk. sykur)

2 hvítlauksrif, smátt skorin

3 cm engiferrót, fínt skorin

1 msk. púðursykur

1 msk. maizena-mjöl

300 g grænkál, hreinsað og skorið í strimla

4 hvítlauksrif

Olía til að steikja upp úr

Byrjið á að gera maríneringu fyrir kjúklinginn. Hrærið saman sojasósu, mirin, hvítlauk, engifer, sykur og maízena. Leggið kjúklinginn í blönduna og látið standa í hálfa klukkustund.

Sjóðið hrísgrjón eftir leiðbeiningum á pakkanum. Setjið gjarnan einn kjúklingatenging í vatnið.

Steikið kjúklinginn á pönnu þar til hann er fulleldaður. Penslið hann með marineríngunni á meðan hann eldast. Látið hann síðan hvíla á meðan grænkálið er útbúið.

Steikið hvítlaukinn á stórri pönnu og bætið síðan grænkálinu saman við ásamt smávegis af vatni. Setjið lok á pönnuna og leyfið vatninu að gufa upp en þá er grænkálið tilbúið.

Búið til skál og raðið hrísgrjónum á einn part og káli á annan. Skerið kjúklinginn í sneiðar og raðið yfir. Gott er að strá sesamfræjum yfir.