Kvikmyndir

Cruella

★★★★

Leikstjórn: Craig Gillespie

Aðalhlutverk: Emma Stone, Emma Thompson, Joel Fry, Mark Strong

Dalmatíuhundahatarinn alræmdi Grimmhildur Grámann, Cruella De Vil, er einn allra eftirminnilegasti og skæðasti Disney-skúrkurinn og því ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar upprunasaga hennar er rakin í leikinni mynd, sem skýrir hvers vegna Cruella er eins og hún er í teiknimyndinni sígildu One Hundred and One Dalmatians frá 1961.

Leikstjóranum Craig Gillespie tekst þó alveg merkilega vel upp og Cruella kemur vægast sagt skemmtilega á óvart. Myndin er ferlega smart og stíliseruð þannig að drungalegt töffið lekur af titilpersónunni, hverrar hugur er jafn klofinn í svart og hvítt og goðsagnakennt hár hennar.

Brjálað séní

Tilraunir Disney til þess að fleyta dáðustu teiknimyndapersónum sínum á fornri frægð yfir í raunheima í leiknum kvikmyndum hafa gengið misvel upp, en Cruella hlýtur að teljast með þeim bestu. Sjálfsagt munar þar mest um að í stað þess að ljósrita frummyndina með leikurum af holdi og blóði er hún mátulega laustengd teiknimyndinni, með áherslu á sköpunarsögu aðalpersónunnar.

Undrabarnið Estelle fæðist með vandlega litaskipt hár í miðju, sem er vægast sagt táknrænt þar sem í barninu bærist fól, hliðarsjálfið Cruella. Estelle er náttúrutalent þegar fatahönnun er annars vegar en ekki síður efnilegt glæpakvendi og eftir að hafa munaðarlaus dregið fram lífið í London í slagtogi við nokkuð kunnuglega smákrimma, Jasper og Horace, fær hún óvænt tækifæri til þess að láta stílistaljós sitt skína.


Tískueinvaldurinn fláráði sem kallar sig Barónessuna ræður Estelle til starfa, eftir að hafa áttað sig á að í skapandi huga stúlkunnar leynast fjaðrir sem hún getur stolið og skreytt sig með. Barónessan reynist síðan meiriháttar áhrifavaldur í lífi Estellu og dregur fram það versta í henni, þar sem hún þarf á allri sinni Cruellu að halda til þess að hafa betur í þeim hráskinnaleik sem tískustríð við Barónessuna er.

Tvær Emmur

Örlagasögu Estellu vindur fram á öndverðum áttunda áratugnum og tíðarandinn er geirnegldur með frábæru lagavali sem keyrir upp stemningu og stuð, í takt við ferlega skemmtilegar og töff senur þar sem brjálaðir búningar og klikkuð uppátæki Cruellu eru iðulega geggjaðir hápunktar.

Atburðarásin tekur alls konar heljarstökk og kollhnísa við undirleik The Clash, Blondie, ELO, Ninu Simone og þótt það ætti vitaskuld að vera illmögulegt að klúðra kvikmynd sem skartar Five to One með The Doors, þá hefði þetta samt svo auðveldlega getað farið í hundana.


Hér gengur hins vegar flest upp og munar þar mestu að vaktina standa Emmur tvær í aldeilis fantaformi. Emma Stone hefur tröllatak á báðum persónuleikum Estellu/Cruellu og skautar hárfínt milli ógnvekjandi skuggahliðarinnar og skrúfar þess á milli frá botnlausum sjarma sínum þegar sá gállinn er á dömunni.

Þungavigtarleikkonan Emma Thompson á síðan hvert bein í hinni rotnu Barónessu og nýtur þess greinilega í botn að túlka þá skelfilegu manneskju og stelur öllum sínum senum fyrirhafnarlaust og hefði auðveldlega rænt allri myndinni ef nafna hennar væri ekki jafn öflug og raun ber vitni.

Í hund og kött

Talsvert hefur verið látið með líkindi Cruellu og Joker, þar sem sviðsljósinu er beint að rótgrónum skúrkum úr dægurmenningarsögunni um leið og illvirki þeirra eru undirbyggð og réttlætt að hluta á sálfræðilegum forsendum.

„Grimmhildur Grámann, ef hún þig ei hryllir; neitt hrylla þig kann.“ Mynd/Disney

Þetta er svo sem ekki úr lausu lofti gripið, þótt Cruella minni í raun miklu frekar á aðra andhetju frá Gothamborg og er nokkuð markvisst og mjög greinilega spegluð í Kattarkonunni, Selina Kyle, úr Batman Returns eftir Tim Burton.

Ekki nóg með að sterkur svipur sé með þeim Michelle Pfeiffer og Emmu Stone, þá leika þær báðar hæfileikaríkar en hlédrægar konur sem sauma sér kúl búninga og sleppa villidýrinu í sér lausu þegar þeim er nóg boðið. Þótt þessi tenging sé sterk eru öll tvímæli tekin af í lokin, þegar hún er hömruð inn í hástöfum með vægast sagt gegnsærri vísun í Catwoman.

Niðurstaða: Ferlega góð Emma Stone og gersamlega frábær Emma Thompson lyfta þokkalegri upprunasögu langt yfir meðallag og gera Cruella að bráðskemmtilegri og smart mynd sem sýnir einu þekktasta og besta illmenni Disney fullan sóma þótt holdi klædd Grimmhildur sé ekki alveg jafn gegnsýrð af illsku og sú teiknaða.