Margir falla í þá gryfju að finnast að mataræði sem og góður lífsstíll þurfi að vera á allt eða ekkert nótunum. En það er vitleysa. Ef maður vill tileinka sér góðan lífsstíl, er langbest að gera það á þeim forsendum að manni langi til að líða vel andlega og líkamlega og ekki neinum öðrum. Þetta er ekki keppni og lífsstíllinn verður aldrei fullkominn, hvorki mataræðið, hreyfingin né annað.

Best er að taka einn dag í einu. Og þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá manni, að manni finnst, er gott að fara aðeins yfir hvað gerðist í dag sem var þess valdandi að ég sleppti að hreyfa mig eða borðaði svona mikinn sykur eða hvað það nú var sem gerðist sem maður hefði viljað að væri öðruvísi. Þegar maður áttar sig á því er maður búinn að læra og þá er best að sleppa tökunum, blessa þetta í huganum og muna að á morgun er nýr dagur. Góður lífsstíll er æfing og við erum að æfa okkur alla ævi.

Gott að vita

Vatn hjálpar okkur að hafa næga orku, hugsa skýrar og hraðar, er gott fyrir húðina og undirbýr magann fyrir að byrja að melta mat. Vatnið er ódýrast, hollast og best.

Quinoa er mjög kalk-, járn- og próteinríkt.

Chiafræ eru mjög auðmelt og þægileg í maga. Þau eru rík af kalki, omega-3, andoxunarefnum og góðum trefjum. Þau gefa okkur ennfremur góða jafna orku.

Eplaedik er gott fyrir meltinguna, jafnar sýrustigið og hjálpar okkur að melta matinn okkar betur

Turmeric er bólgueyðandi og allra meina bót.

Uppskriftir

Hér er uppskrift sem ég er sjúk í þessa dagana. Kannski er það vorið sem lætur mann langa til að borða létt, ég veit það ekki. En ég finn að svona léttir þeytingar gera það að verkum að mann langar minna í sætindi því maður fær útrás fyrir sæta bragðið í gegnum ávextina. Ekki hika við að nota ávexti og þurrkaða ávexti eftir ykkar smekk:

Mangóþeytingur

2 dl frosinn mangó (gott að láta liggja í blandaranum í smástund ef tími, ná mesta frostinu úr)

1 dl tæpur frosinn ananas og papaya

1 msk möndlu-kókos- og döðlumauk frá Rapunzel

1 msk gojiber

2-3 dl lífræn jurtamjólk að eigin vali

1 bútur engifer og 1 bútur turmeric (má sleppa en voða gott og hollt)

Aðferð: Mauka vel saman og ég set yfirleitt í skál og borða með skeið. Ég set múslí út á en skammta mér það svo ég borði ekki alltof mikið af því

Mér finnst líka frábært að setja 3-4 msk af chiabúðing út í þeytinginn. Ég bý hann til á kvöldin. Þá set ég 4 msk af chiafræjum í stóra krukku og 4 dl af möndlumjólk út á og 2 dropa af karamellustevíu. Hristi vel og geymi með loki inni í ísskáp. Geymist í um 5 daga að minnsta kosti.

Mangóþeytingur
Árna Torfa

Quinoagrautur

Þessi einfalda quinoa uppskrift er líka í miklu uppáhaldi hjá öllum. Alltaf borðuð upp til agna.

1 dl quinoa (lagt í bleyti í klukkustund)

2 dl vatn

Þroskaður mangó eða epli

Ólífuolía eftir smekk

Sítrónuólífuolía eftir smekk (ekki sleppa henni, hún er 'úmfið')

Aðferð: Kvöldið áður legg ég quinoa í bleyti í skál og set frosinn mangó í krukku og geymi með loki inni í ísskáp.

Daginn eftir skola ég vel quinoa í sigti og sýð í um 10-15 mínútur. Ég læt suðuna koma upp og lækka hitann þá niður í um 4 og set lokið á. Ég slekk svo undir eftir um 5 mínútur og læt bíða í um 5 mínútur og þá ætti það að vera soðið. Tekur aðeins lengri tíma ef þið lögðuð ekki í bleyti. Svo set ég soðið quinoa í skál og mangó eða eplabita út á og svo smávegis af ólífuolíu og smávegis af sítrónuólífuolíu. Þetta er sælgæti. Ekkert mál að taka grautinn með sér í vinnuna í krukku.

Gangi ykkur vel og munið, einn dag í einu.

Dásamlegur quinoagrautur með mangó
Árna Torfa