„Við þurftum auðvitað að loka eins og allir aðrir og opnuðum bara í byrjun síðustu viku, þá voru fimm ár síðan við byrjuðum með þetta uppistand á ensku hérna á Íslandi. Það var sem sagt einmitt 25. maí fyrir fimm árum síðan og núna erum við með The Secret Cellar, sem er uppistandsklúbbur fyrst og fremst, með efni á ensku,“ segir York, einn af eigendum staðarins.

Hann segir þó að flestir uppistandaranna séu vissulega íslenskir en flytji efnið á ensku. Þorri kúnna­hópsins fyrir heimsfaraldurinn hafi verið túristar en það sé auðvitað breytt í dag.

„Nú eru þetta nánast bara Íslendingar. Við erum með tvö svið, bæði uppi og á neðri hæðinni. Við tókum eiginlega yfir efri hæðina meðan á samkomubanninu stóð.“

Hafa æft sig lengi

York segist hafa fundið fyrir þó­nokkurri pressu í gegnum tíðina um að vera með nokkrar sýningar á íslensku.

„Nánast allir sem ég þekki í bransanum hafa sagt í gegnum tíðina: „Bara ef ég fengi nokkra mánuði. Bara ef heimurinn myndi hægja á sér um stundarsakir, þá næði ég að klára allt sem ég þyrfti að klára, skáldsögu og fleiri nýja brandara.“ Jæja, við fengum þetta móment, en ég held að enginn hafi verið undirbúinn undir það. Vandamálið er þó í sjálfu sér að það er ekki eins einfalt og að segja það að skipta yfir á íslensku. Grínistarnir hafa margir æft sig vikum saman í að segja brandarana á ensku og mögulega breytt þeim út frá viðbrögðum við þeim,“ segir York.

Hann segir það því vera nokkuð stórt skref fyrir uppistandarana að færa allt efni sitt yfir á ensku og byrja að æfa allt aftur.

„Ég finn mest fyrir þessari pressu að bjóða líka upp á sýningar á íslensku, frá grínistum sem koma sjaldnar fram, þeim líður stundum eins og það yrði bara kjánalegt að flytja efnið sitt á ensku. Þeim finnst eflaust að við ættum að sýna meiri þjóðerniskennd og færa okkur alveg yfir í íslenskuna, svona fyrst túristarnir eru farnir. Ísland fyrir Íslendinga! Svo horfa þeir á Netflix öll kvöld,“ segir York og hlær.

Óundirbúnir Íslendingar

Hann viðurkennir þó að það væri eflaust auðveldara að þýða úr ensku yfir á íslensku en öfugt.

„Það er svo mikið af orðagríni í íslenska húmornum. Ef maður tæki það allt út, stæði ekkert eftir nema tilvísanir í íslensk smástirni. Það er samt reyndar eitt sem ég fíla ekki við að skipta úr ensku yfir í íslensku, og það er hve margir sem eru að prófa sig áfram með íslenskt efni eru tregir til að æfa sig. Þeir leggja á minnið einhverja vafasama brandara um drykkjuglens og mistök í kynlífinu, bóka sal og rukka svo vini og vandamenn 5.000 krónur inn, bara til að segja einhverja kúkabrandara. Mjög fáir af þeim hafa komið fram þrisvar til fjórum sinnum í viku í tvö ár eins og svo margir hérna,“ segir York.

Hann segir að fólk geti kannski fundið eitthvað fjör í því að kíkja á klúbbinn og heyra enskuna, þá geti gestir hreinlega ímyndað sér að þeir séu staddir erlendis.

„Það fara vafalaust margir barir að leggja áherslu á einhverja þjóðerniskenndarstemningu. Hér getur fólk fundið eitthvað allt annað. Maður getur vel ímyndað sér að maður sé staddur í öðru landi. Enskan auðveldar öllum aðgengi, það er ekkert pláss fyrir einhverja þjóðerniskennd hérna. Maður getur komið hingað og prufað efnið sitt á opnu kvöldunum og maður þarf ekkert að pæla í áliti annarra, sérstaklega ekki annarra Íslendinga. Allt sem maður þarf er bara að hripa niður nokkra brandara. Á opnu kvöldunum er núna leyfilegt að flytja efnið á íslensku, en mig grunar að stór partur verði áfram fluttur á ensku,“ segir hann.

Hann segist handviss um að COVID-19 muni hafa varanleg áhrif á miðbæjarlífið.

„Fækkun túrista á eftir að hafa mikil áhrif og ég er ekki viss um að það að skipta út hettupeysunum fyrir lopapeysu sé endilega sniðugasta hugmyndin. Sjálfur er ég þó alltaf að verða betri og betri í íslenskunni, það hjálpar að konan mín á börn sem ég tala við á íslensku. Það er samt nokkuð í land að ég nái eitthvað að fá þau til að hlæja með bröndurunum mínum. Þangað til sætti ég mig við að þau biðji mig bara um að endurtaka orðin aftur og aftur og geri stólpagrín að hreimnum mínum,“ segir York brattur að lokum.