Fyrsta orð ársins á vegum Oxford-orðabókarinnar hefur verið valið og er það orðið „Goblin mode“. Vissulega eru það tvö orð en Oxford-orðabókin hefur áður gefið út að orð ársins þurfi ekki að vera eitt orð heldur geti einnig verið hugtak eða slangur.

Fólki hefur þó reynst erfitt að skilgreina hvað orðið þýðir en það er slangur sem merkir sérstaklega letilega ástand sem einnig einkennist af græðgi. Þá merki hugtakið einnig andfélagslega hegðun og minnkuð samskipti við aðra.

Orðið á sér ekki beina hliðstæðu í íslensku en Leppalúði hefur verið nefndur sem aðili í íslenskum þjóðsögum sem kjarnar þá hegðun sem hugtakið lýsir. Þó væri hægt að nefna orðið haugshátt sem líklega hliðstæðu.

Starfsfólk Oxford segir að notkun á Goblin mode hafi færst mikið í aukana á þessu ári en talið er að notkun á því hafi byrjað á netinu í kringum árið 2009.

Talið er að aukning í notkun á orðinu hafi komið til eftir að takmarkanir á tímum Covid-19 voru felldar niður en fólk átt erfitt með að aðlagast venjulegu lífi aftur.

Því hafi verið mikil löngun hjá mörgum til að fara í „drýsilham“ eða „púkaham“ og liggja í leti og borða óholla fæðu. Fólk sé þannig að leyfa sínum innri djöflum að leika lausum hala.

Þátttakendur völdu á milli þriggja orða eða myllumerkja sem tilnefnd voru. Önnur orð sem komust hátt voru Metaverse sem stendur fyrir sýndarveruleika sem samfélagsmiðillinn Meta er með í hönnun og lenti það í öðru sæti. Þá lenti myllumerkið #IStandWith eða #ÉgStendMeð í þriðja sæti.

Þetta er í fyrsta sinn sem almenningi er leyft með einhverjum hætti að taka þátt í vali á orði ársins og var þátttaka vonum framar að sögn starfsmanna Oxford.