Tanntaka er fyrsta ljóðabók Þórdísar Helgadóttur sem hefur áður vakið athygli fyrir smásagnasafnið Keisaramörgæsir (2018) auk þess sem hún er einn af meðlimum ljóðakollektífsins Svikaskálda sem sendu nýlega frá sér skáldsöguna Olíu.

Viðfangsefni Tanntöku eru kunnugleg; móðurhlutverkið, hversdagsleikinn, kvíðinn, kynslóðaskiptin, en þótt við höfum rekist á þau hjá öðrum skáldum þá sannar Þórdís Helgadóttir hér að það er ekki umfjöllunarefnið sem gerir skáldið heldur það hvernig skáldið vinnur úr umfjöllunarefninu.

Tanntaka er auðug bók, uppfull af ferskum, óvæntum líkingum og kröftugu myndmáli. Ljóðin eru vissulega krefjandi og lesendur gætu þurft að rýna í sum þeirra nokkrum sinnum til að átta sig á samhenginu, en með hverjum lestri opnast ný gátt inn í ljóðheiminn.

Í meðförum Þórdísar verða hversdagslegar athafnir að goðsögulegum viðburðum. Þetta sést vel í fyrsta ljóði bókarinnar, Fasaskiptum, sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í byrjun árs. Þar fylgist ljóðmælandi með börnum sínum leika sér á ísilagðri Tjörninni þar sem þau keyra kuldaskóna í gegnum ísinn. Þessi sýn verður uppspretta frumspekilegra vangaveltna um eðli lífsins og tímans í þrungnu líkingamáli.

„Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni / Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn / Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu / Í gegn“.

Þá birtist meðgangan lesendum sem eins konar dulrænt ritúal í ljóðinu Síðan tók það skeið enda þar sem ljóðmælandi mætir með hópi kvenna á það sem virðist vera námskeið í fæðingarundirbúningi sem er leitt af véfrétt með sigin brjóst. Ljóðið er draumkennt og ekkert í því sem minnir á raunsæi eða natúralisma en samt fáum við sterklega á tilfinninguna að verið sé að lýsa einhverju ævafornu og svo inngrónu í mannkynið að við skiljum það fremur með innsæinu heldur en rökfræðinni.

Þórdís hikar ekki við að blanda saman þröngu og víðu sjónarhorni, þannig verður lífið táknmynd fyrir mannkynssöguna og mannkynssagan táknmynd fyrir alheimssöguna eins og í ljóðinu Babúskur þar sem hún lýsir sínu eigin fæðingarári:

„Miklahvell / man ég vel / mýþískan tíma / þegar risar gengu / og gulur broddur rann“.

Styrkleikur bókarinnar felst einna helst í því hvernig höfundi tekst að blanda saman gjörólíkum ljóðmyndum og tilvísunum svo úr verður dýnamísk kóreógrafía sem kemur sífellt á óvart. Tanntaka er ekki auðveld bók og gerir töluverðar kröfur til lesenda sem þurfa að hafa sig alla við til að ljúka upp marglaga myndmálinu. Líkingarnar jaðra á köflum við hið fáránlega (absúrd) eins og í ljóðinu Reimleikar þar sem höfundi tekst í einu og sama erindinu að vísa í Kommúnistaávarpið, eldgosið í Pompeii og bandaríska spjallþáttamenningu.

Þetta getur virkað ruglingslegt en höfundur fer þó svo fagmannlegum höndum um ljóðformið að best er fyrir lesanda að gefast upp á öllum tilraunum til að reyna að „skilja“ inntak ljóðanna og leyfa skáldskapnum hreinlega að hrífa sig með í ferðalag á óvæntan áfangastað.

Niðurstaða: Kraftmikið og marglaga verk sem skapar ljóðrænu úr óvæntum áttum og ljáir hversdagslegum athöfnum dulrænt goðmagn.

Kápa/Alexandra Buhl