Nemendur Menntaskóla í tónlist klæða íslensk þjóðlög í nýjan búning á þjóðlagatónleikum skólans, ​Heyri ég hljóm​. Á tónleikunum munu gamlar þjóðlagaperlur hljóma í flutningi fjórtán söngvara og fimm manna hljómsveitar. Flytjendurnir eru allir í rythmísku námi en eru mislangt komnir, sumir munu útskrifast í vor en aðrir eru á fyrsta ári og allt þar á milli.

Gífurleg þekking

„Lögin eru valin af Ragnheiði Gröndal og Ásgeiri Ásgeirs en þau hafa bæði unnið mikið með þjóðlagatónlist á sínum ferli og verða nokkrar af útsetningum Ásgeirs, af plötunni ​Two sides of Europe ​ sem kom út 2017, fluttar á tónleikunum,“ segir Salóme Magnúsdóttir söngkona.

Fólk getur átt von á að heyra þjóðlagaperlur á borð við Ljósið kemur langt og mjótt, ​Hættu að gráta hringaná ​ og ​Góða veislu gjöra skal ​ásamt fleiri klassískum lögum.

„Það er brennandi áhugi meðal okkar nemenda á þjóðlögum og þekking þeirra Ásgeirs og Röggu á efninu drífur okkur áfram og veitir okkur innblástur. Í gegnum tónleikana fá nemendurnir að kynnast þessari hefð og arfleifð sem er svo mikilvæg og sterk í okkur,“ segir hún.

Fara aftur til fortíðar

Heiti tónleikanna er ​eins og áður kom fram Heyri ég hljóm, sem er þekkt þjóðlag. Lagið verður þó ekki flutt á tónleikunum.

„Við völdum nafnið vegna þess hve sterkur kveðskapur þess er og vegna þess að tónleikar og tónlist snúast í raun um að heyra hljóm. Þema tónleikanna sprettur í kringum forvitni og löngun til þess að halda tónlistararfleifð okkar á lofti í rythmísku söng- og hljóðfæranámi,“ segir Salóme.

Hún segir þjóðlögin grunninn að íslensku tónlistarlífi á sinn hátt.

„Fólk var að yrkja vísur og syngja í fimmundum löngu áður en fyrsta orgelið kom til landsins. Það er því mikilvægt að fara aftur til fortíðar og læra um það hvernig þetta byrjaði allt saman. Þjóðlögin okkar eiga upptök sín í röddinni, þar vaknaði lagasmíðin.“

Finna sína rödd

Á þessum tónleikum, segir Salóme, var því ákveðið að leggja áherslu á að láta röddina leiða úrvinnslu margra laga. Með röddunum hljóma víóla, fiðla, bassi, slagverk, gítar og píanó auk þess sem áheyrendur geta búist við sellói í einu lagi.

„Í rythmísku námi er athygli nemenda oft beint út fyrir landsteinana þar sem fyrirmyndirnar eru söngvarar á borð við Ellu Fitzgerald, Sarah Vaughn og Kurt Elling. Með þeim kemur ákveðinn rammi fyrir röddina sem við erum að stíga út fyrir á þessum tónleikum. Við reyndum að gera rými fyrir söngvarana til þess að finna sína eigin rödd í gegnum þjóðlögin en það er mjög verðmætt að nemendur í rythmísku námi kynnist þjóðlögum og þjóðlagahefð,“ segir Salóme.

Í æfingaferlinu voru nemendur hvattir til að nálgast lögin út frá eigin tilfinningum, því þannig sé eðli þjóðlaga.

„Þau eru okkar allra og hver og einn getur nálgast þau í gegnum sína eigin rödd, bæði ungir sem aldnir. Ásamt því að syngja og spila á hljóðfæri koma allir að sýningunni á mismunandi vegu, til að mynda með því að sjá um umgjörð sýningarinnar, sviðsmynd, hljóðheim og fleira,“ segir hún.

Tónleikarnir eru ekki einungis til að gleðja eyru því þeim er einnig ætlað að koma áheyrendum í tengsl við liðna tíma og menningu í gegnum bæði hljóð og mynd. Þeir fara fram á sunnudaginn klukkan 17.00 í hátíðarsal FÍH að Rauðagerði 27. Aðgangseyrir er 1.000 krónur og miðasalan við innganginn og Salóme segir alla velkomna á meðan húsrúm leyfir.