Fólk

„Sárt að hugsa að til séu vondar stjúpur“

Erna Kristín Stefánsdóttir, guðfræðingur og snappstjarna, varð stjúpmóðir árið sem hún varð fullorðin. Hún er verðandi brúður á Ítalíu og stofnaði nýlega vinsælan Facebook-hóp um hlutskipti stjúpforeldra og stjúpbarna.

Erna Kristín Stefánsdóttir í Ernulandi segir mikilvægast fyrir stjúpforeldra að byggja upp vináttu við stjúpbörn sín. MYND/SIGTRYGGUR ARI

Ég var átján ára þegar lítil, þriggja ára skotta kom inn í líf mitt og við smullum strax saman. Það er ekki sjálfgefið,“ segir Erna Kristín Stefánsdóttir um þá gleði sem fyllti líf hennar við að verða stjúpmamma, þá rétt orðin fullorðin sjálf.

„Það hvílir þungt á mörgum stjúpforeldrum að upplifa ekki náin tengsl við stjúpbörn sín en að vera stjúpforeldri snýst ekki endilega um að finna fyrir móður- eða föðurást til barnanna heldur að samþykkja þau inn í líf sitt, vera til staðar og láta þau finna að þau séu velkomin. Mitt besta ráð er að byggja samband við barnið á vinskap því það er alltaf hægt að byggja meira ofan á góða vináttu.“

Mikilvægt að vera til staðar

Erna stofnaði nýlega umræðuhópinn Góða stjúpan á Facebook. Þar eru strax hafnar góðar umræður á jákvæðum grundvelli og með skilningi á ólíkum sjónarmiðum úr öllum áttum.

„Ég ákvað að stofna Góðu stjúpuna vegna þess að mér fannst skorta umræðuvettvang fyrir bæði kynin en einnig foreldra sem eiga börn sem eiga stjúpforeldra, og stjúpbörn sem eru komin með aldur til að vera á Facebook. Í hópi Góðu stjúpunnar eiga öll sjónarhorn að heyrast til að enn fleiri öðlist skilning á mismunandi skoðunum annarra.“

Erna segir foreldra barna sem eiga stjúpforeldra líka eiga fullt erindi í Góðu stjúpuna.

„Það er svo mikilvægt fyrir foreldra að sjá hvaða áhyggjur stjúpforeldrar hafa og hverju þeir eru að velta fyrir sér. Stór ástæða þess að samskipti geta reynst erfið er að það skortir mikið upp á skilning foreldra á aðstæðum einstaklinga sem taka þurfa u-beygju í lífi sínu þegar þeir ganga inn í hlutverk stjúpforeldra.“

Það tók Ernu langan tíma að átta sig á raunverulegu hlutverki stjúpforeldra í lífi barna.

„Hlutverk stjúpforeldra er að vera til staðar fyrir börnin. Oft ríkir gremja og misklíð á milli foreldra og ekki er alltaf svigrúm fyrir stjúpforeldrana til að taka virkan þátt í uppeldi barnanna. Þá er gott að minna sig á að helsta hlutverk stjúpforeldra er að vera til staðar þegar barnið er hjá þeim og auðvitað alltaf þegar barnið hringir eða leitar til þeirra,“ segir Erna.

Vonda stjúpan

Vonda stjúpan er mörgum hugleikin en Erna trúir því statt og stöðugt að til séu miklu fleiri góðar stjúpur og þar er komin skýring á nafninu Góða stjúpan.

„Það er sárt til þess að hugsa að til séu vondar stjúpur og mín persónulega skoðun er sú að það ætti enginn að fara í samband við mann eða konu sem á börn ef ætlunin er ekki að taka börnunum opnum örmum. Börn eru hluti af heild sem er fjölskyldan þeirra og stjúpforeldrið bætist þar við, en ekki öfugt. Þetta þarf að hafa í huga þegar gengið er í samband við aðila sem á barn og því er aldrei í boði að ýta barni út á jaðarinn svo að stjúpan eða stjúpinn komist inn,“ segir Erna um stjúptengsl sem eru svo algeng og mikilvægt að takist vel.

„Sá sem er þess valdandi að börn verða útskúfuð á eigin heimili og ekki lengur hluti af heildinni á ekki erindi í samband með foreldri barns. Það gleymist líka að ræða hversu flókið það getur verið að vera stjúpbarn. Börnin sjálf biðja ekki um þessar aðstæður og því undir fullorðna fólkinu komið að þær séu áreynslulausar fyrir barnið. Þegar samskipti fullorðins fólks eru stirð er mikilvægt að spila rétt úr öllu og helst leika leikrit til að halda öllu góðu á meðan leyst er úr erfiðleikunum. Börn eiga ekki að þurfa að vera meðvituð um að við séum ekki öll bestu vinir. Þau þurfa bara að vera meðvituð um að vera börn og þau sjálf, að leika sér og standa ekki mitt í togstreitu á milli foreldra sinna.“

Erna bendir á að barn eigi rétt á að mynda tengsl við foreldri sitt á eigin forsendum.

„Þegar pabbi kemur illa fram við mömmu, en barnið sér pabba sinn sem þann besta í heimi, má mamman ekki yfirfæra það á barnið heldur leyfa því að njóta vafans og vera tilfinningalega frjálst gagnvart hinu foreldrinu. Það er tilfinningaleg tálmun að ákveða hvernig barni á að líða gagnvart foreldri sínu.“

Þessi undurfallega mynd sýnir samfylgd Ernu og stjúpdóttur hennar eftir því sem árin hafa liðið, hönd í hönd með vináttunnar tryggðarbönd. Myndirnar eru teknar á þriggja ára fresti og verður næsta mynd tekin eftir tvö ár.

Með hlýtt og opið hjarta

Erna er enn stjúpmamma litlu stúlkunnar sem hún eignaðist svo óvænt átján ára en hefur síðan eignast son.

„Sterk tengsl okkar stjúpmæðgna breyttust ekkert við það að lítill bróðir kom í heiminn. Helsti munurinn á því að vera stjúpmamma og móðir drengsins míns finnst mér vera að við mæðgur höfum það fram yfir að eiga þessi dýrmætu vinkonutengsl sem eru engu síðri og svo innilega mikilvæg. Þegar sonur minn kom í heiminn greip mig strax ábyrgðarfullt hlutverk uppalandans en sem stjúpforeldri getur maður byggt upp undursterk og falleg vinatengsl sem maður gerir ekki endilega með börnum sínum,“ segir Erna.

Sem átján ára stjúpmamma hafi hún vissulega verið í öðrum takti en vinkonur hennar.

„Ég ákvað strax að verja tíma mínum með stjúpdóttur minni í stað þess að fara út að skemmta mér og þegar ég lít til baka finnst mér ekkert dýrmætara en að eiga minningar með henni síðan hún var svo ung.“

Stundum hafi hún spurt sig og aðra hvort eðlilegt eða jafnvel óæskilegt sé að hafa svo sterk tengsl við einstakling sem hún hefur ekkert um að segja nema að vera til staðar.

„Svörin hafa verið á eina leið; að ég ætti að vera þakklát því svo sterk tengsl upplifi alls ekki allir. Það er líka ástæða þess að ég stofnaði Góðu stjúpuna. Við mægður erum oft að fíflast saman á Snapchat og Instagram og þar hafa konur haft samband við mig og sagst ekki finna þessu nánu tengsl við stjúpbörn sín. Mig langaði því að miðla því áfram að vera stjúpforeldri snýst ekki um að finna sömu tengsl í stjúpbörnum sínum og eigin börnum heldur að taka þeim vel, vera með hlýtt og opið hjarta og byggja sambandið upp á vinskap. Á þeim grunni er hægt að byggja svo margt í framhaldinu.“

Verðandi brúður á Ítalíu

Erna er nú 27 ára og stjúpdóttir hennar að verða tólf ára. Í júlí eru þær á leið til Ítalíu með tilvonandi eiginmanni Ernu, nánustu fjölskyldu og vinum.

„Við Bassi Ólafsson ætlum að ganga í hjónaband í San Severino Marche á Ítalíu þann 18. júlí og eyða hveitibrauðsdögunum í ítalskri sveitarómantík,“ segir Erna sem er frægur snappari með yfir 24 þúsund fylgjendur á Facebook, Snapchat og Instagram.

„Það gerðist óvart. Ég hafði hugsað mér að opna fyrir sölu á málverkum mínum á Instagram en var allt í einu orðin snappari og hef gaman af. Ég er virkust þessa dagana á Instagram, vinn mikið með líkamsvirðingu kvenna, stjúptengsl og með UNICEF því mér finnst mikilvægt að nota fjölda fylgjenda í hluti sem skipta máli, en ég mun að sjálfsögðu sýna frá brúðkaupinu,“ segir hún og hlær.

Næsta vor lýkur Erna embættisprófi sem prestur frá Háskóla Íslands.

„Ég fór í guðfræðinám því mig langaði að vinna með fólki og fannst preststarfið tilvalinn vettvangur til þess, því ég held að fáir vinni eins náið með fólki. Ég stefni á að verða sjúkrahúsprestur því ástríða mín er að hjálpa öðrum og mér líður alltaf eins og ég hafi fyllt á bensíntankinn þegar ég geri góðverk,“ segir Erna og hlakkar til þess að láta til sín taka.

„Ég er sterk á svellinu og meðvituð um að starf prests er umfangsmikið en ég hef stefnt að þessu lengi. Sjúkrahúsprestar vinna með fólki á erfiðustu stundum lífs þess, og með læknum og hjúkrunarfólki í handleiðslu. Það er ómetanlegt fyrir þá sem standa frammi fyrir því að missa ástvini sína að hafa einhvern til að halda í höndina á í gegnum þungbær skref og alls kyns pappírsvinnu sem er erfitt að hugsa um á slíkum stundum,“ segir Erna með trúna að vopni.

„Ég er sannarlega trúuð og lít á Guð sem mitt innra sjálf og drifkraft til að gera rétt; kærleikann í verki. Það er minn Guð.“

Og lífið í Ernulandi er frábært.

„Ég er að springa úr spenningi og með áfast bros á andlitinu. Fólk heldur eflaust að ég sé skrýtin en ég ræð bara ekki við mig,“ segir hún og skellihlær.

Smelltu hér til að gerast meðlimur í Góðu stjúpunni frá Facebook. Þú finnur Ernu undir Ernuland á samfélagsmiðlum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Hlaupastíllinn getur komið þér lengra

Fólk

Öll orkan fór í að komast í sam­band við tísku­húsin í París

Fólk

„Einkennin geta verið svo lúmsk“

Auglýsing

Nýjast

Hanna flíkur úr ó­nýttum efna­lagerum

Eftir hundrað ár munu fleiri leika sér

Leyndarmál íslenskrar listasögu

Hatari er viðvörun

Líkt við Gaultier og Galliano

Í­huguðu nánast alla leikara í Hollywood fyrir Titanic

Auglýsing