Hugmyndin að sultugerðinni kviknaði þegar mig langaði í nýjan síma og var sagt að ég ætti að safna mér fyrir honum sjálf. Eygló systur langaði í rafmagnshlaupahjól og átti líka að safna sér fyrir því, en það tekur krakka langan tíma að safna peningum. Okkur datt þá bara í hug að vinna fyrir þeim sjálf og biðja ömmu að aðstoða okkur við að búa til rifsberjahlaup,“ segir Eva Lind Árnadóttir, sem ásamt Eygló systur sinni fékk leyfi til að tína rifsber í skólagörðunum í Garðabæ í haust og endaði með fleiri kassa af dýrindis berjum.

Amma systranna er Helga Friðriksdóttir, fyrrverandi kennari við Hússtjórnarskólann í Reykjavík.

„Amma var mjög spennt að kenna okkur að búa til rifsberjahlaup en þegar hún sá öll berin sem við tíndum hrópaði hún upp yfir sig: „Guð minn góður! Ég hef aldrei séð svona mikið magn!“,“ segir Eva Lind um ömmu Helgu, sem kann á því tökin að sulta og tók því fagnandi að kenna sonardætrum sínum að verða húslegri.

„Það er mikil sultumenning í fjölskyldunni og afi, sem nú er á Sólvangi, var vanur að fá sér þrjár brauðsneiðar með rifsberjahlaupi á morgnana og amma hefur alltaf verið hugmyndarík og dugleg að gera alls konar útfærslur af sultum.“

Eva Lind með Helgu ömmu sinni að sigta og sulta úr rifsberjunum góðu.

Heilmikill lærdómur

Systurnar lærðu af ömmu sinni að tvísjóða og tvísigta rifsberin en við það að sjóða hratið aftur og bæta við nokkrum frosnum hindberjum kemur einstaklega ljúffengt bragð af hlaupinu.

„Rifsberjahlaupið okkar er mjög gott, sko,“ segir Eygló, sem er í 5. bekk í Hofsstaðaskóla, en Eva Lind er farin yfir á unglingastigið í 8. bekk í Garðaskóla. „Öðrum krökkum finnst þetta sniðugt og ein vinkona mín sagði að þetta væri mjög flott hjá mér og vildi kaupa af mér sultu,“ bætir hún við.

Það eru enda einhverjar sultukrukkur eftir þótt salan hafi gengið vel hjá þeim systrum.

„Það er næstum komið fyrir hlaupahjólinu með afmælispeningunum sem ég átti en síminn er dýrari en hjólið,“ upplýsir Eygló.

„Það er mjög góð tilfinning að vinna fyrir hlutunum sjálfur í stað þess að fá þá upp í hendurnar. Maður þarf að hafa heilmikið fyrir þessu og lærir af því. Kannski tími ég svo ekkert að kaupa símann og legg sultupeninginn inn á bók. Það væri mér líkt,“ segir Eva Lind.

Spenntar að sulta meira

Sultukrukkur Eyglóar og Evu Lindar eru listilega skreyttar.

„Við vildum hafa þær fallegar og handskrifuðum miða á hverja einustu krukku með flottum litum sem Eygló fékk í afmælisgjöf og hentuðu mjög vel í þetta. Svo setti pabbi auglýsingu á Facebook síðasta laugardag og það varð sprenging á sunnudag. Við sprittuðum allar krukkurnar að utan og vorum með grímur þegar við keyrðum þær út, en margir komu líka heim að sækja sér sultu,“ segir Eva Lind.

„Við höfum ekki enn gert neinar tilraunir í eldhúsinu með rifsberjahlaupið en það væri gaman að prófa að setja það í ostaköku eða eftirrétt,“ segir Eygló og bætir við:

„Mér fannst mjög góður lærdómur að gera rifsberjahlaupið með ömmu og er spennt að gera það aftur. Amma og pabbi þurfa þó alltaf að vera til aðstoðar því safinn af berjunum verður alveg ægilega heitur og því geta krakkar ekki sjálfir hellt hlaupinu í krukkurnar.“

Sultukrukkurnar eru handskrifaðar og fagurskreyttar af systrunum.

Kófið gefur margt og óvænt af sér

Þær Eva Lind og Eygló leggja báðar stund á tónfræði og píanónám auk þess sem Eva æfir frjálsar íþróttir og Eygló fótbolta.

„Ég er ekki viss um að sultugerðin hefði verið svona kraftmikil ef ekki væri fyrir samkomubannið og styttri skóladag. Samfélagið er svo mikil maskína, það er stöðug dagskrá, vinna og skóli, tómstundir og íþróttir, en í kófinu skapast tími, sköpunarkrafturinn fær að njóta sín, og hugmyndir kvikna og rætast,“ segir faðir þeirra, Árni Hafsteinsson flugmaður.

Hann hafði vart undan að útvega dætrum sínum sultukrukkur undir rifsberjahlaupið.

„Það er alveg greinilega ákveðin sultuþörf á sumum heimilum og þeir sem komust ekki í sultugerð eins og vanalega eru spenntir að komast í gott hlaup. Ég hafði keypt talsvert magn af sultukrukkum í Bandaríkjunum en svo vantaði meira og þá fór ég að skilja hvers vegna fólk safnar krukkum því þær eru dýrar hér heima, allt að 300 krónur stykkið. Þá er hagnaðurinn fljótt farinn, en ég fann á endanum krukkur á 100 krónur stykkið í Bónus,“ segir Árni.

„Það jákvæða við kórónuveiruna er að samverustundir fjölskyldunnar aukast. Þótt farsótt geisi er maður ekki dauður úr öllum æðum og verður að halda áfram að lifa.“

Eitthvað smávegis er eftir af rifsberjahlaupi systranna enn og er hægt að senda Árna, pabba Evu Lindar og Eyglóar, fyrirspurn á Facebook ef sultulöngunin kviknar.