Viðurkenningin yljar mér. Hún er mikils virði fyrir mig og ævistarf mitt innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég er þakklát og stolt af því að hljóta hana fyrir starf sem tók mikinn tíma og líka full þakklætis fyrir það góða fólk sem vann með mér á Landspítalanum og gaf mér tækifæri til að vaxa og þroskast; samstarfsfólk og stjórnendur sem sáu tækifæri í því að taka mig í verkefnið,“ segir Anna sem hóf störf sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á Landspítalanum árið 1975.

„Mér er mjög hlýtt til Landspítalans og í öll þessi ár var ég vakin og sofin yfir starfi mínu. Þar var gott að vinna og í minningunni fór ég glöð til vinnu á hverjum degi. Sem hjúkrunarfræðingur fann ég fljótt að ég vildi hafa áhrif á hvernig hjúkrunarstarfið þróaðist á Landspítala og sóttist eftir því að stjórna gjörgæsludeildinni þegar það starf losnaði 1980. Þar missti ég aldrei sjónar á því hvernig hjúkrun og umönnun við sjúklinga yrði betri og þar tala verk mín enn á spítalanum,“ upplýsir Anna sem eftir meistaranám í hjúkrunarstjórnun við Edinborgarháskóla árið 1988 tók við sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum til ársins 2012.

„Það er ákaflega gefandi að starfa við hjúkrun og maður nær miklum árangri í því starfi. Í hjúkrun sér maður fólk á öllum stigum lífsins. Einstaklingar sem njóta hjúkrunar eru veikir og við erum þar til að hjálpa fólki að ná tökum á lífinu aftur. Nú gengur illa að manna störf hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum en að mínu mati er það vegna þess að Landspítalinn er rekinn í gömlu og úreltu húsnæði sem hentar ekki kröfum nútímans. Það hefur áhrif á nýliðun í stéttinni og líðan okkar í vinnunni. Þá þarf að tala þetta góða og skemmtilega starf upp en ekki niður eins og svo oft er gert í neikvæðri þjóðfélagsumræðu,“ segir Anna sem nú er starfandi forstjóri á Reykjalundi.

„Ég er langt í frá sest í helgan stein og vinn enn fullan vinnudag ásamt því að vera virk í félagsmálum. Þar er ég í forsvari fyrir Rótarýumdæmið á Íslandi, samtökin Spítalann okkar og í starfsstjórn Reykjalundar. Á Reykjalundi nýtist reynsla mín sem stjórnandi mjög vel og þar eru ýmis tækifæri til að byggja upp sérþekkingu innan hjúkrunar eins og ég hef innleitt og sést í verki á Landspítalanum,“ segir Anna.

Hún er með skilaboð til kvenna í atvinnulífinu.

„Til að geta haft áhrif eins og konur vilja er mikilvægt að missa aldrei sjónar á markmiðum okkar né tilganginum með því að fara í vinnuna á degi hverjum. Að vita hverju við ætlum að ná fram með starfi okkar og hvert við stefnum. Þá skiptir ofsalega miklu að finna gleðina í starfinu,“ segir Anna sem lítur sannarlega sátt um öxl.

„Það er góð tilfinning að skilja mikið eftir sig og finna að það sé mikils metið.“