Menntaskólalífið þykir mörgum ljúfsárt. Nokkrir úrræðagóðir stúdentar segja frá menntaskólaárunum og gefa afar haldgóð ráð til að þrauka veturinn af.

Settar í skottið á skítugum bíl

Berglind „Festival“ Pétursdóttir

dagskrárgerðarmaður

„Ég hóf menntaskólagöngu mína í Menntaskólanum við Hamrahlíð haustið 2004, þá 15 ára gömul. Ég var ári á undan í skóla, mjög saklaus og mætt í skólann til að læra og vera best í bekknum. Um það bil korteri síðar var ég byrjuð að reykja og fallin á mætingu í stærðfræði. Menntaskóli hafði hræðileg áhrif á mig,“ segir Berglind og rifjar upp busadaginn sem margir kviðu fyrir.

„Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ennþá stundaður sá góði siður að siða nýnema rækilega til á busadaginn svokallaða. Ég og vinkona mín vorum settar í skottið á mjög skítugum bíl, keyrt með okkur á bensínstöð þar sem nú stendur tónlistarhúsið Harpa. Þar fengum við að þrífa bílinn hátt og lágt áður en við vorum skildar þar eftir.“

Berglind segist oft hugsa til kennaranna í skólanum. „Sem kenndu manni af mikilli innlifun um hluti sem maður hafði engan áhuga á. Þetta fólk er hetjurnar mínar í dag.

Þetta voru skemmtilegir tímar en alls ekki bestu ár ævi minnar. Ég held að fólk sem segir að menntaskólaárin séu bestu ár ævi manns lifi mjög leiðinlegu lífi. Ég var kannski ekkert sérstaklega mikið til fyrirmyndar en ég náði samt á einhvern undraverðan hátt að útskrifast á tveimur og hálfu ári. Og sjáið mig í dag, allt í lagi með mig, þannig séð.“

Gott ráð frá Berglindi:

Taka eins mikið af áföngum í yndislestri og hægt er og ekki byrja að reykja.

Frá nýnemadegi í MR sem er með hefðbundnum hætti. Maðurinn með ljáinn gengur um hverfið og oftar en einu sinni hefur góðborgurum í nágrenninu brugðið illilega og hringt á lögregluna. Fréttablaðið/Valli

Fór í býflugubúningi til London

Kristinn Arnar

tónlistar- og myndlistarmaður

„Ég var í MH! Geggjaður tími, kynntist mörgum af mínum bestu vinum, gerði mikið mínum stærstu mistökum og náði að þroskast og finna út hvað það var sem að ég vildi gera,“ segir Kristinn Arnar, tónlistar- og myndlistarmaður, sem margir þekkja einnig undir listamannsnafninu Krassasig.

Hann rifjar upp afar eftirminnilegt atvik. „Ég saumaði mér einu sinni býflugubúning, fyrir grímuballið á öðru ári. Ég var ekki kominn með neinn búning daginn fyrir ballið, svo ég greip til þess örþrifaráðs að sauma. Ballið var geggjað, en í beinu framhaldi fórum við nokkrir til London, beint út á flugvöll um nóttina eftir ballið og ég gleymdi töskunni og öllum fötum, þannig að ég var allt í einu lentur í London með ekkert, klæddur í býflugubúning.“

Ráð frá Kristni Arnari

Ekki taka neitt of alvarlega, prufa allt sem manni finnst spennandi og vera opin fyrir að kynnast sem flestum.

„Þetta verður að vera skemmtilegt líka“

Þráinn Árni Baldvinsson

gítarleikari í Skálmöld

„Ég fór í Laugaskóla, það lá beinast við, sveitaskólinn minn. Ég entist reyndar ekkert lengi þar. Ég man að Guðbjörg Þórisdóttir, umsjónarkennarinn minn og einn af mínum uppáhaldskennurum, las mér pistilinn þegar ég sagði henni að ég ætlaði að hætta og fara í tónlistarskóla í Reykjavík. Henni leist ekkert á að ég myndi hætta í framhaldsskóla. Mér þykir mikið vænt um þennan frábæra fund þó ég hafi kannski ekkert verið alltof kátur með Guðbjörgu mína akkúrat þá stundina.

Ég reyndi svo að gera eitthvað af viti í MH en þaðan stendur nákvæmlega ekkert eftir nema frábærar minningar um alla tónleikana í söngva- og sönglagakeppnum skólans, Óðríkur algaula og söngkeppnin, ég held ég hafi spilað 800 þúsund sinnum í MH á menntaskólaárunum.

Atvikið sem stendur upp úr er klárlega þegar við Lauga-félagarnir, Öddi (Mugison), Heiðar, Halli, Hjörtur, Magni og Rikki brunuðum suður að taka þátt í Músíktilraunum. Glórulaus ferð að svo mörgu leyti en gríðar mikilvæg í okkar eigin tónlistarsögu. Við lærðum margt í þessari ferð.“

Ráð frá Þráni

Til að lifa af menntaskólaárin er mikilvægt að gleyma sér ekki í einhverju rugli, hvorki djammi, of mikilli vinnu eða heimskulega miklu námi. Þetta verður að vera skemmtilegt líka. Reyna að finna balansinn og vera skynsamur, þetta eru mikilvæg ár og þeim á ekki að sóa í einhver leiðindi.