Ína Ólöf Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Sorgarmiðstöðvar, segir að jólin geti oft reynst syrgjendum erfiður tími og í ár skapi COVID-ástandið aukið álag. Markmið Sorgarmiðstöðvar er að styðja við syrgjendur og alla sem vinna að velferð þeirra og þar er hægt að fá góð ráð til að gera ástandið bærilegra. Ína talar svo sannarlega af reynslu, en hún hefur sjálf mætt hræðilegum áföllum.

„Mín fyrstu kynni af sorginni voru þegar ég missti fyrsta barn mitt á meðgöngu gengin 22 vikur, en þá var ég 26 ára gömul. Þetta var árið 2002 og tíu árum síðar, árið 2012, missti ég eiginmann minn til 18 ára úr heilaæxli frá tveimur ungum börnum okkar,“ segir Ína. „Árið 2013 stofnaði ég samtökin Ljónshjarta ásamt öðru góðu fólki og var þar formaður fyrstu sex árin. Árið 2018 tók ég svo þátt í að stofna Sorgarmiðstöð og hef unnið að uppbyggingu hennar ásamt öðrum.

Starfsemin lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu,“ segir Ína. „Aðsókn eftir þjónustunni hefur verið mikil og fer ört vaxandi. Það er ekki nema ár síðan miðstöðin var opnuð og á þeim tíma hafa fjölmargir nýtt þjónustuna, hvort sem það er ráðgjöf, fræðsla eða beinn stuðningur.“

COVID hamlar hópastarfi

„Við erum sífellt að auka við í stuðningshópastarfinu okkar ásamt því að bæta við nýjungum. Við reynum líka að svara ákalli samfélagsins og bjóðum nú í fyrsta sinn upp á stuðningshóp fyrir ömmur og afa sem misst hafa barnabarn eða styðja barnabarn í sorg,“ segir Ína. „Við bjóðum líka upp á stuðningshóp fyrir fólk sem glímir við gamla eða óuppgerða sorg og hóp fyrir fráskilda foreldra sem eiga barn í sorg.

Því miður hefur COVID-19 sett starfsemi okkar talsvert úr skorðum. Við upplifum mikinn vanmátt við að geta ekki tekið á móti syrgjendum og finnst erfitt að sjá eftirspurnina aukast og hafa ekki tök á að bregðast strax við,“ útskýrir Ína. „Við getum til dæmis ekki sett syrgjendur í hópastarf á fjarfundum því samvera er eitt af lykilatriðunum í þeim jafningjastuðningi sem við veitum. Að hittast, mynda traust og deila reynslu skiptir svo miklu máli. COVID er að hafa mikil áhrif á þá sem missa ástvini. Það eykur álag og vanlíðan ofan á þá miklu sorg sem fyrir er. Einmanaleikinn getur orðið svo skerandi sár.“

Ekki gera of miklar kröfur

„Nú styttist í jól og áramót, sem er erfiður tími fyrir marga. Það má ekki gleyma því að þessi hátíð gleði og friðar hjá flestum reynist syrgjendum oft erfið og í ár er svo COVID-ástandið aukið álag,“ segir Ína. „Við hjá Sorgarmiðstöð reynum að miðla ákveðnum boðskap til syrgjenda á þessum tímum og hvetjum fólk til að hlúa sérstaklega vel að sér og gera ekki of miklar kröfur, hvorki til sín né sinna nánustu.

Á aðventunni og við jólaundirbúninginn er gott að fá aðstoð við kaup á gjöfum, við skreytingar og annan undirbúning. Það léttir verulega á álaginu,“ útskýrir Ína. „Það er engin ein rétt leið til að fara í gegnum hátíðarnar. Sumir vilja halda í hefðir og aðrir vilja breyta til. Mikilvægast er að gera einungis það sem hver og einn treystir sér til og muna að það er líka í lagi að gera ekki neitt.“

Leyfið tilfinningarnar

„Þegar sorg er í hjarta er eðlilegt að vera sorgmæddur, líka á jólunum. Það má sýna tilfinningar og ef til vill hjálpar það öðrum í fjölskyldunni sem einnig glíma við sorg,“ segir Ína. „Það er mikilvægt að leita til þeirra sem eru tilbúnir til að hlusta. Góður vinur er sá sem hlustar, en sparar ráðin.

Sumir ná að draga fram skondnar og skemmtilegar minningar þrátt fyrir mikla sorg og þá er mikilvægt að leyfa sér að hlæja og gleðjast. Sorgin á nefnilega svo margar hliðar,“ segir Ína. „Við verðum að leyfa því að koma sem kemur. Það er allt hluti af ferlinu og þeirri vegferð sem sorgin er.

Sorgarmiðstöð gaf út bækling fyrir jólin í fyrra sem er fyrir þau sem hafa misst ástvin en ekki síður fyrir þau sem umgangast syrgjendur og vilja veita þeim stuðning yfir hátíðarnar. Það er svo mikilvægt að sýna frumkvæði og aðstoða þau sem eru í sorg,“ útskýrir Ína. „Margir eru óöruggir í þeim efnum og vita ekki hvað er best að gera, en í bæklingi Sorgarmiðstöðvar eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað.“

Góð ráð til að hjálpa syrgjendum

- Ef þig langar að aðstoða er heppilegra að bjóðast til að gera eitthvað ákveðið en að segja „láttu mig vita ef ég get gert eitthvað“. Þú gætir boðist til að aðstoða við innkaup, bakstur, þrif, innpökkun á gjöfum, að hengja upp jólaseríur eða sjá um matseld. Önnur hugmynd gæti verið að passa börnin eða bjóða þeim á viðburð á aðventunni. Þá fær syrgjandinn hvíld eða tækifæri til að sinna undirbúningi eins og hann treystir sér til.

- Það er dagamunur á fólki í sorg, hún er svo óútreiknanleg og erfitt er að skipuleggja fram í tímann. Syrgjandi gæti afboðað sig á síðustu stundu í jólaboð eða dottið í hug að mæta í boð sem hann var áður búinn að afþakka. Sýndu þessu skilning. Láttu vin í sorg vita að þú styðjir hann þrátt fyrir að plön breytist.

- Hafðu það í huga að persónuleg kveðja, jafnvel handskrifuð, þar sem þú rifjar upp gamla minningu gæti glatt syrgjandann meira en hefðbundið jólakort eða jólakveðja. Ef þú lumar á mynd, myndum eða myndbroti væri það líka góð gjöf. Skoðaðu að afhenda kveðjuna í eigin persónu og fylgja henni eftir með faðmlagi. Ef þú hefur ekki tök á því að gera eitthvað af ofantöldu þá gætir þú hringt eða sent falleg skilaboð á samfélagsmiðlum.

- Sumir halda að þegar nokkrir mánuðir eru liðnir frá andláti ástvinar séu syrgjendur að „komast yfir missinn“ og að önnur og þriðju jólin hljóti að vera auðveldari. Staðreyndin er að söknuðurinn eftir ástvini verður fylginautur syrgjandans ævina á enda. Hafðu þetta í huga og sýndu áfram hlýju og stuðning fyrir komandi jólahátíðir.


Það er hægt að skoða bæklinginn í heild sinni á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar.