Á Cyber Monday er hægt að fá nánast hvað sem er með afslætti og fyrir vikið er auðvelt að falla í freistni og fara fram úr sér. Þess vegna er mikilvægt að skipuleggja verslunina fyrir fram, eyða ekki meira en maður hefur efni á og vera á varðbergi gagnvart svindli.

Það er mikilvægt að muna að versla skynsamlega, þrátt fyrir öll freistandi tilboðin í kringum Cyber Monday. Það er auðvelt að kaupa óþarfa og sóa peningum og það er líka mikilvægt að hafa í huga hvaða áhrif kauphegðun manns hefur á umhverfið. Fjármálaráðgjafarfyrirtækið The Motley Fool tók saman nokkur góð ráð fyrir neytendur í tilefni dagsins.

Skipulag er lykilatriði

Það er gott að skipuleggja kaupin vel og gera lista yfir alla hlutina sem á að kaupa fyrir fram. Það er líka grundvallaratriði að ákveða fyrir fram hve miklu á að eyða og halda sig við þá upphæð. Þetta eru tvö bestu ráðin til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn fari úr hófi fram.

Svo borgar sig líka að fylgjast vel með og grípa gæsina strax í dag eða á morgun, því margar verslanir byrja að bjóða upp á Cyber Monday tilboðin sín yfir helgina í stað þess að bíða þangað til á mánudag. Það borgar sig ekki að bíða, því þá gætu mest spennandi vörurnar sem eru á tilboði klárast.

Það er líka alltaf gott að hafa umhverfisáhrifin af neyslu sinni í huga, sérstaklega þegar það er verið að eyða meiru en venjulega. Munið hvað þið eigið nú þegar og forðist að safna hlutum sem er ekki þörf á og að kaupa hluti sem koma langt að sem er hægt að fá í nágrenninu, til að takmarka kolefnisfótspor neyslunnar.

Það er hægt að fá næstum allt með afslætti á Cyber Monday svo það er best að kaupa bara hluti sem mann vantar í raun og veru.
Fréttablaðið/Getty

Hugsið ykkur tvisvar um

Það er ekki gott að missa sig í spenningnum yfir öllum góðu tilboðunum og mikilvægt að muna að það er hægt að fá næstum allt með afslætti á Cyber Monday. Það ætti því ekki að falla fyrir tilboðum á hlutum sem er ekki þörf fyrir. Þarna kemur innkaupalistinn góði að gagni.

Það borgar sig líka að huga að gildum fyrirtækjanna sem maður verslar við og velta fyrir sér hvort þau samræmist manns eigin gildum. Áður en þú pantar vörur skaltu því spyrja þig tveggja spurninga: „Myndi ég kaupa þetta ef þetta væri ekki á útsölu?“ og „Myndi ég styðja þetta fyrirtæki með veskinu mínu ef það væri ekki að bjóða svona gott tilboð?“

Mikilvægt að hafa varann á

Það er alltaf mjög mikilvægt að passa sig á svindli þegar verslað er á netinu, og í kringum kaupsvallið sem fylgir Black Friday og Cyber Monday verður rosaleg aukning á alls kyns svindli, ekki síst í ár, þannig að það þarf að fara mjög varlega. Passið ykkur á fölsuðum vefsíðum sem eru látnar líta út eins og traustir aðilar og passið ykkur á ótryggum vefverslunum. Aldrei slá inn kreditkortaupplýsingar á síðum sem bjóða ekki upp á öruggan greiðslumáta og varið ykkur sérstaklega á gylliboðum sem hljóma aðeins of vel.

Það borgar sig heldur ekki að versla með debetkorti á netinu, því það er meiri vernd gegn óleyfilegum úttektum á kreditkortum ef eitthvað fer úrskeiðis. En þegar kreditkortið er notað og það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að greiða strax, verður líka auðveldara að eyða óvart um efni fram. Þess vegna er mjög gott að vera búinn að ákveða fyrir fram hvað á að eyða miklu.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að muna að halda áfram að passa sig á svindli eftir að kaupveislunni er lokið. Svindlarar gætu haft samband við fólk eftir Cyber Monday og þóst vera að hafa samband frá bönkum, greiðslukortafyrirtækjum eða verslunum til að fá nánari upplýsingar um nýleg viðskipti.

Ef það er einhver grunur um að mögulega séu óprúttnir aðilar að hafa samband, er best að eiga engin samskipti við viðkomandi og hafa frekar beint samband við þann aðila sem þeir segjast vera fulltrúar fyrir. Þannig er hægt að ganga úr skugga um að það sé ekkert misjafnt á seyði. Ef það kemur í ljós að svindlarar hafi haft samband er gott að láta þann aðila sem þeir eru að þykjast vera, vita af því.