„Maður getur orðið þurr á manninn af ýmsum ástæðum, eins og þegar fólk er með leiðindi eða lítur stórt á sig. Svo getur maður mögulega orðið þurr á manninn ef maður er lengi með þurra húð, því það getur verið ferlega óþægilegt,“ segir Lára og bætir við að húðin sé alsett taugaendum sem skynja minnsta veikleika og senda skilaboð til heilans líkt og langlínusímtal frá geðillri tengdamömmu.

„Taugakerfið skynjar pirringinn og bregst við með því að segja húðinni að framleiða hraðar hornfrumur, sem taka ekki út fullan þroska. Með því getur vítahringur skapast því ysta húðlagið verður veikbyggðara, sem veldur því að húðin tapar enn meiri raka,“ segir hún.

Ofþornun eða skert starfsemi

„Tvær meginástæður geta legið að baki húðþurrki. Húðin getur orðið fyrir ofþornun, til dæmis eftir að við svitnum mikið, drekkum of lítið vatn og jafnvel samhliða því að þamba þvaglosandi drykki (til dæmis kaffi, koffíndrykki, grænt te, gos eða áfengi). Slíkur þurrkur er venjulega tímabundinn. Síðan getur þurrkur komið fram í húð sem hefur skerta starfsemi, eins og með hækkandi aldri þegar fitukirtlum fækkar og rakaefni tapast.“

Tvenns konar rakaefni

„Húðin hefur tvenns konar rakaefni sem auka mýkt húðarinnar og gefa fyllingu. Fyrst eru svokölluð NFM-rakadræg efni í yfirhúð, en þau draga að sér raka. Nýmyndun þeirra getur minnkað við ýmsar aðstæður eins og að liggja lengi í baði eða baða sig í sól eða ljósabekkjum. Erfðir geta átt í hlut og þekkt er að genabreytileiki getur valdið skorti á rakaefni þessu, sem eykur líkur á þurrki, exemi, nikkel-viðkvæmni og óþoli gagnvart efnum í húðvörum.

Að hafa þennan genaveikleika veldur þó ekki alltaf húðþurrki því margir eru með hann án þess að þjást af húðþurrki. Síðan erum við með hýalúrónsýru-rakaefni í leðurhúðinni en þau geta bundist vatni sem nemur þúsundfaldri þyngd sinni.“

Tíu leiðir til að bæta húðina

„Allir geta upplifað þurrk í húð sem verður gróf, mött og minna eftirgefanleg. Til að halda húðinni heilbrigðri skiptir máli að huga að næringu og venjum sem bæta rakaástand húðarinnar, því húðþurrkur getur ýtt undir bólgu og öldrun,“ segir Lára og gefur hér góð ráð.

1.Verndaðu húðina gegn kulda með því að klæðast hlýjum fatnaði og bera feitt krem á óvarða húð utandyra. Heitir drykkir upp að 60°C geta hjálpað að ná upp líkamshita.

2. Hugaðu að sólarvörn og láttu ekki blekkjast af sólarleysi því UVA-geislar lenda á húðinni allt árið um kring og valda ótímabærri öldrun sem er aðalorsök þurrks.

3. Þú þarft amínósýrur til að framleiða rakaefni og því hjálpar að borða fjölbreytt próteinríkt fæði, sérstaklega beinasoð og skinn. Kollagen-fæðubótarefni hafa reynst bæta raka samkvæmt rannsóknum.

4. Þar sem hýalúrónsýru er aðallega að finna í bandvef dýra færðu hana til dæmis með því að borða beinasoð. Sem fæðubótarefni (120 mg) getur hýalúrónsýra mögulega bætt rakaástand.

5. Þú þarft líka C-vítamín, sink og magnesíum til að framleiða hýalúrónsýru. Sítrusávextir, grænt grænmeti, möndlur, kasjúhnetur, baunir og kjúklingur innihalda þessi næringarefni. Eins eru vísbendingar um að góðgerlar með L. brevi og L. plantarium auki raka í húð eftir tólf vikna inntöku. Aftur á móti eykur sætindaát líkur á þurrki í húð.

6. Húðin þarf einnig góð fituefni (til dæmis ómega-3 fitusýrur, kólesteról, seramíð) og E-vítamín til að innsigla rakann. Feitur fiskur (til dæmis lax og lúða), sardínur, hampfræ, hörfræ, ólífuolía og avókadó gefur þér góðan skammt.

7. Drekktu vel af vatni svo rakaefnin hafi eitthvað til að halda í. Stutt og volg sturta fer betur með húðina þó að það sé freistandi að fara í langt heitt bað. Heita vatnið getur fjarlægt náttúrulega húðfeiti og valdið enn meira rakatapi. Ágætt er að miða við fimm til tíu mínútur í senn og bera rakakrem strax á eftir að þú þerrir þig til að innsigla rakann í húðinni. Gættu þess líka að ofnota ekki sápu sem fækkar rakaefnum.

8. Góð rakakrem gera sitt gagn og mörg hver innihalda NMF-rakaefni (til dæmis urea, lactate, amínósýrur) eða hýalúrónsýru. Hýalúrónsýra getur þó haft þveröfug áhrif ef hún liggur utan á húðinni (þegar sameindir eru stórar) því þá dregur hún til sín vatn úr húðinni.

9. Rakatæki geta hjálpað ef andrúmsloftið er þurrt og þá er það stillt á um 60%. Þetta á sérstaklega við þegar kalt er úti og við skrúfum upp ofna.

10. Ef þú gerir mataræðisbreytingar getur tekið tvo til þrjá mánuði að sjá árangur. Ef engin ráð duga skaltu ráðfæra þig við í lækni. Sjúkdómar eins og vanvirkur skjaldkirtill, sykursýki og ýmsir húðsjúkdómar geta valdið húðþurrki.

Nokkrar algengar ástæður húðþurrks

 • Útfjólublá geislun
 • Öldrun
 • Ofhreinsun
 • Löng heit böð
 • Sterk þvottaefni og mýkingarefni
 • Næringarskortur
 • Sum lyf
 • Þurrt og kalt andrúmsloft
 • Reykingar
 • Retínóíð húðkrem
 • Vanstarfsemi í skjaldkirtli
 • Estrógenskortur
 • Erfðir

BEINASOÐ

GRUNNUR

1 heill hvítlaukur

1 búnt (5-6 stk) vorlaukur

2 gulrætur

2 sellerístönglar

3-4 timianstönglar

3 sítrónugrasstönglar

10 kaffírlímónulauf

1 tsk svört piparkorn

2 msk eplaedik

1 strimill kombu-þari

4 lítrar vatn

1 kg bein eða 3 msk hvítt miso

Hægt er að nota hvaða bein sem er í þessa uppskrift og til að gera hana vegan má nota miso sem er gerjað baunaþykkni.

Við miðum við að nota soðin bein, en það er hægt að nota þau ósoðin. Skerið hvítlaukinn í tvennt um miðju, takið vorlaukinn, skerið rótina af og hvern stilk í 5-6 bita, skerið gulræturnar í fernt og sellerístönglana í tvennt. Setjið grænmetið og kryddið í pott. Hellið vatninu yfir, það þarf að fljóta yfir grænmetið. Bætið beinum eða miso útí, látið suðuna koma upp og látið sjóða við vægan hita. Fleytið froðu og fitu af annað slagið. Slökkvið undir pottinum og látið kólna niður í stofuhita. Setjið viskustykki oná sigti, hellið soðinu í gegnum klæðið/sigtið og setjið i krukku. Þegar soðið kólnar getur það fengið hlaupkennda áferð, en það breytist um leið og soðið er hitað upp. Geymist í 5-7 daga í ísskáp, má frysta.

Suðutími:

Grænmeti og miso = 1 klst

Grænmeti og kjúklingur = 6-8 klst

Grænmeti og fiskur = 6-8 klst

Grænmeti og lamb/naut = 8-12klst

Beinasoð inniheldur mikið af kollagen-peptíðum (þ.e. amínósýrunum) sem húðin nýtir til að framleiða kollagen. Það er auk þess ríkt af kalsíum, magnesíum, fosfórus, glúkósamíni og kondrótíni fyrir liðina og inniheldur fleiri góð efni sem nýtast bæði beinum og húð. Reynið að velja bein af dýrum sem eru alin upp við vistvænar aðstæður og lausagöngu ef hægt er því slík afurð inniheldur síður skaðleg efni, en skaðleg efni, sem safnast upp í beinum dýra, losna út í beinasoðið við suðu.