Ég er hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á Bráðageðdeild Landspítalans. Eftir að ég lauk námi í hjúkrunarfræði bætti ég svo við mig viðbótardiplómanámi í kynfræði,“ svarar Guðfinna, þegar hún er beðin um að segja frá sér í stuttu máli.

Áherslur á heildræna nálgun

„Ég hef alltaf haft áhuga á manneskjunni sem heild, bæði andlegu og líkamlegu hliðinni. Ég trúi því líka að hver manneskja sé sérstök, enginn er eins, og því er svo mikilvægt að við horfum á manneskjuna heildrænt, sérstaklega ef við viljum hjálpa einstaklingnum að ná betri líðan.“

Aukin vitundarvakning um mikilvægi svefns hefur átt sér stað hjá almenningi undanfarin ár, en samkvæmt Guðfinnu hefur umræðan löngum verið fyrirferðarmikil meðal heilbrigðisstarfsfólks. Því hafi hún ekki beinlínis fundið fyrir mikill aukningu hvað það snertir.

„Áherslur á mikilvægi svefns hafa verið lengi innan heilbrigðisgeirans, og ég hef ekki endilega fundið fyrir auknum áherslum þar, en að mínu mati er alltaf að aukast meiri þverfagleg og heildrænni sýn þar sem ný nálgun er skoðuð. Það er alltaf jákvætt.“

Hún segir sterka tengingu vera á milli svefns og geðheilsu. „Svefngæði hafa gífurleg áhrif á geðheilsu fólks og getur svefninn oft á tíðum stjórnað líðan einstaklingsins. Mikilvægt er að fá 7-8 klukkustunda svefn svo líkaminn geti slakað á, endurnærst og unnið úr tilfinningum okkar.“

Mikilvægt að halda rútínu

Svefnleysi til lengri tíma geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. „Ef líkaminn fær langvarandi ekki nægan svefn upplifir fólk mikla vanlíðan og pirring. Svefnleysið getur orsakað mikla depurð og verið valdur að kvíða og þunglyndi hjá einstaklingum. Einnig hefur svefn mikil áhrif á til dæmis geðhvörf, þar sem það er gífurlega mikilvægt að halda rútínu með góðum nætursvefni.“

Því sé svefninn yfirleitt það fyrsta sem tekið er á innan geðheilbrigðiskerfisins. „Oft er eitt helsta og fyrsta markmiðið á geðdeild að ná góðum svefni. Aftur á móti getur einnig of mikill svefn haft neikvæð áhrif á líðan einstaklings, þegar einstaklingur sefur mjög mikið eða leggur sig mikið á daginn getur vanlíðan aukist og nætursvefn raskast. Mikilvægast er því að halda jafnvægi og halda svefnrútínu, hvorki með of litlum né of miklum svefni.“

Guðfinna Betty segir kynlíf stuðla að slökun og því geti hafi það jákvæð áhrif á svefn.

Tengsl milli svefns og kynlífs

Guðfinna segir svefn ekki síður hafa áhrif á kynlíf. „Tengslin á milli kynlífs og svefns eru sterk. Heilbrigt kynlíf getur bætt gæði svefns og gæði svefns getur haft áhrif á kynlíf. Ef svefnleysi er til staðar getur það valdið vanlíðan og það getur síðan haft áhrif á parsamband einstaklingsins og síðan með neikvæðum afleiðingum á kynlífið. En með því að bæta svefninn eykst vellíðan og í kjölfarið bætir það kynlífið.“

Kynlíf sé raunar afar öflugt vopn í baráttunni fyrir betri svefni. „Gott kynlíf getur vissulega hjálpað fólki að sofa. Við kynlíf, hvort sem það er sjálfsfróun eða kynlíf með öðrum, losar líkaminn hormón sem veita vellíðan og hjálpa fólki að slaka á. Því getur kynlíf fyrir svefn hjálpað verulega við að sofna og sofa betur um nóttina. Mikilvægt er samt að muna að kynlíf þarf ekki að vera stundað fyrir svefn, það er einnig jákvætt að stunda það á öðrum tímum dagsins, allt eftir því hvað hentar einstaklingnum eða parsambandinu á þeim tíma í lífinu. Það veitir einnig vellíðan og þá aukast svefngæðin.“

Þá telur Guðfinna að umræðan um svefn muni fara enn meira vaxandi á komandi árum. „Umræðan er alltaf að aukast og fólk er orðið meira vakandi fyrir líkamanum sínum og umhverfinu. Fólk er einnig að setja meiri áherslu á heilsu sína, andlega og líkamlega, sem er frábært og þar spilar svefninn svo sannarlega stórt hlutverk.“

Gott að hafa í huga

Guðfinna nefnir að lokum nokkur atriði sem eru gagnleg í baráttunni fyrir betri svefn.

  • Reyna að halda svefnrútínu, fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma.
  • Hvorki að hafa sjónvarp né síma í svefnherberginu, það verður ekki mikil nánd í sambandi á meðan annar aðilinn er að skoða símann sinn fyrir svefninn.
  • Leggja símann frá sér, tala um daginn, knúsast og kyssast. Ef löngun er til staðar, þá stunda kynlíf, með sjálfum sér eða öðrum.
  • Reyna að hafa rúmið þægilegt og helst einungis fyrir svefn og kynlíf.
  • Huga að góðri andlegri og líkamlegri líðan, með reglulegri hreyfingu, hollu mataræði og nægum svefni.
  • Reyna að forðast orkudrykki, kaffi eða aðra drykki með koffíni í eftir kvöldmat.
  • Reyna að borða ekki stóra máltíð rétt fyrir svefn.
  • Reyna að finna aðrar leiðir en að nota svefntöflur.
  • Forðast að leggja sig á daginn.
  • Ef depurð og vanlíðan er til staðar þá athuga með að fá aðstoð hjá fagaðilum.