„Bóndadagur er fyrsti dagur þorra, sem er gamalt mánaðarheiti frá því að við vorum með öðruvísi tímatal. Hann er alltaf haldinn hátíðlegur á föstudegi í 13. viku vetrar og er í dag sérstakur fagnaðardagur bænda,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur. „Það eru gamlar heimildir um að það hafi verið fögnuður eða hátíðarhöld á fyrsta degi þorra í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 19. öld og ég held að þar komi bóndadagsheitið fyrst fyrir í heimildum, en nafnið gæti verið mun eldra.

Það veit enginn hvernig bóndadagshefðir hófust, en kannski hefur fólki einfaldlega vantað ástæðu til að lyfta sér upp í skammdeginu. Ég held að það sé líka ástæðan fyrir því að við höldum enn upp á hann, til að brjóta upp janúar,“ segir Dagrún. „Það er líka algengt og eðlilegt að það séu hátíðarhöld á tímamótum eins og við upphaf gamla þorramánaðarins, rétt eins og við höldum enn upp á áramótin.“

Buðu þorrann velkominn

„Þorramánuður var persónugerður í gömlum sögum og var eins og nokkurs konar vetrarvættur sem hét Þorri. Það var hefð áður fyrr að húsfreyjur færu út kvöldið fyrir þorrann og byðu hann velkominn, með ósk um að hann yrði ekki mjög harður. Svo breyttist þetta í seinni tíð, og hefur reyndar líklega líka verið misjafnt eftir landsvæðum, og þá færðist þessi hefð, að bjóða þorra velkominn, yfir á húsbóndann,“ segir Dagrún.

„Þá verður til þessi skemmtilegi siður sem er sagt frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að bóndi á að vakna fyrstur, fara í aðra skálmina og hoppa á öðrum fæti kringum bæinn til að bjóða þorrann velkominn. Svona eins og maður gerir oft í janúar, þegar veðrið er gott,“ segir Dagrún í gríni. „Þetta er mjög skemmtileg saga, en það eru líka sögur um að fólk hafi gert betur við sig í mat og drykk á þessum degi og bóndinn hafi jafnvel fengið stærri skammt en aðrir heimilismenn á þessum degi. Svo var líka oft fagnað með bakstri, eins og bóndadagslummum og pönnukökum.“

Árni Björnsson, höfundur bókarinnar Sögu daganna, hefur dregið í efa að fólk hafi í raun stundað það að hoppa á öðrum fæti kringum bæinn eins og sögurnar segja til um. En Dagrún er ekki sannfærð um að þetta sé svo fráleitt. Í dag nota líka margir íþróttamenn mikinn hita og kulda til að vinna á verkjum og bólgum, svo öfgakenndar hitabreytingar í líkamanum virðast geta gert honum gott.

„Árni er náttúrulega algjör snillingur og þetta gæti vel verið rétt hjá honum. En það er samt hugsanlegt að fólk hafi gert þetta og það væri áhugavert að vita hvort einhver hefur leikið þetta eftir. Það er spurning hvort sagan eða siðurinn hafi komið á undan,“ útskýrir Dagrún. „Árni tengdi þetta líka við baðsiði eins og sánur. Árni segir að þegar það var til nóg af eldiviði hafi fólk farið í sánu hér og í Finnlandi tíðkast að hlaupa út í snjóinn beint úr sánunni. Fólk gerir þetta líka þegar það stundar sjósund, það fer í kaldan sjóinn og svo í pottinn.“

Nýjar hefðir í seinni tíð

„Það eru til heimildir um hefðir sem snúa að því að bjóða þorrann velkominn frá því snemma á 18. öld, svo þetta virðist vera nokkuð gömul hefð. Það sama gildir um hefðir sem snúa að því að gera vel við sig,“ segir Dagrún. „Það að bóndinn fái aðeins meira að borða en hinir er hins vegar kannski aðeins nýrra og blóm og gjafir á bóndadaginn eru svo ennþá nýrri hefðir. Sú hefð að gefa blóm varð ekki til fyrr en í lok 20. aldar. Ég fletti þessu upp á timarit.is og sá að það er þá sem við förum að sjá sérstakar auglýsingar frá blómasölum fyrir bóndadags- og konudagsblóm.

Nú til dags tíðkast enn að borða góðan mat á bóndadaginn og ótal veitingastaðir eru með tilboð og bóndadagsmatseðla. Margir elda líka bara eitthvað gott heima og lyfta sér þannig upp. Svo eru líka sumir sem kaupa gjafir og blóm og ég held að þorrabjórinn sé mættur líka,“ segir Dagrún. „Ég held að mörgum finnist þetta skemmtileg hátíð og noti tækifærið til að brjóta upp hversdagsleikann. Það veitir ekki af á þessum árstíma, sérstaklega í þessu árferði.“

Þar sem þetta er fyrsti dagur þorra og sumir hafa þá hefð að borða þorramat í þeim mánuði velja margir bóndadag til þess,“ segir Dagrún. „Ég veit samt ekki hvort ég myndi kalla það að gera vel við sig í mat, hver og einn verður að dæma það fyrir sig.

Sjálf fer ég næstum alltaf út að borða á bóndadaginn, enda gríp ég öll tækifæri til að fagna sem eru í boði og krefst þess að fara út að borða á bóndadag, konudag og Valentínusardag. Þorramatur er ekki hefð hjá mér, en ég fer samt á þorrablót þegar slíkt er leyfilegt og hef mjög gaman af því. En ég fer ekki matarins vegna,“ segir Dagrún létt að lokum.