Ingibjörg Ósk er með rúmgóðan pall við húsið sem þau hjónin byggðu á síðasta ári. Áður voru þau með hellulagða verönd sem henni fannst vera kuldalegt. Á sólpallinum hafa hjónin komið sér vel fyrir með glæsilegum húsgögnum og þar er sannarlega nostrað við smáatriðin. Ingibjörg segir að það hafi ekkert verið flókið að hanna pallinn, hann sé einfaldur og þess vegna þurfti ekki að teikna hann upp. „Við vorum með okkar hugmyndir um hvernig við vildum hafa hann,“ segir hún.

Pallurinn er mikið notaður og segja má að hann sé bein framlenging af stofunni svo vel er hann búinn fallegum húsgögnum. Ingibjörg segir að það sé dásamlegt að vera á pallinum á sólskinsdögum og þá borða þau oft úti. „Mér finnst nauðsynlegt að hafa kósí húsgögn, blóm og skraut auk þess sem ég skreyti með ljóskerum, púðum og teppum. Það sem mér finnst best við pallinn er hversu skjólsælt er á honum og sólríkt. Svo er hann alveg mátulega stór,“ segir hún.

Pallurinn verður vart meira kósí en þetta. ■

Fallegur útiarinn sómir sér vel á pallinum. Takið eftir smáhlutunum sem Ingibjörg hefur raðað smekklega.
Séð yfir pallinn. Potturinn er yfirbyggður sem gerir það að verkum að veðrið skiptir ekki máli.
Fallegur bekkur með púðum.
Það hlýtur að vera einstaklega kósí að liggja í heitum potti þótt rigningin lemji á þakinu.
Alls staðar kemur fallegt handbragð og smekkvísi Ingibjargar í ljós.
Blóm í pottum gera mikið fyrir heildarútlitið.
Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir.