Grammy-verðlaunahátíðin fór fram í 64. sinn í Las Vegas á mánudag. Á þessari verðlaunahátíð er hefð fyrir því að stíga út fyrir hinn hefðbundna tískuramma og prófa eitthvað nýtt, en í ár voru gestir almennt frekar íhaldssamir í klæðaburði.

Flestir gestanna voru annað hvort í bleiku, svörtu eða pallíettum og óperuhanskar og sólgleraugu voru vinsæl á rauða dreglinum.

Það er ómögulegt að segja hvaða gestir voru glæsilegastir að þessu sinni, en hér eru nokkrir sem tískumiðlarnir eru sammála um að hafi borið af. ■

.Lady Gaga var með klassískt útlit. Hún klæddist hvítum og svörtum Armani Privé-kjól og var með glás af demöntum frá Tiffany & Co.
Dua Lipa mætti með ljóst hár og vakti lukku í þessum Versace-kjól sem er í sama stíl og kjóll sem sami hönnuður gerði árið 1992.
Jared Leto slær yfirleitt í gegn á rauða dreglinum og var að vanda flottur í Gucci og þykkri kápu.
Megan Thee Stallion var í Roberto Cavalli-kjól og með gullskartgripi. Förðun hennar vakti líka athygli.
Giveon kom í tweed-jakkafötum frá Chanel með víðum skálmum sem slógu í gegn.
Saweetie var í sérsaumuðum skærbleikum kjól frá Valentino og með glæsilega skartgripi frá vörumerkinu Messika.
Lenny Kravitz vann rokkstig í hnéháum stígvélum með háum hæl, leðurbuxum og silfurlituðum bol sem minnti helst á hringabrynju.
St. Vincent kom í stórum og miklum bleikum kjól með stórar ermar eftir Alessandro Michele, hönnunarstjóra Gucci.
Lil Nas X var glæsilegur eins og venjulega í þessum hvítu Balmain-fötum sem voru vandlega skreytt með perlum.