Glæpasagnadrottningin Yrsa Sigurðardóttir verður kynnir á glæpakvöldi í Bíói Paradís sem haldið er sunnudaginn 26. janúar í tengslum við Franska kvikmyndahátíð sem stendur frá 24. janúar til 2. febrúar. Klukkan 18.00 verður sýnd myndin L'assassin habite au 21 og klukkan 20.00 Les Diaboliques, báðar í leikstjórn Henri-Georges Clouzot.

„Ég ætla að tala almennt um glæpasögur í bókum og kvikmyndum,“ segir Yrsa. „Þetta verður enginn mammút fyrirlestur enda fólk komið til að sjá þessar frábæru, klassísku, frönsku myndir. Það er um að gera að grípa tækifærið, það er sjaldan boðið upp á kvikmyndir með ámóta efnistök. Þróunin hefur verið sú að glæpasögur hafa frekar orðið að vel heppnuðum sjónvarpsseríum en kvikmyndum. Það lukkaðist til dæmis ekki vel að gera kvikmynd úr Snjókarli Jo Nesbo. Glæpasögur byggja oft á flókinni frásögn og í kvikmynd er yfirleitt ekki hægt að koma öllu að, það er mun auðveldara í sjónvarpsþáttum. En Henri-Georges kunni þetta. Verst að honum var ekki til að dreifa þegar Snjókarlinn varð að mynd.“

Ljóst er að það er mikil auglýsing fyrir höfund þegar bók eftir hann er kvikmynduð en það þýðir ekki endilega að sala á viðkomandi bók aukist, eins og Yrsa nefnir dæmi um. „Eftir að hin frábæra bók Quicksand eftir Malin Persson varð að seríu á Netflix hrundi salan á bókinni. Ég held að svona neikvæð áhrif á sölu á bók eigi frekar við um glæpasögur en fagurbókmenntir. Ef fólk sér mynd gerða eftir glæpasögu þá veit það um leið söguþráðinn og hvernig bókin endar og finnst það ekki þurfa að lesa hana. En almennt séð þá henta smásögur betur fyrir kvikmyndir að mínu mati.“

Leikin í að finna morðingjann

Aðspurð segist Yrsa yfirleitt eiga auðvelt með að uppgötva þann seka í glæpamyndum nokkru áður en ljóstrað er upp um hann. „Þegar maður horfir á bandarískar glæpamyndir veit maður að hver einasta mínúta kostar formúu og um leið skiptir allt sem gerist máli. Ef maður er glæpasagnaþenkjandi þá áttar maður sig yfirleitt fljótlega á fléttunni. Ég er fremur leikin í að finna morðingjann, sem eyðileggur dálítið fyrir mér ánægjuna. Svo hef ég verið að horfa á glæpamyndir frá Suður-Kóreu sem eru miklu lengri en þær bandarísku, jafnvel þrír tímar, og þá eru karakterarnir að fá sér snafs og núðlur sem enginn tilgangur er í og það ruglar mig í ríminu.“

Véra Clouzot og Simone Signoret í Les diaboliques.

Yrsa segist vera mikill kvikmyndaunnandi, en kvikmynd var gerð eftir sögu hennar Ég man þig. „Mér fannst hún heppnast vel, það var sönn ánægja að horfa á hana.“ Líklegt er að mynd verði síðan gerð eftir glæpasögu hennar Kulda.

Um kvikmyndasmekk sinn segir hún: „Ég hef fjölbreyttari smekk núna þegar ég er eldri og hef gaman af að sjá myndir frá öllum heimshornum.“ Hún segist vera Hitchcock-aðdáandi en Les Diaboliques, sem er mögnuð kvikmynd, hefur einmitt verið líkt við Hitchcock-kvikmynd.

Spurð um uppáhaldskvikmyndir segir Yrsa: „Mér fannst Seven alveg frábær og The Sixth Sense er snilld. Af myndum frá Suður-Kóreu finnst mér Oldboy alveg meiri háttar. Svo get ég ekki beðið eftir að sjá Parasite. Það er fáránlegt að eiga uppáhaldsleikara sem maður veit ekki hvað heitir en sá sem leikur föðurinn í fátæku fjölskyldunni er uppáhaldsleikarinn minn í kvikmyndasögunni.“

Tvær bækur í ár

Yrsa er spurð hvort hún geri mikið af því að koma fram á fundum eða viðburðum eins og þessum. „Ef ég er beðin um eitthvað reyni ég að taka vel í það,“ segir hún. „Þegar ég byrjaði að skrifa var mikið talað um að konur vildu ekki koma í viðtöl. Ég ákvað strax að ég skyldi ekki verða þannig kona. Ég kem ef ég tel mig hafa eitthvað fram að færa og hef fyrir vikið stundum komið mér í aðstæður sem ég hefði betur sleppt.“

Hún er mikið á ferðalögum erlendis við að kynna bækur sínar og er því ekki lengur í fullu starfi sem verkfræðingur heldur í hlutastarfi. Hún stefnir að því að skrifa tvær bækur í ár, barnabók og glæpasögu. „Ég er hálfnuð með barnabókina. Ég fékk hugmynd sem ég held að sé mjög skemmtileg, það er allavega gaman að skrifa bókina,“ segir hún.

Síðasta bók hennar, Þögn, var ein af metsölubókum síðasta árs. Söguhetjurnar þar voru Huldar og Freyja, sem hún segist nú hafa sagt skilið við. „Þögn var síðasta bókin um þau. Ég ákvað að hætta áður en ég fengi leiða á þeim. Næsta glæpasaga verður sjálfstæð saga. Líklega með hryllingsívafi.“