Oscar de la Renta sýndi hausttísku sína á tískuviku í New York á mánudag. Það var eitt allsherjar partí því kjólarnir voru glæsilegir, sannarlega glimmer og glys. Hönnuðir tískuhússins, Laura Kim og Fernandi Garcia, lögðu metnað í fagurlega skreytta kjóla. Þau voru líka hönnuðir fyrir Scarlett Johansson sem var tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna. Kjóllinn hennar var einmitt skreyttur glitrandi, silfruðum böndum.

Á sýningunni í New York sýndu Laura Kin og Fernando Garcia að glamúrinn mun halda velli. Að þessu sinni kom innblásturinn að sýningunni frá Suður-Ameríku eða öllu heldur heimaslóðum Oscars de la Renta í Dóminíska lýðveldinu. Þar fæddist sá virti hönnuður árið 1932 en hann lést í október 2014. Oscar var heimsþekktur um 1960 þegar hann byrjaði að hanna fyrir Jacqueline Kennedy. Hann var virtur í Hvíta húsinu og hannaði sömuleiðis fyrir Nancy Regan, Lauru Bush og Hilary Clinton. Tískuhús hans eru staðsett um allan heim, meðal annars í Harrods í London og á Madison Avenue í New York. Oscar de la Renta flutti frá Karíbahafinu til Spánar þar sem hann nam tískuhönnun en leiðin lá síðan til Parísar. Í upphafi starfaði hann fyrir þekkt tískuhús en stofnaði eigið fyrirtæki árið 1965. Stíll hans þótti hafa blöndu af spænskum og karabískum áhrifum.

Núverandi hönnuðir tískumerkisins, Kim og Garcia, hafa þótt horfa til hönnunar Oscars og virt það sem hann var að gera á sínum ferli. Tískusérfræðingar telja að Oscar de la Renta hefði verið ánægður með glæsikjólana sem sýndir voru á tískuvikunni í New York. Hér á myndunum má sjá nokkra þeirra.

Glitrandi buxnadragt. Þessi er vel partíhæf.
Glit og glimmer alla leið.
Blái liturinn virðist sterkur þegar líður á árið. Ekki sakar að í kjólnum sé svolítill glamúr.
Elegant árshátíðardress frá Oscar de la Renta.
Stuttu kjólarnir voru einnig skreyttir. Það þarf enga skartgripi við svona kjól.
Ísaumað glitrandi blómamynstur verður áberandi í hausttísku Oscar de la Renta. MYNDIR/GETTY