Strætó frumsýndi í dag heilmerktan glimmer-rafvagn sem mun taka þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga næstu helgi.

Strætó tekur nú þátt í göngunni í annað sinn en í fyrra var á þeirra vegum díselvagn og því taldi Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó að um mikla bót væri að ræða í ár að fá einn af fimm nýjum rafvögnum strætó í gönguna því þá er enginn útblástur auk þess sem hann er alveg nærri  hljóðlaus.

Gunnlaugur Bragi, formaður Hinsegin daga  segir að hátíðin sé háð stuðningi samtaka, fyrirtækja og einstaklinga og því sé hann þakklátur yfir samstarfi Reykjavík Pride við Strætó. „Eins og þjóðfélagið, þá eru almenningssamgöngur svo sannarlega fyrir alla og við gleðjumst yfir því að Strætó fagni fjölbreytileikanum með okkur“ segir Gunnlaugur Bragi.