Váboðar er smásagnasafn eftir Ófeig Sigurðsson en hann fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2014 fyrir skáldsögu sína Öræfi.

Ófeigur segir sögurnar hafa verið skrifaðar síðasta vetur. „Ég var kominn út í lausamölina með skáldsögu sem ég hef verið að vinna undanfarin ár og þessar sögur komu mér óvænt til bjargar. Ég hef aldrei skrifað smásögur áður og hef ekki hugmynd um hvað gerðist.

Ég hugsaði þessar sögur ekki fyrirfram sem heild, en ég geri það núna. Sögurnar halda hver annarri á lofti. Heildin myndaðist smám saman með alls konar óvæntum tengingum. Kannski er bókin jafnvel nær skáldsögunni en smásagnasafni, ég veit það ekki, ég hef aldrei talið mig ráða við smásagnaformið en sá fljótt að smásagan er býsna frjálsleg og opin og meiri leikur í henni en í skáldsögunni. Það hjálpar til að lítil virðing er borin fyrir smásögunni, hún er oft flokkuð sem aukaafurð og tilfallandi hjá rithöfundum. Sem er auðvitað vitleysa en samt mjög gott viðmið upp á að taka sig ekki of hátíðlega.

Þetta er samt allt að breytast, smásagan er búin að klifra upp á einhvern stall til þess að geta veifað til fjöldans. En það er satt, það getur verið mjög snúið að koma saman velheppnaðri smásögu, jafnvel þrekraun.“

Sterkasta aflið

Spurður um umfjöllunarefni smásagnanna segir Ófeigur: „Sögurnar fjalla um ýmislegt, persónurnar eru mikið að spá í framtíðina eða reyna að lesa í framtíðina, reyna sjá fyrir óorðna hluti svo bægja megi yfirvofandi hættu frá, koma í veg fyrir dauðsföll. Og sumum tekst það, þarna er draumspakt fólk sem kann að lesa í táknin sem birtast í draumi sem gefa okkur vísbendingu um yfirvofandi vá. Þetta eru því sögur sem fjalla um kvíða og skelfingu og umkomuleysi og okkar sterkasta afl, ástina.“

Blaðamaður spyr Ófeig hvernig hann myndi lýsa tóninum í sögunum. „Kannski er tónninn í bókinni dálítið glettinn, ég veit það ekki, hann er líka nokkuð harmrænn,“ svarar hann. „Tónninn er undir nokkrum áhrifum frá Brynjólfi frá Minna-Núpi, bókum hans eins og Dulrænum smásögum, þar er einhver góðlegur alvarleiki, hlýja og einfaldleiki gagnvart heiminum, svona 19. aldar æðruleysi bænda og sjómanna, eitthvað í þá áttina. Viðhorf sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar í dag.“

Las mikið af smásögum

Hann segir ekkert í sögunum hafa kallað á heimildavinnu. „Ég vann enga heimildavinnu eins og ég er vanur að gera í mínum skáldsögum, heldur las mikið af smásögum annarra til að veita mér innblástur. Sögurnar spruttu nokkurn veginn fullskapaðar fram, nema ég þurfti að lesa mér til um apa á Íslandi frá landnámi til okkar daga. Ein sagan varð til í draumi.“

Spurður hvort hann leggi mikið upp úr því að fága stíl sinn segir Ófeigur: „Ég er ekki viss um að ég geti skrifað fágaðan stíl. En það er skrítið, það er eins og efnið velji stílinn, eða að hver saga velji sinn stíl, með hvaða hætti hún er framreidd lesandanum eða hlustandanum. Ég er alltaf að reyna að leyfa hráleikanum að vera óáreittum og ofvinna ekki texta. En ég er afar veikur fyrir flúri og geðveiki í texta og get ekki að því gert.“