Það hafa eflaust margir horft á nýjustu þætti Netflix um bandaríska fjöldamorðingjan Jeffrey Dahmer en þeir eru eins og stendur vinsælustu þættirnir á streymisveitunni.

Safnarahúsið Cult Collectibles hefur eflaust ákveðið að reyna að nýta sér vinsældir þáttanna en það hefur nú auglýst gleraugun sem Dahmer gekk með til sölu á heimasíðu sinni. Kaupverð á gleraugunum eru 150 þúsund bandaríkjadollara eða um 22 milljónir íslenskra króna.

Gleraugu Dahmer sem vefsíðan hefur sett á sölu.
Mynd/CultCollectibles

Taylor James sem rekur heimasíðuna komst yfir gleraugun ásamt fjöldamörgum öðrum gripum úr eigu Dahmer eftir að hafa komist í kynni við húshjálp sem unnið hafði fyrir Lionel Dahmer, föður Jeffrey.

Hann nú að selja nokkra af þessum munum en verðmætasti gripurinn séu gleraugun enda hafi þau verið partur af einkennandi útliti fjöldamorðingjans. Hægt er að sjá úrvalið af gripunum á heimasíðu Taylor James hér.

Það er leikarinn Evan Peters sem fer með hlutverk Jeffrey Dahmer í þáttunum sem sýndir eru á Netflix.
Mynd/Getty

Dahmer myrti 17 drengi og unga menn á árunum 1978 til 1991 og voru mörg af fórnarlömbum hans samkynhneigðir, svartir menn. Þá var honum gefið að sök að hafa borðað sum af fórnarlömbum sínum og stundað kynlíf með líkum þeirra.

Þættir Netflix sem hafa notið gríðarlegra vinsælda hafa þó verið gagnrýndir vegna umfjöllunarefnis síns en ættingjar fórnarlamba Dahmer og samtök svarta í Bandaríkjunum hafa fordæmt sýningu þeirra.