Júlíana hefur stundað hlaup af miklum krafti undanfarin átta ár og tekið þátt í maraþoni í mismunandi löndum með góðum árangri. Í ár skráði hún sig til leiks í maraþon í München, ásamt vinkonum sínum Díönu Hörpu Ríkharðsdóttur og Helmu Gunnarsdóttur. Meiðsli þeirra þriggja settu hins vegar strik í reikninginn og um tíma var útlit fyrir að ekkert yrði af hlaupinu.

„Ég tognaði í hálsi í lok júlí og náði því ekki að æfa fyrir hlaupið. Díana glímdi við meiðsli í mjöðm og Helma varð að fara í liðþófaaðgerð svo hún óttaðist að geta ekki verið með. Við vorum auðvitað ekkert hressar með að vera búnar að skrá okkur í hlaupið, borga flug og gistingu en yrðum svo að sitja heima,“ segir Júlíana, sem er flugfreyja hjá WOW air.

Eftir nokkra umhugsun ákváðu þær stöllur að fara til München og ganga og skokka til skiptis. „Við ákváðum að minnsta kosti að stefna að því og hafa bara gaman af þessu, lifa og njóta. Engin okkar var með eitthvert markmið um að setja persónulegt met. Við vildum fara rólega saman og hlusta á líkamann,“ segir Júlíana.

Frænka hennar, Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur, ákvað að slást í hópinn. „Við vorum mjög ánægðar með að fá einkahjúkrunarfræðing með okkur, ef eitthvað kæmi upp á,“ segir Júlíana brosandi.

„Svo datt mér í hug að taka þetta skrefinu lengra og pantaði þýska búninga á okkur allar á netinu. Hann kallast dirndl og er mikið notaður í kringum Októberfest. Síðan vatt þetta upp á sig og við vorum með Haukatattú, svaka hárgreiðslu og íslenska fánann í hárinu. Markmiðið var að vera sem flottastar og skemmta okkur vel,“ bætir Júlíana við.

Hún segir að það hafi þó ekki komið í ljós fyrr en rétt fyrir brottför til München hvort þær Helma gætu yfirhöfuð hlaupið vegna meiðslanna eða yrðu að standa á hliðarlínunni. „Við tókum ákvörðun um að fara þetta bara allar fjórar saman, hægt og rólega og það ætlaði engin að fara á undan eða skilja einhverja eftir. Ef einhver okkar þyrfti að fara hægar og jafnvel ganga þá myndum við allar gera það.“

Þær voru síðastar af stað þegar hlaupið var ræst. „Við vorum ekkert að flýta okkur. Við vorum meira að segja á eftir fólkinu með barnavagnana en við komum þó ekki síðastar í mark. Á leiðinni fórum við lúshægt, stoppuðum á öllum vatnsstöðvum og ef einhver okkar fann fyrir verkjum fórum við enn hægar. Þetta var sannkallað gleðiskokk,“ segir hún.

Vinkonurnar vöktu að vonum mikla athygli og voru myndaðar í bak og fyrir. „Við höfum aldrei verið beðnar um jafnmargar selfie með öðru fólki og í þessu hlaupi. Við vorum þær einu sem vorum í búningi, fyrir utan tvo sem voru klæddir upp sem trúðar og hlupu berfættir. Mér finnst sennilegt að þeir hafi verið að safna fé fyrir gott málefni,“ segir Júlíana en heitt var í veðri þennan dag og hitinn fór upp í 30 gráður á hlaupabrautinni.

Júlíana vonast til að jafna sig hratt og vel af meiðslunum og vera komin í gott hlaupaform fyrir næsta sumar. Hún tók þátt í Þriggjalanda maraþonhlaupi fyrir tveimur árum og maraþoni í Amsterdam þar á undan. Hún hefur einnig þrisvar hlaupið Laugaveginn sem er 55 kílómetra vegalengd og kallast því últramaraþon. „Mér finnst rosalega gaman að hreyfa mig og stefni á að taka þátt í Fossavatnsgöngunni, sem er 50 kílómetra löng skíðaganga, á næsta ári. Mig langar líka í Jökulsárhlaupið, sem er uppáhaldshlaupið mitt, enda ótrúlega falleg leið. Núna er ég að skoða hvort ég geti tekið þátt í maraþoni næsta sumar. Það er alltaf gott að hafa markmið en fyrst við vinkonurnar vorum allar meiddar þetta árið var gaman hversu vel rættist úr þessu öllu. Svo í lokin á hlaupinu, sem var við Ólympíuleikvanginn, leiddumst við allar saman í mark,“ segir Júlíana.