Fyrrverandi Glee-stjörnur leysa nú frá skjóðunni um hegðun samleikkonu sinnar, Leu Michele, á setti við tökur á þáttunum Glee sem skaut fyrrnefndri leikkonu upp á stjörnuhimininn.

Samantha Marie Ware, sem lék Jane Hayward í síðustu seríunni af Glee, byrjaði á því að gagnrýna Leu eftir að hún birti tíst til stuðnings við baráttu svartra eftir dauða George Floyd.

„Ég man þegar þú sagðir öllum að þú ætlaðir að kúka í hárkolluna mína,“ skrifar Samantha og bætir við að hegðun Leu hafi sært hana gríðarlega mikið. Hún hafi verið með miklar efasemdir í kjölfarið um að hefja feril sinn í Hollywood.

Yvette Nicole Brown, sem lék með Leu Michele í þáttunum The Mayor, sagðist tengja við þessa sögu. Þá virðast margir taka undir með þeim og gefa í skyn að Lea Michele komi illa fram við svarta leikara.

Alex Newell sem lék Unique Adams í fjögur ár í þáttunum, deildi tístinu hennar Samönthu og svaraði með nokkrum „gif“ myndum til þess að hvetja hana áfram. Þegar aðdáandi spurði Newell hvers vegna hann hafi tekið mynd með Leu Michele fyrir nokkru á Broadway sagðist hann hafa gert það í kurteisi.

„Hún var bara á staðnum ég var bara kurteis. Þannig er ég við alla sem koma að sjá sýningarnar mínar,“ skrifar Newell.

Hann skrifar líka í svari við tíst sem nú er búið að eyða: „Það er enginn ástæða fyrir okkur að ljúga um þetta sex árum síðar.“

Amber Riley, sem lék Mercedez, eitt af stærstu hlutverkunum í Glee, birti einnig nokkur „gif“ af sér að drekka te á sama tíma og fólk var að ræða um Leu Michele.

Melissa Benoist sem kom fram í fjórðu seríu af Glee líkaði við tístið frá Samönthu og virtist þannig taka undir með henni.

Annar leikari að nafni Dabier Snell, sem var aukaleikari í þáttunum, tekur undir með henni og segir um Leu:

„Þú neyddir mig til þess að sitja á öðru borði því ég „passaði ekki inn í hópinn.“ Farðu til fjandans, Lea.“

Fleiri aukaleikarar hafa einnig deilt svipuðum sögum; einn sagði að Lea hafi kallað aukaleikara kakkalakka.