Árið 2020 stofnaði Stefán Einar þáverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, Kampavínsfjelagið & co. Það hafði í fyrstu aðeins það markmið að halda utan um smakk-klúbb ríflega 100 félaga sem enn í dag hittast annan hvern mánuð og kynnast kampavínum úr ólíkum áttum. Jafnt og þétt hafa verkefni félagsins þó orðið fleiri og í dag sinnir það innflutningi á kampavíni frá fimm þekktum framleiðendum auk þess sem þekktir vínframleiðendur frá öðrum héruðum Frakklands, Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu hafa nú bæst í hópinn. Stefán hefur skrifað mikið um vín og víngerð og miðlar þekkingu sinni til fólks í greinum, fyrirlestrum og starfsemi smakk-klúbbsins.

Bastilludagurinn haldinn hátíðlegur og franska fánanum flaggað

Stefán og Sara fagna Bastilludeginum í dag. „Við höfum það fyrir reglu. Dagurinn hefst reyndar alltaf á því að þegar ég hef ræst kaffikönnuna þá sæki ég franska fánann inn í geymslu og dreg hann að hún. Finnst það ómissandi og gjarnan tek ég mynd af fánanum og sendi á vini mína og samstarfsmenn í Frakklandi. Núna í morgun öfunduðu þeir okkur mjög af skýjafarinu enda um 40 stiga hiti í Reims, höfuðborg Champagne-héraðs,“ segir Stefán Einar.

„Svo er fastur liður að skála í kampavíni á þessum degi. Það gerum við oft í hópi góðra vina en stundum líka tvö þegar daginn ber upp á virkan dag eins og nú. Eftirminnilegasti Bastilludagurinn er þó án efa sá sem við vörðum í París árið 2013. Það er mikið um dýrðir í höfuðborginni þann dag og það var ógleymanlegt að fylgjast með hersýningunni á Champs-Elysées. Í lok hennar kom Francois Hollande, forseti akandi á hertrukk niður breiðstrætið eins og maður getur ímyndað sér af deGaulle hafi gert á sínum tíma, þótt Hollande sé reyndar höfðinu lægri en stríðshetjan.“

Matarpörun við kampavín og rauðvín úr öðrum héruðum Frakklands
Stefán og Sara hafa mikið dálæti af frönskum mat líkt og kampavíni. „Við eldum mikið franskan mat á okkar heimili og skýrist það ekki síst af áhuga okkar á skemmtilegum matarpörunum við kampavín og reyndar einnig rauðvín frá öðrum héruðum Frakklands. Það á við um Búrgúndí en einnig Bordeaux og nú síðast bættist í safn Kampavínsfjelagsins stórkostlegt vín frá Clos des Papes sem er einn þekktasti framleiðandinn í Chateneauf-du-Pape. Það eru vín sem krefjast annarrar leikni í matarpörun en kampavínin, ekki síst vegna þess að þau eru mjög kröftug og áfengisprósentan mjög há, gjarnan í kringum 14,5%. Það merkilega er þó að það kemur ekki niður á ljúffengi vínanna.“

Þegar Stefán er spurður um þeirra uppáhalds franska rétt stendur ekki á svari. „Uppáhaldið okkar er einn einfaldasti réttur sem hægt er að komast í. Andalæri, grillað í ofni, smákartöflur steiktar á pönnu upp úr andafitu og létt salat að hætti Frakka með sterkri vinaigrette dressingu. Að para þennan rétt við gott Blanc de Noirs kampavín, seint að kvöldi getur ekki klikkað.“

Fallegur fáni, gott vín og hollur matur

Er þetta góð leið til að gera sér dagamun? Sannarlega. Við erum í miklum tengslum við mörg frönsk fyrirtæki og við höfum eignast marga góða vini þar. Við vitum fátt skemmtilegra en að ferðast um Frakkland og kynnast fólkinu, menningunni, matar- og víngerðinni. Eigum reyndar margt ólært í þeim efnum. En það er gaman að samgleðjast Frökkum. Fallegur fáninn, gott vín og hæfilega hollur matur er uppskrift af því að gera það með stæl.“

„Okkur finnst líka gaman að kynna strákana okkar fyrir þessari menningu þótt enn séu allnokkur ár í að þeir fái að smakka vínið sem við flytjum inn. Þeir sýna þessu þó hæfilegan áhuga og um leið og þeir lærðu að halda á glasi þá lærðu þeir einnig að skála við fólk með viðeigandi hætti. Þeir eru gleðimenn og finnst fátt skemmtilegra en að sitja í matarboði og skála í tíma og ótíma við gestina,“ segir Stefán og er kominn á fullt fyrir undirbúning kvöldsins.