Ég og tökuliðið höfum safnað myndefni frá Gleðigöngunni flest árin frá því að gangan fór af stað. Oftast var ég að taka sjálf en stundum var ég með í atriði og réð tökumann til þess að taka upp. Við náðum um það bil tvö hundruð klukkustundum af efni frá göngunum og opnunarhátíðunum í gegnum tíðina,“ segir leikstjórinn Hrafnhildur Gunnarsdóttir um myndina Fjaðrafok, sem frumsýnd verður á sunnudagskvöld á RÚV. Heimildarmyndin fjallar um sögu Gleðigöngunnar á Íslandi, sem nú átti að vera haldin í tuttugasta skiptið en varð því miður að aflýsa vegna heimsfaraldursins.


Mikið af efni

Í seríu Hrafnhildar, Svona fólk, voru aðeins nýttar um sex mínútur af þessu mikla magni af efni sem hún átti frá göngunni. Hún hafi því fundið á sér að í því leyndist kvikmynd.

„Ég hafði samband við Skarphéðin Guðmundsson, dagskrárstjóra RÚV, Gunnlaug Braga Björnsson og Ragnhildi Sverrisdóttur, frá Hinsegin dögum, í nóvember á síðasta ári og sagði að það þyrfti að gera mynd sem yrði sýnd í tengslum við tuttugu ára afmæli göngunnar í ár,“ segir hún.

Svörin bárust seint en Hrafnhildur hafði þegar fengið klippara í verkið í janúar.

„Ég hafði ekki enn fengið svör í febrúar og gaf verkefnið frá mér þar sem ég var komin með tvö önnur á koppinn. Svo skall COVID á og þá varð ljóst að gangan sjálf væri jafnvel í hættu. Verkefnin mín frestuðust vegna COVID. Seint í apríl var fólk frá Hinsegin dögum komið á skörina hjá mér að gera þessa mynd. Samningur var handsalaður í lok maí og myndin Fjaðrafok var síðan unnin á methraða af þremur klippurum yfir sumartímann plús tökur,“ segir Hrafnhildur.

Betri að ári

Helsta samstarfsfólk Hrafnhildar við gerð myndarinnar voru þau Halla Kristín Einarsdóttir og Felix Bergsson.

„Við Halla höfum unnið mikið saman í gegnum tíðina og hún klippti meðal annars stóran hluta af Svona fólki, þannig að hún þekkti efnið jafn vel og ég. Felix Bergsson frá RÚV var líka vel inni í þessum málefnum og því frábært að fá hann til samstarfsins. Samfara þessu erum við líka að setja allar þær gleðigöngur sem við eigum myndir frá upp á vef okkar, svonafolk.‌is, þannig að þar er hægt að skoða flest árin,“ segir hún.

Persónulega er Hrafnhildur róleg yfir því að göngunni hafi verið frestað.

„Mér finnst COVID hafa haft jákvæð áhrif á samfélag okkar á þann veg að ástandið minnir okkur á hvað við tökum sem sjálfsögðum hlut en er það augljóslega ekki. Ég held að þessi pása, sem er vissulega leiðinleg fyrir skipuleggjendur göngunnar, muni gera það að verkum að gangan verði þeim mun betri á næsta ári. Þannig að þetta andrými sem skapast gefur okkur tækifæri til að hugleiða gildi þessarar göngu, hvar við erum stödd og hvert við viljum fara.“

Hrafnhildur segir að það hafi komið henni á óvart að í raun hefði hún náð að gera þriggja þátta seríu, bara um gönguna eina og sér.

„Það er gott að það gafst ekki tími til þess,“ segir hún og hlær. „Fjaðrafok er 68 mínútur og við höfum gert okkar besta en auðvitað er margt sem ekki var tími né tækifæri til þess að fjalla um,“ segir hún.

Margar minningar

En finnst Hrafnhildi Gleðigangan á Íslandi hafa einhverja sérstöðu samanborið við önnur lönd?
„Ég held að Gleðiganga hafi á tvo vegu algjöra sérstöðu í heiminum. Annars vegar er Gleðigangan mikil fjölskylduhátíð. Venjulegt fólk hefur alltaf verið velkomið í gegnum tíðina til þess að gera sér glaðan dag og styðja við málefnin sem í upphafi snéru að mannréttindabaráttu homma og lesbía og svo síðar tvíkynhneigðum, transfólki og öðrum þeim hópum sem hafa safnast undir þessa „hinsegin“ regnhlíf.“

Sjálf á hún margar skemmtilegar minningar frá hátíðunum í gegnum árin. Gangan árið 2004 stendur sérstaklega upp úr.

„Þá stóð ég fyrir vagni af lesbíum sem klæddu sig í peysuföt og upphlut og við sigldum niður Laugaveginn með prjóna og harmonikkur á lofti. Ég man sérstaklega eftir að horfa á eldri konur á gangstéttinni sem algjörlega misstu sig af hlátri þegar að þær sá okkur á pallinum. Það var skemmtilegt.“

Myndin Fjaðrafok er frumsýnd á RÚV klukkan 20.20.