Anton Helgi Jóns­son skáld segir les­endum Frétta­blaðsins frá listinni sem breytti lífi hans.

„Þegar ég var ung­lingur sá ég verk eftir Kristján Guð­munds­son sem breytti mér og mótaði af­stöðu mína til bók­mennta og lista. Þetta var upp úr 1970. Ég bjó á Skóla­vörðu­holtinu og þar var fátt í boði fyrir for­vitna ung­linga svo ég fór stundum í Gallerí Súm sem var stað­sett í bak­húsi við Vatns­stíginn. Það var gengið upp ó­hrjá­legar tröppur inn í for­stofu og þaðan upp þröngan stiga­gang en þá kom maður inn í sýningar­sal sem var með dúandi tré­gólfi og fjalirnar lakkaðar gráar. Inni í skoti eða hálf­gerðum hliðar­sal gekk ég eitt sinn fram á ögrandi lista­verk. Á gólfinu var þunnt lag af mold af­markað í ferning. Mold. Bara mold.

Ég var á­kaf­lega já­kvæður og mér fannst verkið á vissan hátt fal­legt en ég var tómur í hausnum og skildi ekkert. Það var hins vegar miði á veggnum með heiti verksins og út­skýring á því hvaða efni væru notuð í það. Þrí­hyrningur í ferningi, hét verkið og var 4x4 metrar að stærð. Efnið var annars vegar ferningur af mold og hins vegar þrí­hyrningur af vígðri mold sem var stað­settur í ferningnum en skar sig á engan hátt úr.

Um leið og ég hafði lesið mér til um verkið brast eitt­hvert haft í huga mér. Ég glataði sak­leysinu og alla tíð síðan hefur einkum leitað á mig ein estetísk spurning þegar ég þarf að taka af­stöðu til lista­verks: Leynist þrí­hyrningur af vígðri mold í þessu verki?“

Verkið Þrí­hyrningur í ferningi eftir Kristján Guðmundsson var sett upp í Listasafni Reykjavíkur á sýningunni Sjónarmið 2011.
Fréttablaðið/Haraldur Guðjónsson