Timberland-skórnir voru fyrst hannaðir til að vera vinnuskór fyrir byggingarverkamenn í Bandaríkjunum, en síðan hafa þeir fest sig í sessi sem vinsæll, harðger skóbúnaður og tískuvara. Nú hefur framleiðandinn farið í samstarf við malasíska tískuhönnuðinn Jimmy Choo og saman hafa þau skapað glamúrútgáfu af skónum.

Nýja útgáfan er skreytt glitrandi kristöllum frá austurríska skartgripaframleiðandanum Swarovski og glimmeri, þannig að þeir skína nú skærar en nokkru sinni. Þetta er harla óvenjuleg blanda af tveimur ólíkum stílum, en nýja útgáfan á engu að síður vafalaust eftir að njóta mikilla vinsælda hjá tískuvitum og skófíklum.

Ein útgáfan alsett kristöllum

Skórnir koma í fjórum litum, gulbrúnir með Swarovski-kristalkraga, gulbrúnir með gullglimmeri, svartir með glimmeri og svo er ein útgáfa sem er alveg þakin Swarovski-kristöllum, en hún er aðeins til í takmörkuðu upplagi.

Auglýsingaherferðin fyrir skóna var unnin með þekktum nöfnum. Hjólabrettakappinn og fyrirsætan Evan Mock og fegurðarfrumkvöðullinn Kristen Noel Crawley sitja fyrir á myndunum, sem voru teknar af leikaranum og ljósmyndaranum Cole Sprouse í þjóðgarði í Kaliforníu.

Gróðursetja tré fyrir hvert par

Skórnir verða í boði í sérvöldum Jimmy Choo-verslunum um allan heim og voru líka í boði í takmarkaðan tíma hjá Ounass, sem er lúxusvöruverslun á vefnum.

Timberland hefur lofað að gróðursetja 50 milljón tré á næstu fimm árum og sem hluta af því ætlar fyrirtækið að gróðursetja eitt tré fyrir hvert einasta par af þessum skóm sem verður framleitt.

Nýju skórnir eru afrakstur samstarfsverkefnis með malasíska tískuhönnuðinum Jimmy Choo.
Hjólabrettakappinn Evan Mock var meðal fyrirsætanna á myndunum í auglýsingaherferðinni.
Ljósmyndarinn Cole Sprouse notaði spegla til að draga fram smáatriði í skónum og leyfa fallegu umhverfinu að njóta sín betur.
Timberland ætlar að gróðursetja eitt tré fyrir hvert einasta par af skónum sem verður framleitt.