Lovísa Grétarsdóttir veitingastjóri segir að jólahlaðborðið hefjist 16. nóvember og verði í fimm helgar. „Við erum stolt af að kynna Helga Björns aftur til leiks en hann var líka hjá okkur í fyrra við miklar vinsældir. Auk hans koma fram Salka Sól og Anna Svava Knútsdóttir. Siggi Hlö heldur síðan uppi stuðinu að því loknu,“ segir hún.

„Við verðum með jólahlaðborðin í nýuppgerðum Súlnasal sem tekur 280 manns í sæti. Öll húsgögn voru tekin í gegn og upprunalegt útlit salarins látið halda sér að mestu. Lögð var áhersla á að skapa hlýlegt, notalegt en glæsilegt umhverfi,“ segir Ólafur Kristjánsson yfirmatreiðslumeistari og bætir við að fyrir þessi jól verði einnig boðið upp á sérstakt jólaréttaborð fyrir grænkera (vegan) sem er nýjung. „Jólahlaðborðið okkar verður íslenskt að hætti Hótels Sögu. Gestir geta gengið að því vísu að fá jólahlaðborð eins og þau voru fyrst með smá nútímalegum breytingum. Þetta eru íslenskir og danskir réttir sem gestir hafa kunnað vel að meta í gegnum árin,“ segir Ólafur. Jólahlaðborðið samanstendur af forréttum, aðalréttum og eftirréttum við allra hæfi.

Þau Ólafur og Lovísa segja að mikið sé gert út á skemmtiatriði til að gestir fái sem mest út úr kvöldinu. „Verið er að opna Mímisbar aftur eftir gagngerar endurbætur og fólk getur komið í fordrykk þangað á undan. Á nýjum veitingastað á fyrstu hæð, Mími, verða einnig í boði veitingar, og sér jólaseðill. Grillið verður svo að venju með glæsilegan jólaseðil,“ segir Ólafur.

Lovísa bendir á að Súlnasalur sé opinn fyrir alla. „Við fáum einstaklinga, pör, saumaklúbba, vinahópa og fyrirtæki til okkar og við bjóðum upp á sérsali fyrir þá sem það vilja,“ segir hún. „Við viljum minna fólk á að panta sem fyrst enda fengum við fyrstu bókanir í sumar,“ segja þau Lovísa og Ólafur og lofa skemmtilegri kvöldstund með ljúffengum mat og söng fyrir jólin.