Pakkhúsið minnir óneitanlega á verslunarhús frá 19. öld og er minnisvarði um liðna tíð og sögu okkar og verslunar. Húsið hýsir meðal annars handverkssölu, vinnustofu og smíðaverkstæði handverksmannsins Vignis Kristinssonar sem er betur þekktur sem Kristinsson. Vignir og eiginkona hans Ólafía Kristín Jensdóttir og fjölskylda reistu húsið og tóku það í notkun á síðasta ári. „Húsið er hannað og byggt af okkur hjónunum og það má með sanni segja að ég þekki nánast hverja einustu fjöl,“ segir Vignir. Húsið er merkt Kristinsson Handmade þar sem allir eru velkomnir að koma og kynna sér handverk Vignis. Vignir er fæddur og uppalinn í Reykjavík til 14 ára aldurs en flutti þá til Grindavíkur en Ólafía er fædd og uppalin í Grindavík.

„Ég hef frá unga aldri haft ástríðu fyrir smíðum og fallegu handverki og hef smíðað mér til ánægju og gefið heimilum sjarma af vönduðum innréttingum og húsgögnum úr gegnheilum viði af náttúrunnar hendi,“ segir Vignir.

Efri hæðina einkennir stílhreinn skandínavískur stíll þar sem rómantíkin svífur yfir

Hreindýrin mörkuðu tímamót

Segðu okkur aðeins frá handverki þínum Vignir og hvernig þetta byrjaði allt saman.

„Ég hef alltaf haft gaman af að smíða og fyrir tíu árum byrjaði ég á hreindýrunum og var svo heppinn að verslunin Mýrin tók þau í sölu. Í framhaldi bættust fleiri hönnunarverslanir við,“ segir Vignir og það má með sanni segja að hreindýrin hafi komið Vigni á flug í handverksheiminum.

Í pakkhúsinu er Vignir með handverkssölu sína, smíðaverkstæðið og á efri hæðinni er hann búinn að hanna og útbúa einstaklega fallega íbúð þar sem rómantíkin svífur yfir. Útsýnið út um gluggana á efri hæðinni, sem snúa til austurs, skartar meðal annars hinni margfrægu gosstöð í Geldingadölum.

Cappuccino-liturinn er í forgrunni, með fallegum dökkbæsuðum eikarlit sem mótvægi . Til að mynda er eyjan í eldhúsinu hönnuð og smíðuð af Vigni, með þessari fullkomnu blöndu af efnivið og litapallettu.

Staðsetningin heillaði strax

Segðu okkur hvernig það kom til að þið ákváðuð að fara í þessa framkvæmd og byggja þetta reisulega og fallega pakkhús.

„Þegar ég sá fram á að geta ekki haldið áfram að vera í beitningaskúrnum þar sem ég var búinn að koma mér fyrir blasti það við að ég þurfti að finna leiguhúsnæði fyrir smíðaverkstæðið mitt eða byggja nýtt.“

Svo fór að Vignir ákvað að byggja nýtt og gera húsið að sínu. Þegar kom að vali á staðsetningu var Vignir með það á hreinu hvar hann vildi vera. „Kosturinn við þessa staðsetningu er að hún er í hjarta bæjarins, það heillaði mig strax.“ Þið hönnuðuð og byggðuð húsið sjálf.

nninLjósið á baðherberginu er 40 ára gamalt og hefur tilfigalegt gildi fyrir Vigni. Margir hlutir eiga sína sögu.

Voruð þið strax komin með mynd af því í huganum hvernig þið vilduð hafa það?

„Byggingrafulltrúinn sagði mér að húsið þyrfti að vera tvílyft sem var alls ekki það sem ég hafði haft í huga og ég þurfti ekkert á því að halda. En á leiðinni frá byggingarfulltrúanum mundi ég allt í einu eftir fallegu pakkhúsunum á Hofsósi. Þannig varð myndin til af húsinu og fyrirmyndin heillaði okkur bæði.“

Hvað tók langan tíma frá því að þið byrjuðuð að reisa húsið og þangað til það var tilbúið til notkunar?

„Þann 15. júní 2018 var fyrsta skóflustungan tekin og við hófum verkið. Um mánaðamótin október, nóvember 2019 var neðri hæðin tilbúin og á dögunum vorum við að ljúka við efri hæðina og höfum hug á því að leigja hana út. Hún er í raun klár til útleigu og útsýnið að gosstöðvunum er stórfenglegt þó ég segi sjálfur frá,“ segir Vignir og brosir breitt.

Á smíðaverkstæðinu gerast töfrarnir, hér nýtur Vignir sín best þar sem hann vinnur að handverkum sínum af ástríðu og natni.

Skandinavískur blær með rómantísku ívafi

Flestir innanstokksmunir eru hannaðir og smíðaðir af Vigni sem og húsgögn.

Hvar fékkstu innblásturinn að öllum þessu fallegu húsgögnum og innanstokksmunum?

„Ég upplifði ekki að það hefði verið einhver innblástur heldur kom þetta bara eitt af öðru. Loftið var til að mynda mikil áskorun því það þurfti að vera gips í loftunum. Ég sá fyrir mér að það þýddi ekkert að setja heilar gifsplötur í loftið því það hlyti að springa allt með tíð og tíma. Ég fékk þá ljómandi góðu hugmynd að saga það niður og skarklæða.“ Þegar Vignir er beðinn um að lýsa stílnum innanhúss stendur ekki á svari. „Ég er ekki frá því að það sé skandinavískur blær yfir því. Svo er það líka rómantíkin sem svífur yfir.

Handverk Vignis prýðir gluggana í Pakkhúsinu og hver og einn hlutur er handsmíðaður og enginn eins.

Eyjan í eldhúsinu fangar augað

Eldhúsið er einstaklega fagurlega hannað og eyjan vekur eftirtekt, segið okkur aðeins frá útfærslunni, löguninni, efniviðnum og lit. „Ytra byrði eyjunnar er úr gegnheilum eikarplönkum sem mig langaði til að litu út eins og sjórekinn viður sem ég bæsaði svo dökkbrúnan.“ Vignir hannaði og smíðaði jafnframt borðstofuborðið sem er mikið prýði á efri hæðinni. „Það er úr gegnheilli eik, bæsaðri grábrúnni, þar sem mig langaði til að plankaútlitið fengi að njóta sín eins og hægt væri.“

Margir hlutirnir inni á efri hæðinni eiga sér sögu og hafa tilfinningalegt gildi fyrir Vigni. „Til dæmis litli skápurinn undir sjónvarpinu, hann smíðaði ég fyrir mömmu og pabba fyrir um það bil 30 árum sem ýtti mér í þá átt sem ég er í dag. Ljósið sem prýðir baðherbergið er 40 ára gamalt frá mömmu og pabba og hefur líka mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig enda fylgt fjölskyldunni lengi.“

Cappuccino-litur í forgrunni

Litapallettan á veggjunum tónar vel við húsbúnaðinn og rammar gluggana fallega inn. Hér er um að ræða eins konar cappuccino-lit sem er bæði stílhreinn og hlýr. Til að mynda er baðherbergið einkar rómantískt og hafa litapalletturnar mikið um það að segja. „Þar sem baðherbergið er ekki stórt reyndum við að hafa það eins látlaust og hægt væri en samt hlýlegt.“ Gluggaljósin í rýminu á efri hæðinni koma einnig ótrúlega vel út og það má með sanni segja að vel hafi tekist til við að velja réttu lýsinguna fyrir allt rýmið. Persónulegur blær þeirra hjóna setur punktinn yfir i-ið og húsið allt hefur bjart yfirbragð hvert sem litið er.

Pakkhúsið stendur í hjarta bæjarins, húsið er bæði reisulegt og fallegt og minnir á fortíðina. Útsýnið frá efri hæðinni snýr að gosstöðvunum.