Leikarinn og tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar Halldórsson vakti mikla athygli fagurkera fyrr í síðustu viku þegar hann birti myndir af nýuppgerðri íbúð sinni í Skreytum hús Facebook hópinn vinsæla en íbúðin glæsilega er nú komin á sölu.

Um er að ræða þriggja herbergja, 56 fermetra íbúð á fyrstu hæð í fjölbýli á Vífilsgötu 5 í miðborg Reykjavíkur en ásett verð er 42,8 milljón krónur. Í lýsingu eignarinnar hjá 450 fasteignasölu kemur fram að um sé að ræða eign sem vert er að skoða en hún verður sýnd fimmtudaginn næstkomandi.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku sagði Júlí Heiðar það hafa verið mikið verk að gera upp íbúðina en hann hafði verið að gera það samhliða meistaranámi og vinnu, auk þess sem hann er einstæður faðir. „Þetta var heljarinnar pakki. En það tókst að lokum,“ sagði hann.

Hann sagðist hafa notið góðrar aðstoðar vina og fjölskyldu en þakkaði sérstaklega móður sinni sem hann sagði vera með „frábært auga fyrir fallegri hönnun,“ og er óhætt að segja að það sé rétt að orði komið út frá þeim myndum sem hann birti.

Hægt er að lesa nánar um eignina hér. Myndir af íbúðinni má einnig finna hér fyrir neðan.

Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun
Mynd/Fasteignaljósmyndun