Sam­keppnin um Svart­fuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpa­sögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðar­dóttir og Ragnar Jónas­son stofnuðu til verð­launanna í sam­vinnu við út­gefanda sinn, Ver­öld.

Í um­sögn dóm­nefndar um söguna segir meðal annars: „Höggið er ó­venju­leg spennu­saga þar sem undar­leg til­finning grípur lesandann strax á fyrstu síðum bókarinnar. Í lifandi en lát­lausum texta og hnit­miðaðri frá­sögn nær höfundurinn föstu taki á lesandanum."

Mikill heiður

Höggið er þriðja skáld­saga Unnar og fyrsta glæpa­saga hennar. Fyrsta bók hennar Ein­fald­lega Emma kom út árið 2019 og í fyrra kom út Birta, ljós og skuggar. „Báðar eru þær dramatískar sögur þar sem meðal annars er fjallað um ásta­mál,“ segir Unnur Lilja.

Af hverju á­kvað hún að skrifa glæpa­sögu? „Ég var að skrifa og bjóst við að sú bók yrði í svipuðum dúr og þær fyrri en þegar skriftunum var lokið hugsaði ég með mér að hand­ritið gæti hugsan­lega hentað fyrir þessa keppni. Þetta er reyndar ekki hefð­bundin glæpa­saga, það eru til dæmis engar löggur í henni, og þess vegna var ég í byrjun ekki alveg viss hvort ég ætti að senda hand­ritið í keppnina, en á­kvað að láta á það reyna. Það er mikill heiður að fá þessi verð­laun og gaman að fá viður­kenningu á því að maður sé að gera eitt­hvað nýtt.“

Heldur á­fram að skrifa

Unnur Lilja vinnur sem sjúkra­liði á nætur­vöktum, en Höggið hefst á því að ung kona vaknar á sjúkra­húsi með höfuð­á­verka og hefur auk þess misst minnið. „Þessi byrjun er kannski eitt­hvað sem kemur úr undir­með­vitundinni,“ segir hún.

Hún segir fram­hald af bókinni ekki á döfinni þótt endirinn sé opinn. „Ég held alla­vega á­fram að skrifa en það er spurning hvað verður úr því, hvort það verði glæpa­saga eða eitt­hvað annað,“ segir hún.

Er­lendir út­gef­endur hafa sýnt þeim glæpa­sögum sem fengið hafa Svart­fuglinn mikinn á­huga. „Það er mjög spennandi. Ég held alla­vega að þessi saga henti vel til þýðingar. Það verður gaman að sjá hvað verður,“ segir Unnur Lilja.